25.02.1985
Neðri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

227. mál, dómsvald í héraði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 74 27. apríl 1972, um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl.

Með frv. þessu er gerð tillaga um breyt. á lögum um skipan dómsvalds í héraði o.fl. sem geri mögulegt að í stað embættis löglærðs fulltrúa við embætti sýslumanns í Árnessýslu og bæjarfógeta á Selfossi og við borgarfógetaembættið í Reykjavík verði unnt að setja á stofn embætti héraðsdómara við embættið á Selfossi og eins borgarfógeta við borgarfógetaembættið.

Í Árnessýslu og á Selfossi er nú hátt á ellefta þúsund íbúa og hefur dómsmálum fjölgað þar jafnt og þétt og þykir það til styrktar meðferð dómsmála í umdæminu og þar verði starfandi sérstakur héraðsdómari svo sem orðið er í öllum fjölmennari umdæmum. Ekki er þó ætlunin að þessu fylgi fjölgun lögfræðinga við embættið. Frá árinu 1979 hefur einn borgarfógeti, auk fulltrúa, fjallað um skiptaréttarmálefni við borgarfógetaembættið í Reykjavík, en þeir höfðu áður um árabil verið tveir. Komið hefur í ljós að betur hentar, vegna mögulegrar verkaskiptingar og af fleiri ástæðum, að borgarfógetarnir, sem um þau málefni fjalla, séu tveir — svo sem áður var. Þess má geta að málum, sem fjallað er um í skiptarétti, hefur fjölgað mjög hin síðustu ár við borgarfógetaembættið. Ekki er þó gert ráð fyrir í þessu samhengi að lögfræðingum verði nú fjölgað við borgarfógetaembættið.

Rétt þykir að jafnframt ofangreindum efnisbreytingum verði lagfærð þau atriði er hafa breyst frá 1972, er lög um skipan dómsvalds o.fl. voru sett, að því er varðar sveitarfélög í Reykjanesumdæmi, þ.e. að Gullbringusýsla hefur verið lögð til umdæmis bæjarfógetans í Keflavík og Grindavík og Njarðvík hafa orðið kaupstaðir. Enn fremur hafa Garðahreppur og seltjarnarneshreppur orðið kaupstaðir. Þar er aðeins um að ræða lagfæringu á lögunum í samræmi við breytingar sem orðið hafa síðan þau voru sett.

Hv. Ed. hefur fjallað um þetta frv. og samþykkt það óbreytt og vænti ég þess að það eigi greiða leið hér í gegnum hv. Nd. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. allshn. og 2. umr.