20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. meiri hl. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Út af ummælum hæstv. fjmrh. vil ég taka fram eftirfarandi:

Árni Kolbeinsson kom á fund nefndarinnar. Það voru mjög gagnlegar viðræður sem nm. áttu við hann og margt skýrðist í þeim meðförum, enda er maðurinn afburðavel að sér og snjall í skattamálum. Ég held að það sé álit okkar allra, sem höfum átt samskipti við hann bæði á því sviði og öðru, að hann sé frábær starfsmaður. Og mér þykir leitt ef fjmrh. hefur tekið orð mín sem einhvers konar gagnrýni á störf hans. Það var síður en svo þannig meint. Ég vildi aðeins undirstrika það að við fengum einnig aðra sérfræðinga til fundar við okkur, menn sem nauðþekkja þessi mál, þannig að margt af því var kannske ekki síður gagnlegt en viðræðurnar við Árna. En það sem ég átaldi voru þau vinnubrögð að fá núna fyrst þessar athugasemdir sem við hefðum gjarnan viljað hafa haft í höndunum fyrir mánuði eða svo. En ég vil að það komi mjög skýrt fram að það bar alls ekki að taka þetta sem gagnrýni á Árna Kolbeinsson eða aðra starfsmenn fjmrn.