21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6432 í B-deild Alþingistíðinda. (5950)

281. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum nr. 43/1982, um útflutningsgjald af grásleppuafurðum. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér. Þar er lagt til að þrátt fyrir þau ákvæði, sem eru í núgildandi lögum um útflutningsgjald af grásleppuafurðum, skuli útflutningsgjald af lagmeti framleiddu úr grásleppuhrognum vera 1.70% af fobverðmæti. Í 2. gr. er gert ráð fyrir að sá hluti útflutningsgjalds, sem greiddur er til Fiskveiðasjóðs, verði greiddur næstu 2–3 árin til Landsbanka Íslands af láni sem þar liggur í vanskilum hjá vissum hópi grásleppumanna sem stóðu í stórræðum fyrir nokkrum árum í sambandi við fyrirhugaða verksmiðjubyggingu í Frakklandi og innkaupum á tunnum og öðru. Þetta mál er þannig til komið að nokkrir þessara aðila, sem voru þar í sjálfskuldarábyrgð, eru komnir í verulegan vanda út af þessu máli og liggur við uppboði á húseignum þeirra og öðru ef ekki verður gert hreint fyrir dyrum í þessu máli.

Það segir skilmerkilega í lögunum frá 1982 að greiða skuli útflutningsgjald af íslenskum grásleppuhrognum og öðrum afurðum sem unnar eru úr grásleppu. Til grásleppuafurða teljast grásleppuafli sem skip skrásett hér í landi veiða og vörur sem úr honum eru unnar til sölu á erlendum mörkuðum. Svo það fer ekki á milli mála að það á að greiða útflutningsgjöld af þessum vörum öllum. Í öðrum lögum, sem fjalla um útflutning eða sérstaklega um lagmetisiðnaðinn, er lögð sú kvöð á lagmetið að greitt sé 1% í svokallaðan þróunarsjóð af þessum fyrirtækjum sem þau fá aftur til sinna afnota til uppbyggingar og annars. Grásleppuveiðimenn halda því fram að við verðlagningu á hrognum til innlendra framleiðenda sé gert ráð fyrir því í verðlagningu að búið sé að draga frá þessi 3.25% sem lögð eru á útflutt söltuð hrogn. Þeir telja því að lagmetið eigi að greiða hliðstætt. Með framreikningi í þessum málum kemur það út að það er nálægt 1.70% sem á að taka í staðinn fyrir 3.25. Þetta vil ég skýra á þennan veg og ætla ég ekki að hafa mörg orð um.

Við skulum gera okkur ljóst að þarna hefur um alllangan tíma verið um nokkurt deilumál að ræða. Ekki eru þeir aðilar allir, sem grásleppuveiðar stunda, í þessum samtökum sem fóru út í þær framkvæmdir sem stofnuðu til skuldanna fyrir tæpum tveimur árum. Ég held að það sé það mikill félagsandi á meðal þessara manna að mér skilst að þeir séu eftir atvikum, vil ég orða það, tilbúnir að taka þetta á sig yfir línuna að gera þetta, þetta eru þeirra eigin fjármunir. Ég persónulega get ekki lagst á móti því ef þeir vilja gera þetta sjálfir fyrir eigið fé sem þarna er um að ræða. (Gripið fram í: Þá þarf ekki lög.) Það þarf lög vegna þess að þó að þessu gjaldi sé bætt þarna við nýtur það þess sama og er í þeim lögum sem í gildi eru. Þetta mun þá skiptast niður á þær stofnanir sem áttu þarna úr að njóta og það er á þann veg að til örorkutryggingar skipverja séu 41% af þessum 3.25, 20% eiga að fara í Aflatryggingarsjóð, Fiskveiðasjóður á að fá 24% og Samtök grásleppuhrognaframleiðenda 15%. Þó að þetta yrði því gert að óbreyttum lögum nægir það ekki til að sá hluti, sem færi til Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda, dygði til að fara með þessa skuld í þann farveg sem á þarf að halda og létta þessu af mönnum. Það er skýringin á þessu.

Í n. voru mættir í morgun Valdimar Indriðason, Skúli Alexandersson, Egill Jónsson, Jón Kristjánsson og Árni Johnsen. Þeir leggja til að þetta verði samþykkt en aðrir gátu ekki mætt á fundinn.

Ég tek á mig sökina á því að það var ekki boðað. Það var fundur í samgn. þar á undan og við tókum þennan fund á eftir en þau komu þar ekki. Ég vona að það fyrirgefist og auðvitað gera þeir aðilar, sem ekki eru hérna á nál., þá grein fyrir sinni afstöðu til málsins. En ég hef þessi orð ekki fleiri og vonast til að þessu verði hægt að hraða hér í deildinni.