03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4787 í B-deild Alþingistíðinda. (4040)

424. mál, erfðalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Fyrst verð ég að geta þess að það sýnist þjóna æðilitlum tilgangi að ætla að reyna að skýra flókið mál sem þetta fyrir þingheimi og freista þess að fá jafnvel samþykki fyrir brtt. þegar svo til engir hv. þm. eru í salnum eða fæstir þeirra. Þegar ég flutti framsögu fyrir frv. um sama mál var nær enginn í salnum. Er til of mikils mælst, herra forseti, að hringt verði á þm. og sú pína á þá lögð að hlýða á mál mitt? Ég sé ekki til hvers ég er að flytja það öðruvísi. (Forseti: Ég vona nú að hv. ræðumaður vilji . . . ) Herra forseti. Ég hygg að ég geti ekki tekið tímann í það að bíða eftir að hv. þm. gangi í salinn.

Frv. það, sem liggur fyrir hv. Alþingi á þskj. 53 og er ástæðan fyrir hinu nýja frv. sem hv. síðasti ræðumaður talaði nú fyrir, var fyrst flutt á síðasta þingi. Flm. voru þá ásamt mér hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Kristín S. Kvaran, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Baldvin Hannibalsson. Frv. varð ekki útrætt á því þingi og því var það endurflutt s. l. haust. Meðflm. mínir voru þá hinir sömu með þeirri breytingu að í stað hv. þm. Kristínar Kvaran, sem þá var í leyfi, varð hv. þm. Guðmundur Einarsson meðflm.

Frv., eins og hér kom áður fram, felur í sér þá breytingu á erfðalögum frá 1962 að við lát maka eigi eftirlifandi maki ævinlega rétt til setu í heimili sínu óskiptu eins og það var við lát maka, bæði þegar eftirlifandi maki fær ekki leyfi til setu í óskiptu búi vegna þess að fyrirmæli hins látna eru á annan veg eða samþykki fjárráða niðja er ekki fyrir hendi og þegar erfingjar látins erfingja krefjast skipta. Allir þekkja raunaleg dæmi um afleiðingar búskipta þar sem eftirlifandi maki verður að hrekjast úr eigin heimili vegna krafna um búskipti svo að við persónulegan missi bætist fjárhagslegt öryggisleysi og oft og tíðum sár sem seint gróa.

Menn kunna að spyrja hvort algengt sé að búskipta sé krafist. Skv. upplýsingum dóms- og kirkjumrn., dags. 21. mars 1984, hafa slíkar beiðnir borist svo sem hér segir:

Eftirtöldum embættum hafa ein eða fleiri beiðnir borist, en ekki er tilgreint hvernig þær skiptast á milli ára: Sýslumanninum í Barðastrandarsýslu ein beiðni, sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógetanum á Akureyri og Dalvík sex beiðnir, sýslumanninum í Gullbringusýslu og bæjarfógetanum í Keflavík, Njarðvík og Grindavík ellefu beiðnir, sýslumanninum í Suður-Múlasýslu og á Eskifirði þrjár beiðnir, bæjarfógetanum í Ólafsfirði ein beiðni, sýslumanninum í Rangárvallasýslu tvær beiðnir, sýslumanninum í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetanum á Seyðisfirði ein beiðni, sýslumanninum í Strandasýslu ein beiðni og bæjarfógetanum í Vestmannaeyjum ein beiðni.

Hjá eftirtöldum embættum er tekið fram hvernig skipting er milli ára, en ég vil nú sleppa því hér. Hér er um þrjú ár að ræða, 1981–1983: Á Akranesi þrjár beiðnir, í Ísafjarðarsýslu og á Ísafirði sjö beiðnir, borgarfógetanum í Reykjavík 244 beiðnir, sýslumanninum í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og bæjarfógetanum í Ólafsvík sex beiðnir.

Af þessum tölum er ljóst að langflestar beiðnir um búskipti koma fram á þéttbýlissvæðum og þá einkum í Reykjavík, enda hefur mikill áhugi komið fram á því að frv. þetta næði fram að ganga. Nægir að nefna hringingar og fyrirspurnir til skrifstofu Alþingis um örlög þessa máls sem hafa verið mjög tíðar.

Lífaldur manna hækkar í sífellu samfara betra heilbrigðisástandi í landinu og það hlýtur að vera þjóðfélaginu fyrir bestu að fólk búi sem lengst í eigin heimili og annist sig og heimili sitt eftir bestu getu og með þeirri þjónustu sem samfélagið býður. Íslendingar hafa haft þá sérstöðu að í heimi atvinnuleysis og kreppu hefur roskið fólk í miklu meira mæli getað tekið þátt í atvinnulífi þjóðarinnar en annars staðar gerist. Þannig á þetta að vera þó að nú horfi e. t. v. til verri vegar um stund ef verulegt atvinnuleysi kynni að sækja að okkur. Þarf vart að benda á þann sparnað sem er í því fólginn að hinir öldruðu búi á eigin heimilum í stað þess að gista stofnanir meðan þess gerist ekki bein þörf. Og ekki síður — og það er mikilvægt atriði þessa máls — á aldrað fólk skilyrðislausan rétt til þess að ráða sínu eigin lífi meðan það er til þess fært og frumréttur þess er að búa áfram í eigin heimili eftir lát maka ef það vill. Sá ákvörðunarréttur á ekki að vera í höndum barna eða stjúpbarna.

