04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Það frv., sem hér er lagt fram, er unnið upp úr tveimur frumvörpum sem tvær nefndir skipaðar af þáv. menntmrh. sömdu, eins og skýrt er frá í grg. með frv. Þessi frv. lágu bæði fullbúin í menntmrn. á síðasta ári og til þess að unnt yrði að leggja málið fram þótti skynsamlegast að vinna frv. upp úr báðum þessum skjölum sem fyrir lágu. Árangur þess er það frv. sem hér er lagt fram svo að Alþingi geti fjallað um málið. Jafnframt eru birt sem fskj. frumvörpin sem áður höfðu verið samin ásamt greinargerðum þeirra. Frv. í núverandi búningi er unnið af starfsmönnum rn., aðallega Kristjönu Kristinsdóttur skjalfræðingi, sem vann um skeið í menntmrn., svo og af lögfræðingi rn. og enn fremur Runólfi Þórarinssyni deildarstjóra.

Í þessu frv. má segja að mörkuð sé nú stefna varðandi Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin. Um þetta mál með þessari nýju stefnu hefur nokkuð verið fjallað einnig af núverandi þjóðskjalaverði, Ólafi Ásgeirssyni fyrrum skólameistara. Hann telur að hið nýja frv. verði mjög til bóta og greiði fyrir því að koma Þjóðskjalasafninu í það nútímahorf sem allir eru sammála um að það þurfi að komast í.

Fram til þessa hefur Þjóðskjalasafninu verið gert að taka við öllum opinberum skjölum sem til falla. Nú er því skylt að velja úr þann hluta sem telja verður að hafi sögulegt gildi fyrir síðari tíma. Með þessu frv. er því falið á hendur vandasamt verkefni og því er það nýmæli sett í frv. að lögum safnsins að það skuli hafa stjórnarnefnd sér til fulltingis og aðstoðar við þetta starf auk annarra starfa sem kveðið er á um í frv.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur hlaupið mikill vöxtur í skjalagerð hins opinbera hér á landi ekki síður en hjá grannþjóðum okkar. Á undanförnum áratugum hefur stjórnun og takmörkun hins mikla skjalamagns, sem verður til í stjórnkerfinu, verið sífellt viðfangsefni skjalavarða og stjórnvalda víðs vegar. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa komið sér upp flokkunarkerfum og reglum um eyðingu og grisjun skjala til að hafa stjórn á verkefninu. Til að gera þetta starf eins auðvelt og ódýrt í framkvæmd og hægt er er það grundvallaratriði að embættin raði skjölum sínum eftir efni. Síðan er þeim efnisflokkum eytt sem ekki er talið að hafi sögulegt eða hagnýtt gildi þegar til lengri tíma er litið. Hér er samt nauðsyn að fara með allri gát og rasa ekki um ráð fram því að skaðinn verður ekki bættur ef illa tekst til. Í þessum efnum getum við sótt góð ráð til frændþjóða okkar sem nú eru reynslunni ríkari í þessum efnum.

Ég vil ekki líta fram hjá því atriði að með grisjun og eyðingu óþarfra skjala kemur þjóðfélagið til með að spara verulega fjármuni í mannahaldi og húsakosti yfir það sem varðveita á. Raunar væri það ekki fullgild ástæða ef rök hnigju ekki einnig að því að með minnkun umfangs skjalasafna hinna ýmsu embætta og stofnana verði vegurinn gerður greiðari fyrir vísindamenn komandi tíma að kjarna þess máls sem rannsóknin beinist að hverju sinni. Skjalaverðir og sagnfræðingar á Norðurlöndum hafa lagt mikla áherslu á hvað það sé mikils virði fyrir fræðin að auðvelt sé að greina hismið frá kjarnanum. Ef maður má vitna til kveðskapar, þá kvað okkar fyrsti þjóðskjalavörður, Jón Þorkelsson, svo:

Hið mikla geymir minningin

en mylsna og smælkið fer.

Og sú mun verða raunin á þegar nýtt fyrirkomulag er komið á skjalavörsluna.

