12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

246. mál, viðskipti með skuldabréf

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Til þess að spara tíma læt ég ógert að endurtaka fsp. hv. þm. sem hann gerði grein fyrir í sinni ræðu áðan.

Til að svara 1. lið þeirrar fsp., sem hér liggur fyrir, var leitað upplýsinga hjá Seðlabankanum en bankinn hefur skv. 36. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., umsjón með framkvæmdum ákvæða þess kafla laganna sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, þ. á m. ákvæða 1. tölul. 39. gr. Svar bankans er svohljóðandi:

„Verðtryggð og gengistryggð spariskírteini ríkissjóðs eru nafnskráð, sbr. ákvæði laga nr. 7/1974 og nr. 13/ 1979, við sölu til frumkaupenda. Við innlausn skírteinanna er fylgst með hvort framsalsröð sé gölluð og sé svo eru spariskírteinin ekki innleyst nema handhafi þess leiði fullar sönnur að eignarheimild sinni.

Verðtryggðir innlánsreikningar innlánsstofnana eru nafnskráðir, sbr. lög nr. 13/1979. Einnig eru auglýstar sérstakar reglur Seðlabankans um vexti og verðtryggingu sparifjár og lánsfjár o. fl. en núgildandi reglur eru frá 20. des. 1984.

Verðtryggð skuldabréf vegna lántöku hjá innlánsstofnunum eða utan þeirra eru nafnskráð, sbr. lög nr. 13/1979 og sérstakar reglur Seðlabankans sem getið er hér að framan.

Veðskuldabréf, sem eru verðtryggð, fást ekki þinglýst nema nafnskráningarskyldu sé fullnægt. Dómar fyrir verðtryggðum kröfum fást ekki nema nafnskráningarskyldu hafi verið fullnægt.“

Mér virðist þetta svar bankans gefa til kynna að reynt sé að gæta þess að nafnaskráningu skv. 1. tölul. 39. gr. sé framfylgt. Um sérstakt eftirlit af hálfu rn. með framkvæmdinni er ekki að ræða, sbr. 36. gr. laganna. Þess skal og getið að ekki hefur verið leitað til rn. eða athygli þess vakin á misbresti í framkvæmd lagaákvæðisins. Telji hins vegar einhver að lög hafi verið á sér brotin í þessu efni getur hann að sjálfsögðu leitað réttar síns fyrir dómstólum. Þar ætti að hjálpa hversu skýrt og gagnort lagaákvæðið er. Rn. mun ekki heldur skorast undan ábendingum frá einstaklingum eða lögaðilum um hvað betur mætti fara í framkvæmd ákvæðisins.

Svar við 2. tölul. fsp. er að mestu á sömu leið. skv. lögum nr. 10/1961 um Seðlabankann er bankaeftirlitinu falið eftirlit með starfsemi innlánsstofnana. Skal eftirlitið fylgjast með því að innlánsstofnanir fylgi lögum og reglum sem hverju sinni gilda um starfsemi þeirra. Rn. óskaði því upplýsinga frá bankaeftirlitinu um tilhögun á eftirliti með framkvæmd 1. gr. tilskipunar frá 1798. Svar bankaeftirlitsins er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Með aukinni tölvuvinnslu á bókhaldi innlánsstofnana, sem m.a. nær til eigin skuldabréfa þeirra, hafa skapast aðrar aðstæður en gert var ráð fyrir þegar umrædd tilskipun frá 1798 var gefin út. Út úr því kerfi koma mánaðarlega greinargóðir greiðslu- og stöðulistar auk daglegra lista og skilagreina sem gera það mögulegt að staðreyna stöðu hvers bréfs og rekja greiðsluröð þess. Jafnframt er fyrirkomulag upplagningar á verðbréfabirgðum þannig að auðvelt er að framkvæma birgðatalningu.

Með hliðsjón af framangreindri þróun hafa allflestar þær innlánsstofnanir, sem haga bókfærslu eigin skuldabréfa með þessum hætti eða á sambærilegan hátt, horfið frá þeirri reglu að færa greiddar afborganir, vexti og/eða verðtryggingu ásamt raunverulegum eftirstöðvum á bréfin sjálf.

Bankaeftirlitið hefur ekki gert athugasemdir við þessa framkvæmd enda er þess gætt í öllum tilvikum að bréf, sem vegna uppgreiðslu, innheimtuaðgerða eða af öðrum ástæðum eru afhent úr vörslu innlánsstofnana, séu árituð með réttum eftirstöðvum og eða kvittuð uppgreidd.

Sú regla er viðhöfð þar sem tölvuvinnsla er ekki fyrir hendi eða færslukerfi jafnöruggt að skuldabréfaeign innlánsstofnana ber ávallt með sér réttar eftirstöðvar í samræmi við áðurnefnda tilskipun frá 1798. Öll skuldabréf, sem innlánsstofnunum eru fengin til innheimtu, bera undantekningarlaust með sér hverjar séu eftirstöðvar þeirra á hverjum tíma með áritun á bréfin sjálf. Hefur bankaeftirlitið kannað framkvæmd viðskiptabanka og sparisjóða á þessu atriði sérstaklega en eftirlit hefur farið fram hjá greindum stofnunum.“

Eins og þetta svar ber með sér er ákvæðum 1. gr. tilskipunar ekki fylgt lengur nema að litlu leyti hjá innlánsstofnunum. Að sjálfsögðu hefði verið réttara að breyta lögunum áður en þessi tilhögun var tekin upp. Með vísan til þess að ríkisstj. hefur nú lýst yfir að hún setji reglur um meðferð og sölu verðbréfa mun viðskrn. hafa forgöngu um að lögum verði breytt í þessu efni. Það skal þó undirstrikað að sú tækni, sem innlánsstofnanir hafa tekið í þjónustu sína, á skv. upplýsingum bankaeftirlitsins að tryggja þeim, er greiða af skuldabréfum, sama öryggi og gert er ráð fyrir í 1. gr. tilskipunarinnar. Á það skal einnig bent að rn. er ekki kunnugt um að þetta fyrirkomulag mála hafi í einhverju tilvika haft í för með sér réttarmissi. En eins og áður er komið fram mun rn. beita sér fyrir því, í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. um að reglur verði settar um meðferð og sölu verðbréfa, að eytt sé réttaróvissu á þessu sviði.

Að því er varðar 3. lið fsp. verður aftur að vísa til yfirlýsingar ríkisstj. um að settar verði reglur um meðferð og sölu verðbréfa. skv. þeim upplýsingum sem rn. hefur aflað sér má ætla að með aukinni tölvunotkun utan og innan innlánsstofnana verði nafnaskráning krafna algengari en nú er. Staðreyndin er sú að við erum á hraðri leið inn í „pappírslaust samfélag“. Séu þessar upplýsingar réttar liggur ljóst fyrir að það er fyrst og fremst spurning um tíma hvenær nafnaskráning verður að fullu tekin upp.

Ég vona að ég hafi svarað fsp. hv. þm.