07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2743 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta voru fróðlegar upplýsingar sem komu fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefáni Valgeirssyni og var vissulega merkilegt á að hlýða. En erindi mitt hingað er kannske af svolítið öðrum toga en beinlínis það að bæta upplýsingum við um þetta atriði.

Það kom í huga minn, þegar frsm. var að flytja hér ræðu sína, að ég var á ferðinni í Noregi fyrir einu ári síðan. Þá hitti ég þar gamlan skólabróður í barna- og gagnfræðaskóla sem hafði sest þar að og búið þar s.l. 20 ár og komist þar vel af. Ég fór að ræða við hann um það að það væri áreiðanlega mikill vaxtarmöguleiki í fiskirækt á Íslandi, það væri slæmt til þess að vita að við hefðum ekki eflst í þessari grein með sama hætti og þeir Norðmenn hefðu gert. Nú bind ég miklar vonir við það að við munum koma upp öflugri útflutningsgrein á þessu sviði. Þá sagði þessi Íslendingur: Nei, láttu þér ekki detta það í hug. Íslendingar eru göslarar, en fiskiræktin er nákvæmnisvinna. Það fer áreiðanlega allt í vaskinn hjá okkur.

Mér brá auðvitað, fannst þetta harður dómur. Kannske var þetta sagt að hluta til í gamni, en þegar maður lítur yfir ýmislegt sem við höfum verið að spreyta okkur á á undanförnum árum virðist vera svolítið sannleikskorn í þessu.

Ætli það sé ekki áratugur eða svo síðan mikil bylgja gekk yfir landið að nú ætti að hefja hér minkarækt því að hér væri aðstaða til minkaræktar langtum betri en víðast hvar annars staðar. Og minkaræktarbúin risu um allar trissur. Það leið ekki á löngu þar til þeir, sem ætluðu að verða ríkir á minkaræktinni, fóru að verða fyrir ýmiss konar áföllum af einu og öðru tagi. Mörg búin hættu starfrækslu og þetta var dýrt og þetta var áreiðanlega mörgum erfitt. Það fóru langtum fleiri út í þetta en greinilega réðu við það. Áföllin voru stór.

Fyrir fáeinum árum fórum við að tala um að refarækt væri það sem mundi verða mjög til bjargar og menn hafa reist mörg refaræktarbú. En við höfum líka fengið að heyra tíðindi af verulegum áföllum á því sviði. Ég hitti bónda í sumar og gerði það að umtalsefni hvernig stæði á þessu. Er þetta ekki einmitt ágæt atvinnugrein sem getur leyst af hólmi hefðbundinn búskap að verulegu leyti? Hann var sammála því að þetta væri áreiðanlega nákvæmnisverk rétt eins og gamall skólabróðir minn í Noregi hafði sagt um fiskiræktina. Refaræktin og minkaræktin væru það líka. En hann sló því fram að það væri allt of mikil tilhneiging til þess að þeir, sem reyndust búskussar í venjulegum búskap, væru kannske styrktir til þess að fara út í refarækt. Ekki kann ég sönnur á þessu. En sá sem ekki kann til verka í hefðbundnum búskap og ætlar síðan að hefja nýja búskapargrein án þess að læra sér neitt til í þeim efnum, er ekki líklegur til þess að skila miklum árangri. Þá er allt eins líklegt að frá honum komi frekar áföll en árangur. Ég óttast það að í því, sem gamall skólabróðir minn nú búsettur í Noregi sagði, sé allt of mikill sannleiksneisti. Við megum helst ekki láta það henda í fleiri greinum og oftar.

Ég er sannfærður um að fiskiræktin er nákvæmnisvinna og hún þarf að byggjast á vísindalegum grunni, eins og flest annað í atvinnuháttum. Í rauninni má segja að núna þessi árin hafi eftir margra ára tómlæti stjórnvalda hafist veruleg umræða og áhugi á fiskiræktinni. Allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálamenn tala um það að í fiskiræktinni sé fólginn mikill hagvaxtarmöguleiki, þarna sé að finna nýja búgrein sem við gætum að hluta til byggt afkomu okkar á í framtíðinni og batnandi lífskjör. En hvað höfum við gert til þess að undirbúá það? Ekkert. Nánast ekkert. Það hefur að vísu verið rekin svolítil fiskiræktarstöð á vegum ríkisins hér uppi í Kollafirði af miklum vanefnum og venjulega við nöldur héðan úr þingsölum um það að þeir fjármunir sem þangað færu nýttust illa og færu til lítils.

