20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

111. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið á Alþingi 1982 að gerð var samþykkt um að fela ríkisstj. að undirbúa tillögugerð að opinberri stefnumótun í áfengismálum. Í desemberlok 1982 var skipuð nefnd til að fjalla um þessi mál, fjölmenn nefnd eins og hæstv. dómsmrh. gat um hér áðan. Hún skilaði tillögum til heilbr.- og trmrh. samkvæmt blaðafréttum, hygg ég, snemma á árinu 1984 að hluta til, að því er varðaði áfengismál, og hún mun einnig hafa skilað ítarlegri tillögugerð í sambandi við aðra vímugjafa seint á árinu 1984.

Mér er ekki kunnugt um annað en að þessar tillögur hafi verið afhentar hæstv. heilbr.- og trmrh. Vil ég spyrja hæstv. dóms- og kirkjumrh. að því og einnig hæstv. forsrh., fyrst hann er hér í salnum, hvort ríkisstj. hafi ekki fjallað um þessar tillögur, hvort ekki sé ætlun hennar að hrinda einhverjum af þeim tillögum í framkvæmd sem þar eru á blaði. Ég tel að þetta sé sérstaklega mikilvægt vegna þess að það er uppi um það umræða í þjóðfélaginu og þinginu að gera að mínu mati mjög róttækar breytingar á áfengislöggjöfinni. Ég tel því að þessi umr., sem hv. 5. þm. Vestf. hefur hér hafið, sé mjög á sínum stað. Ég vil spyrja ríkisstj.: Hefur hún ekki fjallað um þessa tillögugerð nefndar sem starfar skv. samþykktum Alþingis? Í annan stað vil ég spyrja að því og reyndar fara þess á leit að ríkisstj. og hæstv. forsrh. hlutist til um það að hv. alþm. fái þessa tillögugerð í heild.

Mér fannst ekki ljóst af orðum hæstv. dóms- og kirkjumrh. hvort hann hefði fengið þessar tillögur í hendur. Þykir mér það nokkuð sérkennilegt vegna þess að hann er yfirmaður framkvæmdar áfengislaganna þó að áfengisvarnir heyri undir heilbr.- og trmrn. Mér finnst þetta benda til þess að þessi mál hafi lítið verið rædd í ríkisstj. fyrir utan það, sem mun hafa verið rætt um þar, hvort ríkisstj. ætti að taka afstöðu til þess að hún fyrir sitt leyti styddi það að opnað yrði fyrir sölu og bruggun áfengs öls hér í landinu, en það mun hafa borið á góma í ríkisstj. er menn voru þar að ræða um þær þrengingar sem ríkissjóður á í og létu sér detta í hug að hella ofan í hvert mannsbarn 15 ára og eldra 40 lítrum af sterku öli á ári til að bjarga ríkissjóði. Síðan hefur ekkert til þessara mála spurst. Raunar hefur ekkert frést af ríkisstj. í áfengismálum annað en það hvernig hún hugsar sér að koma þessu öli ofan í mannsbarnið 15 ára og eldra.

Ég vil sem sagt ítreka spurningar mínar til hæstv. forsrh.: Er hann tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þessar tillögur verði lagðar hér fram á Alþingi, þannig að alþm. geti áttað sig á þessu máli þó að ríkisstj. virðist ekki hafa tekið á þeim enn þá?