10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

Umræða utan dagskrár

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þessar umr. í Sþ. um síðustu svörtu skýrsluna, skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, eru þarfar. Ég þakka hv. 7. landsk. þm. fyrir að hafa hafið umr.

Það hefur ágerst mjög undanfarin misseri að umræðan um sjávarútvegsmál hefur orðið mun neikvæðari en áður. Þeir sem að sjávarútvegsmálum starfa hafa verið fordæmdir fyrir hina breytilegustu hluti. Fullyrðingar eru um of stóran fiskiskipaflota og hann illa rekinn. Minnkun eða samdráttur fiskstofna er sagður sjómönnum að kenna. Það liggur stundum í umtalinu að sjávarútvegurinn sé ómagi á þjóðinni.

Skóli eins og Fiskvinnsluskólinn, sem fyrir nokkrum árum átti að verða óskabarn fiskveiðiþjóðarinnar, veiðimannaþjóðarinnar, er enn í mjög ófullnægjandi leiguhúsnæði og ekkert bólar þar á myndarlegri uppbyggingu. Fiskmatsmenn og eftirlitsmenn hjá Framleiðslueftirliti ríkisins eru mjög illa launaðir. Úttektar- og eftirlitsmenn þeirrar stofnunar þurfa helst að ferðast á puttanum ef þeir þurfa að komast á milli byggða. Það er munur að sjá hvernig búið er að bankaeftirlitsmönnunum, þegar þeir þurfa að líta á fiskbirgðir, eða þá eftirlitsmönnum á vegum Rafmagnsveitna ríkisins.

Bankastjóri við aðalviðskiptabanka landsins segir að löngu kunn sannindi að allt of margir sjómenn séu á Íslandi. Það liggur við að maður búist næst við að fá þá yfirlýsingu að gjaldeyrir okkar verði til í bönkunum og það liggur við að sú yfirlýsing hafi verið gefin.

Þessi áróður og umr. eru þegar farin að skila árangri. Erfiðara og erfiðara reynist að manna fiskiskipaflotann. Ungt fólk forðast þessa atvinnugrein. Þeim fækkar ár frá ári sem sækja um skólavist í Stýrimannaskólanum. Ef fram heldur sem horfir að fjölmiðlar og forustumenn útþaninna þjónustustofnana, banka og verslunar halda áfram þeirri neikvæðu umfjöllun um sjávarútveginn verður þeim sjálfsagt að ósk sinni. Þá kemur fljótt að því, að sjómennirnir okkar fari í land, skipin verði bundin við bryggju eða seld úr landi. Þá munum við sjálfsagt geta notað þann gjaldeyri sem þeir búa til í Seðlabankanum og keypt fyrir hann hinar breytilegustu vörur. Svo getum við opnað nýjan vörumarkað í auðum húsakynnum Stýrimannaskólans.

Svarta skýrslan um þorskstofninn á fiskimiðum okkar er plagg sem við skulum taka alvarlega. Ég rengi ekki þær upplýsingar, sem þar koma fram, og okkur ber að taka mið af þeim. Tillögur um 200 þús. tonna þorskafla á næsta ári miðast við óbreytt ástand á Íslandsmiðum. Vitað er um nokkuð sterkan þorskstofn við Grænland og Færeyjar og Færeyingar hafa verið í óðum þorski, þannig að með nokkurri bjartsýni getum við búist við uppbót á þessum 200 þús. tonnum frá Grænlandi og jafnvel kannske úr suðurátt frá Færeyjamiðum. En það getur reyndar farið á annan veg og við náum því ekki að fiska þessi 200 þús. tn. Það getur aftur farið eins og í ár, að við náum ekki þeim afla sem við ætlum okkur eða teljum æskilegt að veiða. Þótt svo færi fengjum við að vísu skell, en það væri skellur sem við ættum að vera menn til að taka á okkur ef allt væri með felldu.

Í áratugi var Norðurlandssíldin aðalfiskstofninn og veiði hennar undirstaða bátaútgerðar á Íslandi. Ár eftir ár og áratímabil eftir tímabil hvarf þessi silfurfiskur af miðunum. Stundum gerðist þorskurinn okkur einnig tregur þessi sömu aflaleysisár. Þessi aflaleysisár stóð sjávarútvegurinn af sér og þjóðarbúið líka.

Útgerð á þessum árum var miklu einhæfari en nú. Nýtanlegar fisktegundir voru þá fyrst og fremst þorskur og síld. Þótt nú sé um stund nokkuð dökkt í álinn í sambandi við þorskstofninn og karfastofninn reyndar líka skulum við hafa það í huga og viðurkenna það, að við slíku má alltaf búast og slíkum lægðum í aflabrögðum eigum við að venjast. En sem betur fer höfum við nú í fleiri fiskstofna að sækja en áður. Síldin er nú vaxandi fiskstofn. Það er jafnvel gefið undir fótinn um að Norðurlandssíldin komi brátt á miðin aftur. Humar og hörpudiskur skila drjúgu í þjóðarbúið. Rækjan hefur komið af stað nýju ævintýri fyrir norðan, líku síldarævintýrinu í gamla daga. Sótt er í loðnuna á ný. Skip sem verið hafa stopp undanfarið eru nú komin á miðin á ný og verksmiðjur fara senn að snúast. Verð á fiskilýsi og mjöli er mjög hækkandi. Sú þróun getur gert kolmunnaveiðar í bræðslu vel arðbærar og einnig spærlingsveiðar.

