04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 21 till. til þál. um að leggja niður starfsemi Ríkismats sjávarafurða. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að annast framkvæmd þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að leggja megi niður starfsemi Ríkismats sjávarafurða.“

Með þessari till. er grg. sem fylgir reyndar einnig með tólf öðrum málum svipaðrar ættar. Í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Till. þessi byggist á þeirri skoðun BJ að leggja beri niður þá starfsemi á vegum ríkisins sem í ljósi breyttra atvinnuhátta, tækni og annarra aðstæðna er óþarft að ríkið sinni.“

Lögin um Ríkismat sjávarafurða eru nr. 53 frá 1984. Þar var starfsemi Fiskmats ríkisins endurskipulögð með nokkrum hætti og lög þessi samin og samþykkt í kjölfar undangenginnar athugunar á starfi Fiskmatsins. Fjárveitingar til Ríkismats sjávarafurða á þessu ári eru 40 millj. kr. umfram sértekjur ríkismatsins.

Ríkismat sjávarafurða er þríþætt. Það er ferskfiskmat, það er afurðamat og það er eftirlit með heilbrigðisog hollustuháttum í fiskvinnslu og útgerð.

Ef horft er til ferskfiskmatsins og maður spyr sig þeirrar spurningar hvers vegna þetta fyrirkomulag er sem nú er haft á þeim málum, þá verður það náttúrlega að viðurkennast að á meðan það er í raun og veru á hendi ríkisvaldsins að ákveða verð á fiski, þá er gæðamat af hendi ríkisins í sjálfu sér e.t.v. ekki óeðlilegt. Það fylgir því náttúrlega ákveðin ábyrgð að ákveða verðið á fiski milli kaupenda og seljenda og er eðlilegt að sá aðili sem þá ábyrgð tekst á hendur fylgi henni eftir með gæðamati. Samt sem áður er mjög erfitt að finna fyrir því rök eða sanna það með nokkrum hætti að eitthvert samhengi sé milli endanlegra tekna af þessum afurðum — þá á ég við útflutningstekna — og starfs Fiskmats ríkisins eða Ríkismats sjávarafurða. Það er mjög erfitt að staðhæfa að þetta skilaði meiru til þjóðarbúsins heldur en ef verðákvörðunin væri einfaldlega á hendi kaupanda og seljanda. Ríkismatið firrir báða aðila í þessu máli ábyrgð. Það firrir seljandann raunverulega ábyrgð á vörugæðum og það firrir kaupandann nánast ábyrgð á hráefnisgæðum. Þeir hafa sjálfir ekki ýkja mikla ástæðu til að skipta sér af þessum hlutum, nema þá þar sem þeir telja kannske að einhverju leyti á sig hallað, en auðvitað getur það ekki orðið samningsatriði milli þessara þriggja aðila hvernig verðið er ákveðið. Það hlýtur alltaf að vera eðlilegast að það sé samningsatriði milli seljanda og kaupanda án íhlutunar ríkisvaldsins.

