10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4099 í B-deild Alþingistíðinda. (3416)

403. mál, meðferð opinberra mála

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég á reyndar sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál mun fjalla og kem hér aðeins upp til þess að fá að heyra álit hæstv. ráðh., ef fengist, á eiginleikum þessa frv. Nú hefur það ekki sætt nefndarmeðferð enn þá. Ég er því eingöngu að varpa fram spurningum sem ég sjálfur ekki hef svar við að eigin mati. Um það er að ræða hvort hér sé e. t. v. á ferðinni ákveðin valdþjöppun sem hugsanlega gæti haft óheillavænleg áhrif á þróun þessa þáttar stjórnsýslunnar fyrir landið í heild og þá á ég sérstaklega við dreifbýlið.

Við skulum huga að því að annars vegar skoða menn mál, sem hér um ræðir, út frá þeim lagabókstöfum sem þessi mál snerta. Hins vegar skoða menn þessi mál út frá þeim aðstæðum þar sem mál sem þessi koma upp. Þær geta verið eins margbreytilegar og mennirnir eru margir og hafa alltaf ákveðin sérkenni eftir því hvar á landinu slík mál hafa komið upp og þótt ástæða til að rannsaka. Reynsla manna, sem auðvitað er mjög mikilvæg þegar fjallað er um þessi mál, skapast annars vegar af reynslu manna í umfjöllun um lög og rannsókn mála út frá lagabókstaf, en hún skapast ekki síður út frá reynslu þessara manna í mannlegum samskiptum, þ. e. við þá hlið málsrannsóknarinnar sem snýr að þeim einstaklingum sem viðriðnir eru málið á hverjum stað á landinu. Er þetta að mati ráðh. sú besta lausn sem hægt er að finna eða er hér hugsanlega um tímabundið úrræði að ræða sem síðar meir yrði hugað að að breyta með tilliti til þessara þátta eða þessara efasemda sem ég varpaði hér fram?