23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Frv. til l. um ríkismat sjávarafurða, sem ég mæli hér fyrir, á sér alllangan aðdraganda eins og kemur skýrt fram í grg. með frv. Ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi máls að fara ítarlega í öll þau atriði er grg. fjatlar um, heldur reyna að drepa á helstu nýjungar sem felast í frv.

Fiskmatsráð, sem að miklu leyti stóð að samningu frv., taldi eðlilegt að nafn þeirrar stofnunar er færi með stjórn fiskmatsmála í landinu bæri þess augljós merki að hér væri um að ræða eftirlit og mat hins opinbera með sjávarafurðum, þar sem nokkrir útflutningsaðilar sjávarafurða hafa um lengri eða skemmri tíma komið sér upp sérstöku framleiðslueftirliti með framleiðslu sinna umbjóðenda. Af framangreindum ástæðum hefur nafnið ríkismat sjávarafurða orðið fyrir valinu.

Frv. til l. um ríkismat sjávarafurða greinist í sjö kafla og verður nú gerð grein fyrir helstu breytingum í hverjum kafla fyrir sig.

1. kaflinn fjallar um almenn ákvæði og felur hann í sér litlar breytingar frá núgildandi lögum nr. 108/1974. Þó er þar að finna heimildarákvæði til að fela sérstökum aðilum með ákveðnum skilyrðum eftirlit með vinnslu og mati á afurðum. Með þessu er opnað fyrir þann möguleika að aðrir aðilar en opinberir geti annast bæði eftirlit og mat með sjávarafurðum. Í frv. er byggt á þeirri forsendu að allt yfirmat verði hins vegar á vegum ríkismats sjávarafurða.

Í II. kafla eru skilgreind verkefni fiskmatsráðs. Hér er um nýmæli að ræða. Fiskmatsráði er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að vera tengiliður milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stjórnvalda varðandi fiskmat. Nokkuð hefur þótt bera á því að reglugerðir og matsreglur hins opinbera mats fylgdu ekki breytingum á markaðskröfum. T.d. eru gildandi reglugerðir um freðfisk og skreiðarmat 30 ára gamlar. Hagsmunaaðilar þekkja best óskir og þarfir erlendra viðskiptavina okkar. Það er því eðlilegt og nauðsynlegt að unnið sé að að koma nauðsynlegum breytingum varðandi fiskmat á framfæri án óeðlilegra tafa. Að öðru leyti leyfi ég mér að draga saman í sex atriðum helstu verkefni fiskmatsráðs eins og gert er ráð fyrir í frv.

Í fyrsta lagi skal það vera til aðstoðar ráðh. varðandi starfsemi og verkefni ríkismats sjávarafurða, í öðru lagi tillöguaðill varðandi setningu reglna er varða starfsemi ríkismats sjávarafurða, í þriðja lagi umsagnaraðili um ágreiningsmál er upp kunna að koma um fiskmat, í fjórða lagi skal það leitast við að koma á aukinni samvinnu ríkismats sjávarafurða, vinnsluaðila og útflytjenda sjávarafurða um gæðamat og sjávarafla, í fimmta lagi skal það gera tillögur um rannsóknir og tilraunir er miða að bættri meðferð sjávarafla og nýjungum í vinnslu hans, í sjötta lagi að vera umsagnaraðili um veitingu starfa hjá ríkismati sjávarafurða.

Í grg. með frv. segir svo um framkvæmdastjóra fiskmatsráðs, sem nefnist fiskmatsstjóri:

„Gert er ráð fyrir því, að ráðinn verði fiskmatsstjóri til fjögurra ára. Fiskmatsstjóri er framkvæmdastjóri fiskmatsráðs og hefur á hendi yfirumsjón með allri starfsemi ríkismats sjávarafurða. Hann hefur sér við hlið fiskmatsráð, sem annast víðtæk fagleg verkefni.

Með þessu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir því, að fiskmatsstjóri annist fyrst og fremst stefnumótandi málefni og tengsl út á við, en forstöðumenn deilda daglegan rekstur.“

III. kaflinn fjallar um starfsmenn ríkismats sjávarafurða. Hér er um það nýmæli að ræða að forstöðumenn deilda eru skipaðir til fjögurra ára. Um þennan kafla er fjallað mjög ítarlega í grg. með frv. og vísast til hennar. En það sem hér mætti benda á sem breytingu frá gildandi lögum er að í stað fjögurra deildarstjóra, sem nú starfa við stofnunina, eru ráðnir tveir forstöðumenn deilda, sem hafa á að skipa sérhæfðum fulltrúum í helstu matsgreinar. Í grg. segir m.a. um þetta atriði:

„Talið er óhjákvæmilegt að skipa fulltrúa, sem sérhæfðir eru í helstu matsgreinum. Þeim er fyrst og fremst ætlað að stjórna og hafa eftirlit með störfum yfirmatsmanna í samráði við forstöðumann viðkomandi deildar.

Fulltrúarnir eiga að veita yfirmatsmönnum nauðsynlegar leiðbeiningar og samræma störf þeirra og starfsaðgerðir.

