22.05.1984
Neðri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6558 í B-deild Alþingistíðinda. (6145)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki séð nauðsyn bera til að afgreiða þetta frv. Núverandi skipan hefur ekki háð starfsemi Búnaðarbanka Íslands nema síður sé. Honum hefur verið stjórnað með þeim hætti að staða hans hefur yfirleitt verið betri gagnvart Seðlabanka Íslands en annarra ríkisviðskiptabanka.

Frv. þetta felur í sér aukna miðstýringu bankakerfisins sem gengur í öfuga átt við aukið frjálsræði um starfsemi innlánsstofnana. Í grg. er þess getið að ætlunin sé að það tryggi samræmdari afstöðu stjórnvalda gagnvart bönkum að fella þá undir einn ráðh., m. a. til þess að koma við betri stjórnun í því að ekki verði um of öra fjölgun útibúa að ræða. Ég tel að réttara væri að setja almennar reglur um þau skilyrði sem innlánsstofnanir þurfa að uppfylla til þess að stofna bankaútibú eða bankaafgreiðslur heldur en að koma á miðstýringu með þessum hætti. Að mínu áliti er þetta frv. ekki þarft. Það gæti hins vegar reynst verða til mikillar óþurftar. Ég segi nei.