Hafa menn stundað einhverjar vísindalegar rannsóknir? Það er tæpast hægt að segja það. Það er upplýst að það sé einn aðili, sem kunni eitthvað fyrir sér í sjúkdómum í fiski, sem starfi við það. Ekki var það mikið. Við tölum um að við getum búið til góða fæðu handa fiskinum. Ég held að það sé ákaflega takmarkað sem hefur verið unnið að rannsóknum á því sviði. Ég veit að vísu að hér var prófað eitthvert mjöl til að gefa fiskum fyrir nokkrum árum síðan. Við fyrstu atrennu reyndist það nú ekki betur en svo að fiskarnir urðu eineygðir og fengu kryppu, en úr því hefur væntanlega verið bætt.

Ég er ansi hræddur um að íslenska ríkið hafi gert lítið til að leggja grundvöll að þessari atvinnugrein. Þrátt fyrir hávær ummæli síðustu 3–4 árin kannast ég ekki við að ríkið hafi lagt fram neitt að marki til að undirbyggja þessa atvinnugrein, til að auka þekkingu í greininni, til að efla menn til lærdóms í greininni, til vísindalegra rannsókna hvort heldur að því er varðar vöxt, lifnaðarhætti, líklegar fóðurblöndur til þess að ná árangri eða neitt af því tagi. En ef við höfum trú á einhverri atvinnugrein er það einmitt þetta sem er eðlilegt að ríkið leggi fé til til að efla einhverja tiltekna atvinnugrein. Það er eðlilegt framlag ríkisins til atvinnuuppbyggingar langtum frekar en standa í því að reka Landssmiðju í 40 ár þegar hennar er í rauninni ekki þörf sem slíkrar og aðrir geta stundað þá atvinnustarfsemi. En að stuðla að vexti og stuðla að því að það náist góður árangur í nýrri atvinnugrein, það er hlutverk ríkisins.

Nú er mikil uppbyggingaralda komin í gang. Það er verið að reisa fiskeldisstöðvar víða um völl, en grunnurinn sem byggt er á er að þessu leytinu veikur og þess vegna hætta á áföllum. Það eru þúsundir tonna sem menn ætla að framleiða. Hér ætlum við að reisa og er verið að undirbúa að reisa mjög stóra stöð, langtum stærri en þær sem reistar hafa verið í Noregi vegna þess að þeir hafa ekki einu sinni leyft svo stórar stöðvar. Það er ein skýringin á því að erlendir aðilar vilja eiga við okkur samvinnu um þessa stöð. En er ekki grunnurinn harla veikur?

Þess vegna fagna ég þeirri till. sem hér er flutt af Vigfúsi B. Jónssyni og fleirum. Hún er áminning um það að sé ekki vel á haldið í þessum efnum getur illa farið. En ég minnist þess líka að á yfirstandandi fjárlögum eru 500 millj., ef ég man rétt, til eflingar nýrra atvinnugreina. Hvað ætli það sé stór fjárhæð sem á að verja í undirstöðurannsóknir, fræðslu, heilbrigðisvarnir, í það sem þessi till. fjallar um, af þessari 500 millj. kr. upphæð, í það að kenna mönnum til verks í fiskeldi? Ég hef ekki hugmynd um það. Það hefur hvergi komið fram hér á þingi. En ef menn vilja fá raunverulega framþróun í þessari grein og verjast áföllum ættu menn að huga að því að verja verulegum hluta af þessari upphæð einmitt til slíkra hluta, til rannsókna, til þekkingaröflunar, hvort heldur er varðandi heilbrigði, vöxt fiskjarins, rekstur, aðstæður eða hvað eina og þá líka að því er varðar fóðurgjöf og árangur í vexti miðað við þá mismunandi möguleika sem menn hafa á fóðuröflun til þessara stöðva hér innanlands. Ég hefði gjarnan viljað að menn sameinuðust um þessi mál hér í þinginu frekar en ríkið gerist aðili að einhverri svona stöð, að varið verði verulegum fjárhæðum til þess að þessi grein standi á traustum grunni og það rætist ekki þau orð sem hinn íslenski vinur minn og gamli félagi í Noregi viðhafði um framtíðarhorfur þessa atvinnubúskapar.