Leiðbeiningar- og samræmingarstörf eru afar mikilvæg, en hafa orðið útundan í of ríkum mæli.“

IV. kafli fjallar um ferskfiskdeild, en þar eru skilgreind verkefni þeirrar deildar. Gert er ráð fyrir að verkefni núverandi hreinlætis- og búnaðardeildar framleiðslueftirlitsins varðandi fiskiskip og hráefnisgeymslur fiskvinnslustöðva verði samkv. frv. flutt undir ferskfiskdeildina. Helstu nýjungar eru þær að öðru leyti, að gert er ráð fyrir að eftirlitsmenn deildarinnar fylgist nánar en áður með ástandi landaðs afla og geymstu hans eða allt til þess að vinnsla hefst. Eftirlitsskyldan nær m.ö.o. inn í hráefnisgeymslur fiskvinnslustöðvanna, en ákvæði þess efnis munu vera í núgildandi reglugerð. Það er ennfremur nýmæli að lögbundið verði að starfsmenn ríkismats sjávarafurða stærðarmeti allan ferskan afla auk gæðamats. Að vísu annast matsmenn nú stærðarmat og oft gegn sérstökum greiðslum frá fiskkaupendum. Að öðru leyti verða verkefni ferskfiskdeildar samkv. frv. þau sömu og eru nú hjá ferskfiskdeild og hreinlætis- og búnaðardeild framleiðslueftirlitsins.

V. kafli fjallar um afurðadeild og í grg. með frv., sem ég vil gjarnan vísa til, segir m.a. um 14. gr.:

„Sú nýjung felst einkum í þessari grein, að aðalreglan verður sú, að afurðadeild annast aðeins yfirmat. Gert er ráð fyrir, að eftirlit með vinnslu og gæðaflokkum færist á hendur samtaka framleiðenda eða sölusamtaka, eins og reyndin hefur orðið í hraðfrystiiðnaðinum. Meðan slíku hefur ekki verið komið á annast ríkismatið nauðsynlega starfsemi á þessu sviði.“

Gert er ráð fyrir að settar verði reglur um útflutningsvottorð. Útgáfu þeirra annast afurðadeild.

„Útgáfa vinnsluleyfa er í samræmi við núgildandi lög nr. 108/1974, en þau eru hugsuð hér til tryggingar því að hreinlætisbúnaður vinnslustöðva uppfylli sett skilyrði. Matsmenn og annað starfslið annast hreinlætiseftirlit.“

Hér er gert ráð fyrir að afurðadeild yfirtaki hluta af þeim störfum eða verkefnum er samkvæmt núgildandi lögum fatla undir hreinlætis- og búnaðardeild.

VI. kafli fjallar um framleiðsluleyfi og skyldur útflytjenda. Það nýmæli er í þessum kafla, að fiskvinnsla til útflutnings verður háð leyfum sjútvrn. Leyfis er nú eingöngu krafist við skelfisk- og rækjuvinnslu, sbr. lög nr. 12/1975, en ýmsar veiðar hafa um árabil verið leyfisbundnar t.d. veiðar á rækju, síld, humri, þorski í net o.s.frv. Markmiðið með þessu er að auðvelda rn. að beita aðferðum til að stýra vinnslu og viðhalda gæðum á sama hátt og veiðileyfi hafa reynst árangursrík við fiskveiðistjórnun. Framleiðsluleyfið kemur ekki í stað vinnsluleyfis þess sem nú er gefið út af hreinlætis-og búnaðardeild framleiðslueftirlitsins.

Í þessum kafla er ennfremur nýtt ákvæði í 18. gr. frv., en það er samkv. gildandi reglugerð skylt að hafa fiskmatsmann í hverju hraðfrystihúsi. Hér er gert ráð fyrir að matsmenn verði löggiltir og jafnframt að öllum framleiðendum sjávarafurða til útflutnings verði skylt að hafa löggilta matsmenn í þjónustu sinni, enda órökrétt að mismuna vinnslugreinum á þennan hátt. Með þessu ákvæði er stigið skref til aukinnar verkaskiptingar milli fiskverkenda og hins opinbera fiskmats og áhrif framleiðenda aukin.

Önnur ný ákvæði eru í þessum kafla. Skal hér drepið á ákvæði 19. gr. frv., en þar segir í grg.:

„Stærstu útflytjendur sjávarafurða hafa um árabil haft víðtækt gæðaeftirlit á sínum vegum. Eftirlitsmenn samtakanna hafa verið á stöðugum ferðalögum milli þeirra fiskvinnslustöðva sem framleiða undir merkjum þeirra. Veigamikið er fyrirkaupendur að geta treyst því að vara, sem seld er undir sama vörumerki og sama gæðaflokki, sé sambærileg að gæðum. Einnig er mikilvægt að framleiðendur geti treyst því að þeim sé ekki mismunað.

Þar sem slíkt eftirlit er virkt ætti ekki að vera þörf á að ríkismatið sinni þessu sama hlutverki, og er gert ráð fyrir að ríkismatið feli útflytjendum þetta hlutverk, sbr. heimildir í 1. gr.

Lagagreinin heldur þeim möguleika opnum að útflytjendur geti keypt þessa þjónustu af viðurkenndum aðilum.“

Til áréttingar því sem að framan hefur verið rakið vil ég aftur draga saman þau atriði sem kallast mega allverulegar og helstu breytingar frá núgildandi lögum um framleiðslueftirlit sjávarafurða, en þau eru þessi:

1. Stofnun fiskmatsráðs.

2. Stöðum deildarstjóra við stofnunina er fækkað úr fjórum í tvær.

3. Framleiðsla á sjávarafurðum til útflutnings verður leyfisbundin.

4. Gert er ráð fyrir aukinni ábyrgð framleiðenda sjávarafurða með því að þeir komi á fót eigin framleiðslueftirliti og þar með komið á nýrri verkaskiptingu milli framleiðenda og útflytjenda annars vegar og opinbers eftirlits hins vegar.

Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hæstv. sjútvn.