En þetta er ekki nóg. Ástandið hjá íslenskum sjávarútveg er þannig í dag, að það er ekki nóg að koma með afla að landi þótt það sé metafli. Þrátt fyrir það er tap á að gera út fiskiskip á Íslandi.

Þeir sem tala um að sjávarútvegur sé styrkþegi á þjóðinni ráða allt of miklu hjá okkur. Það er ekki allt með felldu í sambandi við það hvernig búið er að þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar. Fjármagnskostnaður er það mikill, að þótt allt aflaverðmæti nýlegs skips sé notað til að greiða þann kostnað dugar það ekki.

Upplýsingar um þann þátt kom greinilega fram í sjónvarpsviðtali í fyrrakvöld, þegar rætt var við útgerðarmann togarans Óskars Magnússonar á Akranesi. Skipin hafa verið látin standa ábyrg fyrir greiðslu dollaralána með allt að 22% vöxtum og á meðan dollarinn hefur hækkað yfir 100% hefur fiskverð ekki hækkað nema um hluta þeirrar upphæðar. Með slíku fyrirkomulagi hefur verið skipulögð millifærsla frá sjávarútvegi til banka og milliliða. Sjávarútvegur og launþegar í landinu eru látnir standa undir óskapnaðareyðslukerfi banka og verslunar, allt of stórs skipaflota, sem ekki nýtir nema rúmlega helming flutningsgetu sinnar, þriggja olíufélaga, tryggingafélaga og annarra illa stjórnaðra milliliðaþátta.

Þótt svarta skýrslan sé ábending um aukna erfiðleika í íslenskum sjávarútveg eru þeir erfiðleikar sem þar blasa við yfirstíganlegir ef afætustofnunum þjóðfélagsins verður gert erfitt um vik að draga til sín allt of stóran hluta af aflahlut sjávarútvegsins og þeim um leið gert að skila aftur til þessa undirstöðuatvinnuvegar þeim fjármunum sem þessir aðilar hafa á undanförnum mánuðum og árum ranglega tekið til sinnar eyðslu frá sjávarútveginum. Í slíkri aðgerð felst „pennastrikið“ sem hæstv. fjmrh. hefur boðað að koma skuli. Væntanlega heyrum við meira af því á næstu vikum.

Sjómönnum og fiskifræðingum er nú kennt um hvernig komið er fyrir þorskstofninum. Þessum aðilum var einnig kennt um minnkun loðnustofnsins, um hrun Norðurlandssíldarinnar. Í öllum þessum tilfellum bendir flest til að um náttúrufræðilegar sveiflur hafi verið að ræða. Frávik frá áætlun fiskifræðinga hafi fyrst og fremst verið af slíkum toga. Við slíkum sveiflum megum við alltaf búast. En sem betur fer eru slíkar sveiflur ekki alltaf á verri veginn. Stundum eykst afli umfram það sem búist er við. Það er sjálfsagt að ræða um æskilega stærð fiskiskipaflotans, skipulagningu veiða og vinnslu og þó fyrst og fremst bætta meðferð og verðmætisaukningu á afla og gera þar eitthvað raunhæft. Sú umræða og aðgerðir henni tengdar breyta ekki því að sjávarútvegurinn er best rekna atvinnugreinin á Íslandi og íslenskur sjávarútvegur er trúlega best rekni sjávarútvegur í heimi. Íslenskir sjómenn skila margföldum afköstum á við starfsbræður þeirra í nálægum löndum og úthaldsdagar íslenskra fiskiskipa á ári eru miklu fleiri hjá okkur en hjá fiskiskipum nágrannaþjóða.

Hin neikvæða umræða um sjávarútveginn og sú afstaða og þau kjör sem sjávarútveginum eru nú búin af stjórnvöldum breyta ekki heldur því, að það er sjávarútvegurinn sem hefur búið okkur þau lífskjör sem við höfum og búum nú við. Þegar sjávarútvegurinn er rekinn með tapi í metaflaárum eins og 1981 og 1982 og enn hrikalegra tapi nú, þegar dregur úr afla, þá er það vegna þess að þeir sem eiga að verja hagsmuni hans hafa ekki staðið sig. Afætuöflunum í þjóðfélaginu hefur ekki verið haldið í skefjum. Ef undanhaldi fyrir þeim öflum verður snúið í sókn þurfum við ekki mjög að óttast afleiðingar svörtu skýrslunnar.