23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð eftir ræðu síðasta hv. ræðumanns, Garðars Sigurðssonar. Ég vil sérstaklega draga fram þann ítarlega undirbúning sem þetta mál hefur fengið. Undirbúningur þess hófst með skipun nefndar sem þáv. sjútvrh. Kjartan Jóhannsson skipaði 1979. Sú nefnd skilaði ítarlegu áliti sem sent var út til hagsmunaaðila og ítarlegar umsagnir bárust frá þrettán aðilum. Í þeim álitum kom m.a. fram sú tillaga að skipað yrði fiskmatsráð, sem reyndar var í tillögum fyrri nefndarinnar, en var stutt af þeim hagsmunaaðilum sem skiluðu áliti. Ég ákvað því að skipa slíkt fiskmatsráð og gerði það í jan. 1982 og fól þessu fiskmatsráði að taka málið allt enn til nýrrar skoðunar með tilliti til þeirra umsagna sem höfðu borist og hafa þá samráð við hagsmunaaðila. Þetta var gert og mikil vinna í það lögð. M.a. voru haldnir tveir fundir í nóv. 1982 með hagsmunaaðilum og þeim enn gefinn kostur á að skila inn umsögnum. Þetta gerðu þeir og bárust að nýju 13 umsagnir um þessar tillögur. Ég vil þess vegna leyfa mér að halda því fram að málið hafi fengið mjög ítarlegan undirbúning og þess verið sérstaklega gætt að hafa samráð við sem flesta aðila sem að þessum málum vinna. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að ekki náist árangur í þessu mikilvæga máli nema samstaða sé um þær breytingar og þær aðgerðir sem til er gripið. Þess vegna var lögð svona rík áhersla á það bæði í tíð hv. þm. Kjartans Jóhannssonar sem sjútvrh. og í minni tíð að samráð væri haft við sem allra flesta menn á þessu sviði. Menn geta gert lítið úr þeim breytingum sem þarna eru lagðar til. Ég er því ósammála en skal ekki rekja það. Hæstv. sjútvrh. hefur fjallað um það.

Hv. þm. gat þess að ég fékk tillögur frá sérstakri nefnd sem ég skipaði og bað að gera tillögur um betri meðferð á afla í togskipum. Það er misskilningur að samstaða hafi verið með öllum nefndarmönnum. Sérálit komu fram og m.a. kom í ljós að sumt, sem lagt var til, var ákaflega erfitt í framkvæmd, eins og t.d. hugmyndir um að takmarka togtíma. Enginn sem ég kvaddi til gat bent mér á hvernig það ætti í raun og veru að gerast, nema hafa þá mann um borð í hverju skipi. Fleira þess háttar gæti ég nefnt. En í þessum tillögum voru margar mjög góðar ábendingar og þeim var að sjálfsögðu komið á framfæri við Framleiðslueftirlit ríkisins, því að margt af því er þegar í reglugerð. Hins vegar taldi ég réttast að fiskmatsráð fengi þessar tillögur til meðferðar með öðrum ábendingum fjölmörgum sem inn bárust og þannig var farið með málið. Það má því segja að það sé liður í því sem hér er nú lagt fram í dag um ríkismat sjávarafurða.

Ég vildi aðeins að þessar skýringar kæmu hér fram um leið og ég tek undir þau orð hv. þm. að fátt er mikilvægara fyrir okkur Íslendinga en að bæta meðferð sjávarafla. Því miður er þar mörgu ábótavant og því miður hafa gerst þar mjög alvarleg slys, jafnvel svo að orðið hefur að taka heim að nýju sendingar sem úr landi hafa verið farnar. Slíkt má vitanlega ekki henda. Í því skyni að hafa betri tök á þessu er ábyrgð framleiðenda og útflytjenda gerð meiri og þá unnt jafnvel fyrir ítrekuð brot að svipta menn leyfi ef út af er brugðið. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það er ekki of lítil hegning, þegar slíkt er framkvæmt að því er virðist stundum nánast að yfirlögðu ráði eða trassaskap og verður vitanlega að koma í veg fyrir slíkt.

Hins vegar vil ég taka það fram að mjög vaxandi skilningur hefur verið á þessu upp á síðkastið og ég tel að þegar gæti mjög í meðferð sjávarafla og vinnslu þess áróðurs, sem hv. þm. nefndi einnig hér áðan, sem hefur verið framkvæmdur á þessu sviði. Það er algjör misskilningur hjá hv. þm. að ekkert hafi verið gert í þeirri kynningu.

M.a. var eftir samþykki fyrrverandi ríkisstj. varið milljónum króna einmitt til kynningar á þessu sviði. Kynningarrit og kynningarefni hefur verið útbúið og teknar upp viðræður við framleiðendur sem hafa jafnframt fylgt því eftir hver á sínu sviði. Ég vil því leyfa mér að fullyrða að mikið hafi verið unnið á þessu sviði. En meira þarf að vinna því að hér er um gífurlega stór hagsmunamál þjóðarinnar að ræða.