11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, að þetta er orðið úrelt plagg. Hér er reiknað með 9 milljörðum 868 millj. kr. lántökum en hæstv. ráðh. hefur upplýst að undanförnu að hann ætli að skera þetta niður um 1000 millj. Það er ekkert smáræði sem hér er um að ræða. Það vekur mann til umhugsunar. Hversu ábyggileg plögg eru það sem lögð eru hér fram? Er ekki þörf á þessum framkvæmdum sem áætlaðar hafa verið? Það stakk mig strax í augu að í lánsfjáráætlun um fjárfestingar fyrir 1985 er áætlað að Landsvirkjun auki sínar framkvæmdir um 6%. Nú er það boðað að hún muni ekki þurfa á allri þessari aukningu að halda og verði dregin saman. Ef ég man rétt nefndi hæstv. ráðh. 250 millj. fyrir örfáum dögum þegar hann mælti fyrir þessu úrelta plaggi. Eins hef ég heyrt á honum — ég man ekki hvort það var í fjölmiðlum eða hér úr ræðustól — að hann muni ekki taka meiri lán til A-hluta ríkissjóðs en til að standa undir afborgunum og vöxtum af þeim lánum sem fyrr hafi verið tekin. Ég vildi fá útskýringar á því og einnig hvort þær tölur sem standa í þessu plaggi séu miðaðar við það. Afborganir á A-hlutanum eru 1 milljarður 349 millj. kr. En ef við förum í töfluna hérna, þá eru það um 1861 millj. sem á að taka að láni til A-hluta.

Ég sé ekki hvort þetta gengur alveg saman eða hvort hæstv. ráðh. hefur meint að þarna væri eingöngu um erlenda lántöku að ræða, að innlend lántaka sem er áætluð 600 millj. sé ekki inni í þessu dæmi. Margar fleiri spurningar bíða svars og ekki hægt að reiða sig á þau gögn sem hér liggja fyrir. Ég held að ekki sé skynsamlegt að fara ítarlega út í þessi mál fyrr en sundurliðun fæst á þessum 1000 millj. sem áætlað er að draga saman í lántöku.