24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég kem upp af því tilefni að mér finnst þetta sorgleg umr. Hér er borið fram frv. til l. um breyt. á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Þetta er annað árið í röð sem frv. er borið fram. Því var vísað til sjútvn. á síðasta þingi. Þar var það boðað af sjútvn. að frv. yrði sent út til umsagnar. Það var ekki tekið undir það af flm. og frv. síðan látið liggja í salti allan veturinn. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Hvers virði er það fyrir þingið að vera með svona vinnubrögð? Er það virðingu þingsins samboðið að standa svona að verki? Þar fyrir utan fjallar þetta frv. um nákvæmlega ekki neitt því það er alveg ljóst að flm. vita ekkert hvað á að koma í staðinn fyrir Verðlagsráðið eða brotthvarf oddamanns, gera sér enga grein fyrir hvernig þeim málum er háttað í dag og hvers vegna eða hvað eigi að koma í staðinn ef Verðlagsráð verður af lagt. Það er þó ljóst og víst að ekki er of seint að senda frv. til umsagnar. En það eru komnar tillögur um breytingar á Verðlagsráðinu sem verða sjálfsagt teknar til umr. og fá meðferð að eðlilegum hætti. Það mætti ræða þetta samhliða þeim tillögum. Það er ljóst að það mætti breyta vinnubrögðum og starfsemi Verðlagsráðs, en að leggja það niður án þess að gera sér nokkra grein fyrir hvað á að koma í staðinn fyrir það hefur enga þýðingu og er engum til gagns. Eitt er þó víst að þetta mundi valda því að mikið misvægi yrði um allt landið. Norður á Þórshöfn og á Húsavík fengi fólk áreiðanlega lægra verð fyrir fiskinn en fólkið hér fyrir sunnan og sjómenn þyrftu að standa í eilífum deilum við útvegsmenn um fiskverð eins og var áður. Það er verið að framkalla gamla kerfið, sem var hérna, sem var öllum til óþurftar og kannske þó mest sjómönnum og útvegsmönnum. Verkföll voru hér svo mánuðum skipti, deilur allan veturinn um fiskverðið. Í framhaldi af því vandræðaástandi er þessu kerfi, verðlagsráði komið á til að leysa þessar deilur. Verðlagsráð er gerðardómur, og menn hafa unað við það nokkurn veginn. Ég verð að segja það eins og er að ég vil ýmsar breytingar í sambandi við Verðlagsráð og ég get að mestu leyti stutt grg. og till. sem nefnd sem skipuð var til þess að fjalla um það sendi frá sér, en að henda þessu út í frumskóginn, eins og gert er ráð fyrir að gert sé samkv. þessu frv., finnst mér fyrir neðan virðingu þingsins. Þau vinnubrögð, sem beitt hefur verið við þetta, átel ég og tel engum til sóma. Það gæti auk þess orðið sjómönnum til tjóns, það gæti orðið útvegsmönnum til tjóns og það gæti orðið þjóðinni til tjóns að standa svona að verki.