23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

40. mál, endurskoðun grunnskólalaga

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. spyr í fyrsta lagi: „Hvenær er að vænta tillagna frá menntmrh. um endurskoðun á lögum nr. 63 frá 1974, um grunnskóla?“ Svarið er að ráðgert er að leggja fram á yfirstandandi þingi frv. til l. um breyt. á lögum um grunnskóla.

2. spurning hv. fyrirspyrjanda var þessi: „Getur ráðh. greint frá því nú hvert yrði inntak slíkra brtt.?“ Þá er svarið í aðalatriðum þetta: Það er ekki að vænta grundvallarbreytinga á lögunum, en fyrst og fremst stefnt að umbótum þar sem vankantar hafa komið í ljós á þeim tíma sem lögin hafa verið í gildi.

Í þriðja lagi er spurt: „Hvert er álit menntmrh. á tillögum nefndar sem starfaði á vegum menntmrn. 1979–1982 og skilaði áliti um endurskoðun grunnskólalaga?“ Svarið er að í þeirri nefnd, sem vann mikið starf, komu fram ýmis sjónarmið sem verður tekið mið af í væntanlegu frv.

Síðan grunnskólalögin voru samþykkt fyrir 10 árum hefur verið bent á fjölmörg atriði sem betur mættu fara og auk þess hefur reynslan leitt í ljós að ýmsum framkvæmdaþáttum mætti koma betur fyrir en þar er gert ráð fyrir. Að mínu mati er ekkert þessara atriða mjög stórvægilegt nema ef vera skyldi verkaskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga sem gerð var tillaga um að því er varðar rekstur grunnskólanna, en það atriði virðist vera eilíft deilumál og er sannast sagna ekki líklegt til að leiða til stórra breytinga nú. Það verða fremur önnur atriði sem þetta frv. fjallar um.

Hv. fyrirspyrjandi skýrði frá nefndinni, sem skipuð var 1979, sem í voru Jónas Pálsson þáverandi skólastjóri, sem var formaður nefndarinnar, Sveinn Kjartansson þáverandi fræðslustjóri og Örlygur Geirsson þáverandi deildarstjóri í rn. Nefndin skilaði tillögum sínum fyrri hluta árs 1981. Sú nefnd leitaði fanga mjög víða og hafði samráð við fjölmarga aðila, en ég hef ekki fullkomið yfirlit yfir hverjir þeir voru.

Í okt. 1980 gekkst menntmrn. fyrir ráðstefnu í Munaðarnesi sem bar yfirskriftina „Tengsl grunnskóla og framhaldsskóla“. Það liggur fyrir fjölrituð skýrsla um þessa ráðstefnu og þar komu fram mörg atriði sem höfðu áhrif á endurskoðun grunnskólalaga.

Í lok októbermánaðar 1981 gekkst rn. fyrir annarri ráðstefnu í Munaðarnesi og að þessu sinni var fjallað um tillögur endurskoðunarnefndarinnar. Á þeirri ráðstefnu var farið vandlega yfir tillögur nefndarinnar og gerðar á þeim nokkrar breytingar. M.a. var kaflinn um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu að mestu endurritaður. Fyrir liggur fjölrituð skýrsla frá þeirri ráðstefnu og þar eru fyllri upplýsingar um þessi atriði.

Á árinu 1982 fól þáv. menntmrh., Ingvar Gíslason, Sigurði Helgasyni, Örlygi Geirssyni og Herði Lárussyni að yfirfara allar fram komnar tillögur um breytingar á grunnskólalögunum þannig að unnt yrði að ganga frá frv. til l. um breyt. á lögum nr. 63 frá 1974. Það veganesti sem þessir embættismenn fengu var að þeir skyldu aðeins sníða stærstu vankantana af lögunum. Margir munu hafa verið þessu ósammála og hafa talið rétt að fara ítarlegar í ýmis grunnskólaatriði og skerpa orðalag í mörgum greinum. Það er vitanlega eðlilegt og þess er sjálfsagt að vænta að ýmsar brtt. komi fram á hv. Alþingi þegar á annað borð verður farið að fjalla um breytingar á grunnskólalögum.

Ég vil aðeins bæta því við að á s.l. þingi, á vorþinginu, var reyndar samþykkt breyting á lögunum sem var að efni til úr þessu frv., sem legið hafði fyrir í rn., og varðaði skiptingu í bekki á æðri stigum grunnskóla. En ýmis önnur atriði þarf að skoða í sambandi við endurskoðun þessara laga og verða þau í frv. sem lagt verður fram í vetur. Eitt af því hefur komið fram í nefnd sem unnið hefur að tillögugerð í sambandi við samstarf heimila og skóla og varðar skipan skólaráða. Lögð er áhersla á að þar sem foreldrafélög starfi við skóla velji þau fulltrúa í skólaráð. Þar eru einnig ábendingar um ýmis framkvæmdaatriði í grunnskólum sem stuðla að því að lögin verði betur virk að þessu leyti til. Bind ég vonir við að það geti leitt til enn jákvæðara starfs en nú fer fram í tengslum heimila og skóla.