Enda þótt sú leið verði farin að taka kúfinn af skjalaframleiðslunni með skilvirkum hætti er samt ljóst að Þjóðskjalasafn Íslands þarfnast miklu meira og betra húsakosts en það hefur yfir að ráða í dag. Að þessu víkja báðar nefndirnar sem sömdu hin fyrri frumvörp, svo og höfundar þessa frv., enda er með stjórnun á fjölgun skjala hægt að gera áætlun fram í tímann um hve mikinn húsakost stofnunin þurfi tiltekinn árafjölda. Að vísu kann að vera að við stöndum frammi fyrir tæknibyltingu nú eftir að tölvan kom til sögunnar og skjalagerð með hefðbundnum hætti kunni að vera á hverfandi hveli, en tæpast er við því að búast að skjalagerð hverfi þó með öllu.

Því hlýtur það að verða eitt af viðfangsefnum íslenskra stjórnvalda að reisa nýja byggingu yfir heimildirnar um sögu okkar í fortíð og á komandi tímum. Hún verður að vera þannig hönnuð að hægt sé að auka geymslurýmið eftir þörfum. Hér er nefnd hugmynd sem nýtt hefur verið í sumum öðrum löndum og hún er sú að þar hefur verið horfið að því ráði að sprengja skjalageymslur í kletta. Nægir að líta til Norðurlanda til að sjá þar dæmi um. Framsýnir menn þykjast sjá mikla möguleika í þessu efni hér á landi því að hér sé gnægð kletta, en það er ekki víst að allir verði sammála um þá lausn. Þetta verkefni er vitanlega eitt af því sem bíður úrlausnar á næstu árum.

Í lok 7. áratugsins lá fyrir ákvörðun eða áætlun þáv. menntmrh. Gylfa Þ. Gíslasonar um að Þjóðskjalasafnið fengi hús Landsbókasafnsins til sinna umráða þegar Landsbókasafnið væri komið í hina væntanlegu þjóðarbókhlöðu, sem menn héldu þá að risi miklu fyrr en við sjáum að raun hefur orðið á.

Hitt er svo annað mál að þá töldu margir sem um skjölin fjölluðu að jafnvel sú bygging mundi ekki verða fullnægjandi. Bæði væri það að rýmið yrði tæplega nægilega mikið og svo væri hitt að rétt væri að nota nú á dögum þann tæknibúnað sem til boða stendur til þess að búa sem best um þau skjöl sem geyma á. Til þess væri annars konar húsnæði hentara. Það er meira að segja fjallað um það í grg. með frumvörpunum hve hentugir skápar séu á boðstólum nú til að geyma skjölin þannig að rýmið megi nýta sem best. Það er líka eitt af þeim atriðum sem máli skipta.

Í grg. þess frv., sem fyrsta nefndin samdi, er vikið að því hve mikið magn skjala megi ætla að hér verði til mjög fljótlega hjá opinberum aðilum ef ekki verði tekin upp ný stefna í skjalavistun. Menn tala um það hve margir hillukílómetrar verði til og hvernig við getum snúist við þessum vanda á þann veg að ekki sé hætt verðmætum heimildum um sögu okkar.

Hér er, virðulegi forseti, um mikil skjöl að ræða. Ég vil hvetja til þess að hv. menntmn. fái sem gleggsta umfjöllun um þessi mál. Ég geri mér grein fyrir því að nefndin þarf tíma fyrir sér til að fjalla um málin. En hér er um að ræða málefni sem óhjákvæmilegt er að marka stefnu í sem allra fyrst og að Alþingi komist að sameiginlegri niðurstöðu um það atriði.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því í hverju aðalnýmæli þessa frv. eru fólgin, en það er fyrst og fremst stjórnarnefndin sem ég vék að áðan. Auk þess er gert ráð fyrir að Þjóðskjalasafn muni, ef þetta frv. verður að lögum, fá eftirlitshlutverk þannig að það annist eftirlit með skjalasöfnum þeirra aðila sem afhendingarskyldir verða skv. væntanlegum lögum. Enn fremur eigi Þjóðskjalasafn að láta í té ráðgjöf, gefa út leiðbeiningar um skjalavörslu og tölvuvæðingu og stefnu um ónýtingu skjala sem ekki er talin ástæða til að varðveita til frambúðar. Enn fremur ætti Þjóðskjalasafn skv. þessu að gangast fyrir fræðslu um skjalavörslu fyrir fólk sem á að annast skjalavörslu í opinberum stofnunum, svo sem með námskeiðum og leiðbeiningarritum.

Ég hygg að ekki sé sérstök ástæða til að nefna fleiri atriði í þessu sambandi. En ég legg til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.