Skv. núgildandi lögum, ef við lítum á hina lagalegu hlið málsins, á eftirlifandi maki langstærstan hluta í búinu. Hann á í fyrsta lagi helming búsins og erfir síðan 1/3,.en niðjar erfa 2/3 af helmingi eignanna. Bréferfingi getur aldrei eignast nema 1/3 af eignum arfláta, þ. e. hins látna. Það verður því að teljast óeðlilegt að þeir sem svo lítinn hluta búsins erfa geti með árs fyrirvara hvenær sem er krafist skipta á búinu öllu og jafnvel gert aðalerfingja ófært að halda eigin heimili. Hér er á engan hátt gengið á endanlegan erfðarétt annarra erfingja en makans, heldur er skiptum á heimili hins eftirlifandi maka einungis frestað skv. hinu upphaflega frv. Allar reglur erfðalaganna gilda áfram um að eignirnar verði ekki rýrðar.

Frv. hefur nú verið til umfjöllunar í hv. allshn. Nd. á tveim löggjafarþingum. Skiptaráðandinn í Reykjavík var kallaður á fund n. og hafði flest við frv. að athuga, en þó einkum að það yrði erfitt í framkvæmd. Flestum aths. hans þóttist ég geta svarað, en á það var lítið hlýtt, en þær voru allar um framkvæmd. Það er ekki mál löggjafans að annast framkvæmd mála. Ef Alþingi sýnist svo að lögum skuli breytt skal framkvæmdavaldið framkvæma.

Lögmannafélag Íslands sendi álitsgerð laganefndar félagsins og varaði við samþykkt frv. og sagði þar m. a., með leyfi forseta:

Nefndin varar við samþykkt frv. og vill vekja athygli á því að með umræddri brtt. er gengið í berhögg við meginreglur gildandi erfðalaga, svo sem rétt erfingja til arftöku og ráðstöfunarrétt arfleifanda.“

Tekið var jafnframt fram að stjórn félagsins hefði ekki fjallað efnislega um frv.

Lögmannafélagið var ekki beðið um afstöðu til þess hvort réttur makans eða erfingjans skyldi vera meiri eða minni. Frv. tekur þar af allan vafa um vilja flm., en hann er sá að réttur makans verði aukinn á kostnað erfingjanna, þ. e. barna. Öðrum atriðum framkvæmdalegs eðlis var svarað er formaður félagsins kom á fundinn.

Þarna misskilur Lögmannafélagið hlutverk sitt. Hlutverk þess er að gefa umsögn um lagafrv. sem slíkt en ekki að móta stefnu Alþingis í erfðamálum.

Jón Ísberg, sýslumaður Húnvetninga, sendi svohljóðandi umsögn og heiður sé honum fyrir það:

„Mér var sent frv. til breyt. á erfðalögum um leið og ég var beðinn um upplýsingar. Ég vil aðeins nota tækifærið og þakka viðkomandi alþm. fyrir að þora að hrista upp í stöðnuðu kerfi.“

Guðrún Erlendsdóttir dósent skilaði áliti að beiðni n., en ágæt grein hennar í Úlfljóti árið 1978 um nauðsyn þessarar breytingar á erfðalögunum varð m. a. kveikjan að tillöguflutningi okkar. Þar segir hún m. a., með leyfi forseta:

„Þetta frv. er vissulega í anda þeirrar þróunar sem verið hefur undanfarna áratugi og miðast að því að bæta hag eftirlifandi maka. Það er réttilega tekið fram í grg. með frv. að krafa um búskipti geti bitnað mjög illa á eftirlifandi maka og valdið því að hann verður að selja íbúð sína og hefur í engan stað að venda nema opinberar stofnanir.“

Prófessor Ármann Snævarr lýsti efnislega samþykki, en bæði vísuðu þau til yfirstandandi heildarendurskoðunar á erfðalögunum og öll þekkjum við hvern tíma slíkt tekur.

Eins og jafnan vill verða í nefndum um mál sem krefjast gaumgæfilegrar skoðunar virtist frv. ætla að daga uppi á ný. Þá brá svo við að Bjarni Bjarnason borgardómari hafði samband við mig persónulega og spurðist fyrir um örlög frv. sem hann greinilega var hlynntur. Ég benti honum á að hafa samband við formann n. sem hann gerði og síðan kom hann á fund hennar. Lagði hann þá fram málamiðlunartillögu, þar sem hann taldi ekki nást samkomulag í n. um málið, og sú tillaga er orðrétt hið nýja frv. n. Og hvað skilur svo á milli frv. okkar og frv. n.?

