14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

176. mál, lyfjadreifing

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Á árunum 1974–1978 beitti ég mér fyrir heildarendurskoðun löggjafar um lyfjamál. Þessi endurskoðun leiddi til uppstokkunar á áður gildandi lögum, þannig að sett voru á árinu 1978 tvenn lög, annars vegar lög um starfsréttindi lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga og hins vegar lyfjalög, þ.e. um framleiðslu lyfja. Lög um lyfjadreifingu, sem voru þriðji og síðasti þáttur þessarar endurskoðunar, náðu hins vegar ekki fram að ganga fyrr en á árinu 1982 og öðluðust gildi 1. janúar 1983. Með þeim lögum færðist yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins frá fjmrn. yfir til heilbr.- og trmrn. Það var talið æskilegt að síðarnefnda rn. færi með yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins þar sem um væri að ræða mikilvægan hlekk í þjónustu við heilbrigðisstofnanir í landinu og það mundi jafnframt tryggja sem beinasta þjónustuleið.

Allt frá öndverðu hafa tengsl Lyfjaverslunar ríkisins verið mikil við Áfengis- og tóbaksverslun og þar með fjmrn. Þannig hefur rekstur Lyfjaverslunar notið samlaga við rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og þess stöðuga fjárstreymis sem um þá stofnun fer og hefur þetta óneitanlega auðveldað rekstur Lyfjaverslunar. Nú hefur komið í ljós að óráðlegt er að slíta þessi tengsl því það bitnar á rekstrinum. Það er skoðun mín að betur sé séð fyrir rekstrinum sé hann í tengslum við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og hefur því orðið að samkomulagi milli mín og hæstv. fjmrh. að yfirstjórn á rekstri stofnunarinnar færist aftur til fjmrn. og að heilbr.- og trmrn. tilnefni einn mann í stjórn, þ.e. að lögð verði til hlutverkaskipti milli þessara tveggja rn., og um þetta fjallar frv.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.