Mér skilst líka, án þess að ég hafi kannske á því næga þekkingu, að í nýafstöðnu verkfalli opinberra starfsmanna hafi þessi mál gengið mjög snurðulaust og skakkafallalaust og margir menn þá í raun og veru skipt um skoðun á þessum málum hvað einmitt þetta atriði snertir, þ.e. ferskfiskmatið sjálft. Afurðamatið er kannske að vissu leyti enn alvarlegra mál. Afurðir eru yfirleitt framleiddar fyrir ákveðinn markað og oftast jafnvel fyrir ákveðinn kaupanda. Kaupandinn gerir ákveðnar kröfur sem seljandinn uppfyllir og þær eru verðgrundvöllurinn sem notaður er þegar verð þessara afurða er ákveðið. Ég fullyrði að afurðamatið firri framleiðandann ekki bara ábyrgð, það gerir líka að verkum að framleiðandinn hefur aðgang að ódýru vinnuafli til flokkunar á framleiðslu sinni, og oft og tíðum til hreinna björgunaraðgerða þar sem flokka verður í sundur vöru sem annars vegar er seljanleg og hins vegar óhæf til sölu. Með þessum áhrifum sínum draga þessi afskipti ríkisvaldsins úr kröfum til starfsfólks og rýra þar af leiðandi trúlega um leið kjör starfsfólksins, því að þau koma í raun og veru í veg fyrir það að hæft og vel launað starfsfólk sé ráðið til framleiðslunnar, en það er náttúrlega grundvallarskilyrði fyrir gæðum í framleiðslu.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan legg ég til að Ríkismat sjávarafurða verði lagt niður. Einn þáttur þessa máls, sem mjög oft er vikið að þegar um þetta er rætt manna í milli, eru viðskipti okkar við þau ríki í veröldinni sem stunda svokallaðan ríkisbúskap. Þau ríki gera yfirleitt kröfu til þess að sá aðili sem þau hafi viðskipti við sé ríkisaðili. Þau gera í raun og veru kröfu um það að viðkomandi viðskiptaríki og í þessu tilfelli okkar, taki ábyrgð á þeirri framleiðslu sem þau kaupa. Ég tel að þessi ábyrgð sé mjög hæpin. Þetta var til umræðu á s.l. þingi í Ed., þar sem ég á sæti, þegar samþykki voru lög um Sölustofnun lagmetis til tveggja ára. Þá benti ég á að mér fyndist í raun og veru óeðlilegt að viðskiptaaðilar gætu sett okkur þessar kvaðir um það að við þyrftum nánast að sniða okkur stakk eftir þeirra þjóðskipulagi til þess að viðskipti gætu komist á milli okkar. Ég tel þessa ábyrgð ríkisins mjög hæpna og ég tel hana sannanlega leiða til skorts á vöruvöndun. Ég veit t.d. að Hjálparstofnun kirkjunnar, sem keypt hefur þó nokkuð af afurðum og flutt út m.a. til Póllands, þorir ekki að dreifa lagmetisafurðum til einstaklinga í Póllandi, heldur telur hún sig neydda til að gera það í mötuneytum þar sem dósir og önnur framleiðsla eru opnaðar og skoðaðar áður en þeim er dreift til móttakenda. Eins og viðmælandi minn orðar það: Við þorum ekki að taka þá áhættu að einhver gamall maður taki með sér dós af síld til þess að opna á jólunum og þá komi það í ljós að hún sé ónýt.

Hvað kostnað þessarar starfsemi snertir þá geri ég mér svo sem alveg grein fyrir því að þetta er ekki dýrasta starfsemi ríkisins. Aftur á móti er líka hægt að benda á það að þarna eru þó á ferðinni þær upphæðir sem nota mætti til annarra aðgerða, ekki kannske algjörlega óskyldra. T.d. en mönnum kunnugt um það að enn þá vantar fé bæði til byggingar og reksturs Fiskvinnsluskólans, en slík starfsemi gæti örugglega, þegar fram í sækti, haft miklu, miklu betri og meiri áhrif á gæði framleiðslu í fiskiðnaði en þetta eftirlit hefur.

Heilbrigðis- og hollustuhættir, eða það starf á þeim vettvangi sem er á ábyrgð Ríkismats sjávarafurða, eru málefni sem auðvitað gætu verið einfaldlega á hendi þeirra aðila í sveitarfélögum sem eftirlit eiga að hafa með slíku. Þeim er engin vorkunn að vinna það starf eftir þeim lögum og reglugerðum sem til kunna að vera og framfylgja þeim. Þess vegna sé ég heldur ekki neina ástæðu til þess að þeim þætti starfsins sé haldið uppi frekar en öðrum.

Ef menn telja að ekki sé með nokkru móti hægt að komast hjá þeim þætti þessa starfs sem lýtur að viðskiptum við þau lönd sem ríkisbúskap stunda, þá má hugsa sér það að halda eftir í þessum störfum einum eða tveimur mönnum sem hafa einfaldlega þann starfa á hendi að útdeila þeim stimplum sem þessi lönd krefjast að fyrir hendi séu svo að viðskipti geti átt sér stað.