Hið nýja frv. heimilar hvorum maka sem er að leyfa með erfðaskrá hinum sem lengur lifir að sitja í óskiptu búi. Þannig gengur hið nýja frv. lengra en okkar sem einungis fjallaði um heimildir. En — og það er stórt en — erfðaskrá er skilyrði fyrir rétti til setu í óskiptu búi skv. frv. og hætt er við að mikið vanti á að fólk geri slíka erfðaskrá. Mér hefur orðið tíðrætt um hina öldruðu, en við skulum ekki gleyma því að ekki eru meiri líkur til þess að ungt fólk, kannske við bestu heilsu, hafi hug á því að gera erfðaskrá.

Annað atriði þar sem mjög skilur á milli þessara tveggja frv. er að í hinu nýja frv. er stjúpbörnum enn heimilað að krefjast búskipta eins og núverandi lög gera ráð fyrir. Því ákvæði hlýt ég að hafna. Ýmsir telja að við búskipti skuli tekið annað tillit til stjúpbarna en sameiginlegra barna. Ég er því algjörlega ósammála og tel það viðhorf í andstöðu við þá stefnumörkun sem löggjafinn hefur unnið að, t. d. með nýsettum barnalögum. Allur andi þeirra laga er að foreldrar beri ábyrgð á börnum sínum án tillits til þess hvort þeir kjósa að búa saman eða ekki. Vissulega hefur átt sér stað hugarfarsbreyting í þessum efnum. Engin ástæða er til að gera ráð fyrir að milli stjúpforeldra og stjúpbarna hljóti að ríkja tilfinningaleysi og jafnvel illindi. Vitaskuld er það til og engin lög geta náð yfir öll tilvik mannlegs lífs, en í landi þar sem þúsundir barna búa með öðru foreldri, með eða án maka, ber að eyða því hugarfari að milli stjúpforeldra og stjúpbarna þurfi að ríkja tortryggni. Í frv. okkar er því enginn munur gerður á rétti barna og stjúpbarna til að krefjast skipta á heimili eftirlifandi maka.

Nefndin hefur kosið að sjá svo til að hv. þm. þurfi ekki að greiða atkv. um hið upprunalega frv. og þar sem hið nýja frv. er þó spor í áttina að því marki sem með því var að stefnt tók ég þann kost að flytja það með n. Við flytjendur hins fyrra frv., hinir sömu og áður að öðru leyti en því að hv. þm. Ellert Schram gerðist meðflytjandi í fjarveru hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, viljum þó enn freista þess að fá fram afstöðu hv. þm. um forgangsrétt stjúpbarna umfram önnur börn til að krefjast búskipta. Þess vegna höfum við borið fram brtt. á þskj. 740 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Í stað orðanna „heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja“ í 1. gr. komi: heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum annars eða beggja.

Þetta tel ég afar mikilvægt atriði vegna þess að sé svo séð til að stjúpbörn hafi þennan forgangsrétt enn og aftur er satt að segja ekki mikið gagn í þessu nýja frv.

Ég harma að ekki skuli fleiri hlýða á mál mitt því mér er fullkunnugt um að þetta mál hefur átt skilning og stuðning hér í þinginu. Við treystum því að hv. þm. skoði hug sinn vandlega um þetta atriði og greiði brtt. okkar atkv. sitt. Hér getur ekki verið um neitt flokkspólitískt mál að ræða, en með þessu máli er fylgst úti í þjóðfélaginu, það get ég alveg sagt hv. þm.

Verði till. okkar felld, þ. e. brtt., mun ég samt greiða hinu nýja frv. atkv. mitt þar sem ég tel að það sé skref í rétta átt. Ég harma hins vegar að hið upprunalega frv. skyldi ekki ná fram að ganga og geng ekkert að því gruflandi að fyrir því eru tvær meginástæður, andstaða við frumvörp stjórnarandstöðuþm., þó að víst væri einn stjórnarþm. meðal flytjenda, og slæleg skoðun sumra þm. á málinu og skortur á vilja til að taka afstöðu gegn framkvæmdavaldinu. En ég vil benda hv. þm. á að samþykkt brtt. gerði hið nýja frv. mun stærra skref í réttlætisátt en það er nú.

Að lokum þetta, herra forseti: Engin ástæða er til að senda hið nýja frv. til n. Nefndin flytur það öll og brtt. er þrautrædd þar. Þar nýtur hún ekki fylgis, að því er best verður séð, og því einungis tímaeyðsla að senda málið aftur til n. g vona að hv. formaður n. sé sammála mér í því. Ég skora á yður, herra forseti, að fallast á atkvgr. um frv. og brtt. án frekari umfjöllunar n. og flýta þannig fyrir afgreiðslu málsins til hv. Ed.

Jafnframt vil ég fara þess á leit við yður, herra forseti, að allar umr. um málið verði ljósritaðar og sendar með málinu til Ed. Þar sem svo lítill tími er til þingloka flýtti það vissulega fyrir hv. þm. Ed. að átta sig á málinu. Þetta mál hefur goldið þess að þarfnast gaumgæfilegrar skoðunar. Og ég vil ítreka það, herra forseti, að ég sé enga minnstu ástæðu til að senda okkur flytjendum málsins það aftur til umsagnar. Mér er fyrirmunað að skilja hvað við eigum að ræða meira í þessu máli. Það hefur svo sannarlega verið gert.