09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

70. mál, tóbaksvarnir

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. nr. 52/1959, um kosningar til Alþingis, sem ég mæli hér fyrir er endurflutt frá 105. löggjafarþingi með smávægilegum breytingum. Þ. e., frv. var lagt fram en aldrei flutt.

Meginþáttur frv. er samt sjálfsagt flestum hér kunnugur og er svohljóðandi: Við kosningar til Alþingis skal kjósandi eiga þess kost að merkja við listabókstaf eða einstaklinga á listum allt upp í tölu kjörinna alþm. í viðkomandi kjördæmum.

Hvernig atkv. eru reiknuð út og skiptast milli lista eða manna og hvernig finna skal út hve margir frambjóðendur hafa náð kjördæmakosningu á hverjum framboðslista sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í, þar sem þessi atriði skýrast mjög vel í grg.

Þessar hugmyndir eru byggðar á grunnstefnumiðum BJ sem vill beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara, beinna lýðræði. Í hvaða mynd getur valddreifing og lýðræði birst skýrar en í því að fá tækifæri til þess að nýta atkv. sitt rétt eins og maður kýs helst sjálfur? Kosningaaðferð sú sem hér um ræðir er liður í því að rýmka sjálfsákvörðunarrétt kjósanda, rýmka valfrelsi kjósanda í þá átt að hann ákveði sjálfur hvort hann kýs lista í heilu lagi eða hvort hann kýs að kjósa einn ákveðinn einstakling af þeim lista sem kjósandinn gefur fylgi sitt. Sá einstaklingur hlýtur þá heilt atkv. og jafnframt hlýtur listinn atkvæði í heild sinni. Einnig getur kjósandinn ákveðið að skipta atkv. sínu milli einstaklinga á fleiri listum, en þá hljóta listarnir atkvæði í samræmi við það hlutfall sem kjósandinn hefur ákveðið að nota á hvern lista. Vart er hægt að hugsa sér meiri valddreifingu en þá sem fyrr er lýst. Kjósandinn ráðstafar þá atkv. sínu, sem hann væntanlega metur mikils, nákvæmlega á þann hátt sem hann álítur skynsamlegastan. Það samræmist vart lýðræðislegum hugsanagangi, ef betur er að gáð, að þess sé krafist af kjósendum að þeir nýti atkv. sitt allt heilt og óskipt á einn stjórnmálaflokk eða samtök, hafi þeir sjálfir hugmyndir um að þeir æski að skipta því á einhvern annan máta. En getur ekki einmitt hugsast að fólk kjósi að nota atkvæði sitt á annan veg en nú gefast tækifæri til? Að fólk hafi aðrar hugmyndir um þetta fyrirkomulag en núgildandi kosningalagaákvæði gefa tilefni til?

Það hljóta að felast mannréttindi í því að skipta atkv. sínu svo sem mann helst lystir. Vilji kjósandinn stuðla að því með atkv. sínu að talsmenn einhverra ákveðinna hugsjóna og/eða minnihlutahópa, sem setja málstað hans á oddinn, fái atkv. hans, þá ætti það að vera hans skýlausi réttur. Hann ætti að hafa leyfi til þess að fá að kjósa sína talsmenn þvert á lista, alveg eins og það á áfram að vera réttur kjósandans að fá að leggja atkv. sitt heilt og óskipt á einn ákveðinn lista eins og nú er, sé það að hans mati skynsamleg ráðstöfun.

Ég get ekki ímyndað mér annað en að þessi till. hljóti fylgi, því að hvernig má annað vera en að þeir sem hér eru inni, fyrir atbeina þessara sömu kjósenda, vilji nokkuð annað fremur en stuðla að því að rýmka lýðréttindi þeirra? Kjósendur hljóta að eiga til þess fullan rétt að láta skoðanir sínar í ljósi og með þeim hætti sem þeir sjálfir ákveða. Þetta er þeirra réttur, sem er bæði sjálfsagður og eðlilegur. Það er sjálfsagt og eðlilegt að kjósandinn eigi valkosti um það að geta kosið einstaklinga þvert á lista eða af einum lista og þess að geta valið á milli lista, ef hann ákveður það. Þessi kosningaaðferð felur í sér félagsleg réttindi. Það sannaðist fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar fjölda fólks þótti sem hlutur kvenna væri fyrir borð borinn innan fjórflokkakerfisins og þær ættu þar erfitt uppdráttar. Í slíkum tilvikum eða öðrum ámóta verður kjósendum frjálst að kjósa þvert á lista eftir þeim sjónarmiðum sem eru ríkjandi í það og það skiptið.

Við erum með þessu að brjóta upp í raun hið alvalda flokksræði, en í stað þess að bjóða til þjóðræðis þar sem kjósendur fá að nýta sér beint lýðræði og valfrelsi. Valfrelsi, þar sem það er ekki einhlítt flokkanna að hafa einkarétt á því að bjóða upp á valkosti, sem kjósendum beri að taka í heilu lagi eða hafna í heilu lagi. Valið er með þessu fyrirkomulagi, herra forseti, fært til fólksins, þar sem það á heima.

Ég vil að svo mæltum orðum leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og allshn.