15.11.1983
Sameinað þing: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 55 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðrúnu Helgadóttur og Kristínu S. Kvaran að bera fram svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því að leysa vandamál þeirra öryrkja sem eiga sakir andlegrar og líkamlegrar fötlunar örðugt um vistun á þeim stofnunum sem fyrir eru. Helst yrði um að ræða að efla stuðning við hjúkrun í heimabyggð eða stofnun sérdeildar við ríkisspítala.“

Þessari till. fylgir svohljóðandi grg.:

„Tillaga þessi er borin fram af brýnni þörf. Vissulega er erfitt að setja ákveðin mörk þegar vandi öryrkja er skoðaður og möguleikar þeirra til eðlilegrar og sjálfsagðrar aðstoðar samfétagsins. Nægir að minna á vanda fjölfatlaðra barna sem ráða verður svo skjóta bót á sem unnt er. Um það atriði verður flutt sérstakt þingmál.

Hins vegar segja þeir sem gerst þekkja til þessara mála að í dag séu nokkrir öryrkjar, u.þ.b. 10–15 einstaklingar, sem séu alls ekki vistaðir við eðlilegar aðstæður eftir slys eða önnur áföll og eigi í raun hvergi heima á stofnunum þeim sem fyrir eru eins og þær eru nú í stakk búnar. Þessir öryrkjar eru yfirleitt vistaðir á almennum sjúkrahúsum og endurhæfingarstöðvum og þá sem alger neyðarráðstöfun vegna skorts á mannafla til að liðsinna þeim. Hér er ekki um marga að ræða, en vandinn varðandi þá þeim mun meiri, og hefur m.a. komið í ljós í því að starfsfólk viðkomandi stofnana hefur allt að því hótað að ganga út ef þessari byrði yrði ekki af þeim létt.

Efling hjúkrunar á þeim stöðum þar sem þessir sjúklingar eru nú vistaðir eða stofnun sérdeildar við einhverja sjúkrastofnun sem sinnir svipuðum vanda mundi leysa brýnustu vandamálin sem eru hrikaleg. Með þeim einum hætti verður komið til móts við þessa einstaklinga sem auk líkamlegrar fötlunar sinnar eiga gjarnan við geðræn vandamál að stríða. Sömuleiðis þarf að létta á þeim almennu stofnunum sem leysa þessi mál við alls ófullnægjandi aðstæður og til mikils skaða fyrir aðra starfsemi sína.“

Þessi stutta grg. segir í raun lítið um viðkvæmt og vandasamt mál. Þegar forystumaður í öryrkjasamtökunum heyrði nafn eða fyrirsögn tillögunnar kvað sá hinn sami erfitt að skilgreina einangraðan vanda ákveðins hóps. Þrátt fyrir stórátak í þessum málum með endurhæfingaraðstöðu eða heimilisaðstöðu væri enn svo óralangt í land að unnt væri að telja vistunarvanda öryrkja leystan eða lausn þess vanda í sjónmáli. Á þetta sjónarmið fallast flm. raunar í grg. En afmörkun þessa viðfangsefnis, þessa sérstaka hóps, sem við ætlum hér að ná til er vissulega ekki einföld. Ágætur endurhæfingarlæknir sem kynnst hefur flestum þessara einstaklinga orðaði vanda þeirra og skilgreindi þá eitthvað á þessa leið: „Þetta eru einstaklingar sem hafa skaddast alvarlega líkamlega sem andlega, hafa mörg einkenni geðsjúkra og raunar einnig þroskaheftra, en eru að hluta til meðvitaðir um það ástand sem var áður en slysið henti þá og valda því ótrúlegum erfiðleikum og eiga sjálfir við enn meiri erfiðleika að etja.“ Hvergi nærri er hér um tæmandi lýsingu að ræða, enda býsna erfitt um vik. Öll nánari skilgreining er því vandasöm og ekki síður viðkvæm, því að ekki fer hjá því að spurningar vakni um það hverjir teljist til þess hóps. Ég þekki beint dæmi hér um býsna vel og hef komið að því máli og til annarra þekki ég nokkuð. Á almennu sjúkrahúsi dvelst t.d. einn þessara einstaklinga. Vistun hans er neyðarúrræði. Erfiðleikar hans eru ótrúlegir, erfiðleikar starfsfólksins eru miklir og samskipti við sjúklinga er sérvandamál. Ekki hefur verið unnt að veita sérstaka aðstoð sem fullnægjandi gæti talist og vistun sem varanleg gæti orðið hefur ekki tekist.

Hér er um mikla sorgarsögu að ræða og verður hún ekki rakin frekar. En slíkar sögur eða svipaðar væri unnt að fara nánar út í, en eflaust þekkja ýmsir til slíkra dæma. Sértæk aðstoð, varanleg vistun, hvort tveggja ekki fyrir hendi og einstaklingarnir, aðstandendur og aðrir sem málið snertir eygja fá ráð. Spurt er án efa hvort hér sé ekki um forgangsverkefni að ræða hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra ásamt því verkefni sem flm. víkja að sérstaklega og snertir fjölfötluð börn sem er enn stærra og viðameira og enn erfiðara viðfangs. Vissulega má benda á þennan sjóð og síst ætti ég að gera lítið úr því, enda átti ég aðild að stjórn hans á sínum tíma, en verkefni hans eru nær óþrjótandi og ekki blæs nú um stundir byrlega fyrir fjármögnun hans. Hins vegar telja flm. að æskilegast væri að athuga hvort nokkur leið fyndist til nægilegrar aðstoðar heima í héraði og þeirrar aðhlynningar sem þörf væri. Hvort tveggja er að þetta er án alls efa dýr leið og erfið í framkvæmd, en flm. leggja þó áherslu á að á þessa leið sé látið reyna í fyllstu alvöru. Einangrunarsjónarmið á hér ekki að gilda frekar en í öðrum málefnum fatlaðra. Hins vegar kann að vera að sérdeild við ríkisspítala sé eina færa leiðin og þá hlýtur það að vera beint verkefni heilbrigðisþjónustunnar utan og ofan við hin ótal mörgu verkefni sem Framkvæmdasjóður fatlaðra þarf að fjármagna. Frekari hugleiðingar mætti gjarnan hafa um þetta, leita leiða og skoða möguleika til úrtausnar. Ég treysti því að það verði gert vandlega í þeirri hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar.

Ég sem 1. flm. þessa máts gæti rakið hér dæmi um einstaklinga úr þessum hópi sem knúið hefur verið á um á þessu ári, þ.e. aðstandendur þeirra og aðrir aðilar fyrst og fremst hafa knúið á um að fá einhverja lausn. Hér er ýtt úr vör. Það er vakin ný athygli á þessu knýjandi máli, það er reynt að koma því í einhvern þann farveg sem er í átt til velferðar þeirra sem flm. bera hér fyrir brjósti. Um þá vanrækslu sem við öll berum vissa ábyrgð á skal ekki fjölyrt, en ljóst er að hér þarf samfélagið að taka á og að um ótvírætt forgangsverkefni er að ræða í velferðarsókn okkar einmitt á sviði heilbrigðismála.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að loknum þessum hluta umr. að leggja til að þessari till. verði vísað til hv. allshn.