30.10.1984
Sameinað þing: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Í þáltill. þeirri sem þingflokkur Alþb. stendur að og hér er til umr. er gert ráð fyrir sérstöku átaki vegna vanda útgerðarinnar. Sú sjö manna þingnefnd sem við leggjum til að verði kosin skal skila inn tillögum um úrlausnir þessa sérstaka vanda ekki seinna en um næstu áramót. Í þeim tillögum skal nefndin leggja megináherslu á eftirtalin atriði:

a) að skapaður verði rekstrargrundvöllur fyrir togara sem ná meðalaflaverðmæti eða meira á ári miðað við venjulegar aðstæður og að treyst verði sérstaklega útgerð þar sem hún er meginforsenda atvinnulífs.

b) að benda á hvernig farið skuli með þann kostnað og þær skuldir sem útgerðin getur ekki staðið undir með eðlilegum hætti.

Nefndin skal strax í upphafi fara þess á leit við sjútvrh. að hann beiti sér fyrir því að opinberir sjóðir grípi ekki til aðgerða sem leiða mundu til stöðvunar skipa meðan unnið er að fyrsta áfanga nál.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jóhann Ársælsson hafa gert till. góð skil hér á hv. Alþingi. Ástæðan fyrir því að ég stend hér upp, herra forseti, er sú að ég vildi gjarnan að hv. þm. heyrðu sögu eins þessara togara sem á næstunni má reikna með að verði boðnir upp.

Nafn togarans er Bjarni Herjólfsson ÁR-200. Nú þessa dagana liggur hann hér í Reykjavíkurhöfn og það er rétt, sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði hér s.l. fimmtudag, að Fiskveiðasjóður hefur tekið að sér að ábyrgjast að hægt sé að kaupa olíu á ljósavél skipsins þar til að uppboðið verður. En hvers vegna er svo komið? Er það vegna þess að um einstaklega slæman rekstur og kæruleysi eiganda skipsins sé að ræða? Nei. Bjarni Herjólfsson er einn úr hópi fjölda togara þar sem eigendur, rekstraraðilar hafa lagt allt sitt af mörkum til þess að rekstur gæti gengið. En skuldasöfnun þessarar ákveðnu útgerðar á sér langa sögu og hér er aðeins hægt að stikla á stóru.

Árið 1974 stofnuðu Eyrarbakkahreppur, Stokkseyrarhreppur og Selfossbær hlutafélagið Árborg. Félagið keypti togarann Bjarna Herjólfsson ÁR-200 frá Póllandi og kom hann til landsins í apríl 1977. Þegar gengið var frá smíðasamningi 1974 var gert ráð fyrir 10% eigin fjármögnun, en vegna óhagstæðrar verðlagsþróunar frá undirritun samningsins til ársins 1977 var eigin fjármögnun ekki nema um 2.5%. Það má segja að sé upphaf þeirrar slæmu þróunar sem síðar varð.

Fyrstu fjögur rekstrarár skipsins voru ein hörmungarsaga. Strax eftir fyrsta túrinn kom fram alvarleg bilun í vél, þannig að þar var um rúmlega mánaðar stopp að ræða. Það má í raun segja að á þessum fyrstu fjórum árum hafi það þótt viðburður ef skipið náði heilli veiðiferð án skakkafalla og var oft langtímum saman frá veiðum vegna bilana og að sjálfsögðu hélst þá illa á góðum skipstjórum. Skipið drabbaðist niður og vanskilaskuldir hlóðust upp og síðan háir dráttarvextir.

Á árinu 1981 var gert verulegt átak til lagfæringar á skipinu og það fór í svokallaða fimm ára klössun og þá var vél þess útbúin fyrir svartolíubrennslu. Árin 1981 og 1982 gekk rekstur Bjarna Herjólfssonar þokkalega. 1983 var aflasamsetning léleg og rekstrargrundvöllur skipsins að bresta. Þá, snemma árs, fékk útgerðin töluverða fyrirgreiðslu frá ríki, en það dugði ekki til.

Um miðjan okt. 1983 var togaranum lagt. Í júní á þessu ári fer hann aftur á stað eftir að hraðfrystistöðvarnar á Stokkseyri og Eyrarbakka höfðu tekið á sig skuldbindingar og lagt til allt það fjármagn sem þær gátu — með því að koma þá sjálfum stöðvunum í vanskil annars staðar. En þar kom að hraðfrystistöðvarnar gátu ekki meir og hreppsfélögin ekki heldur. Togarinn er aftur stopp og ekki annað sjáanlegt en að hann verði boðinn upp.

Allt atvinnulíf á Eyrarbakka og Stokkseyri byggist á fiskvinnslu og útgerð. Koma togarans Bjarna Herjólfssonar vakti vonir okkar um næga og stöðuga atvinnu fyrir fólkið á þessum stöðum, auk þeirra sem sótt hafa vinnu frá Selfossi niður á ströndina. Forráðamenn þessara tveggja sveitarfélaga og hraðfrystistöðvanna hafa frá byrjun lagt allt sitt af mörkum, og raunar farið fram úr raunverulegri getu hreppsfélaganna og hraðfrystihúsanna, til þess að halda þessari útgerð gangandi. Það segir sína sögu að þegar togarinn er keyptur áttu hraðfrystihúsin ekki verulegan hlut útgerðarinnar, en eru nú stærstu hluthafarnir. Vegna þess hve hraðfrystistöðvarnar hafa þurft að leggja togaranum mikið fé hafa stöðvarnar síðan verið í vanskilum við hreppsfélögin og þau síðan ekki getað staðið við sínar skuldbindingar. Það er í dag mörgum sveitarfélögum vel þekktur vítahringur.

Við síðustu áramót voru skuldir togarans Bjarna Herjólfssonar 96 millj. 870 þús., þar af langtímaskuldir 51.6 millj. kr. Aflatekjur skipsins voru 15.5 millj. 1983 á móti 17.1 millj. á árinu 1982. Fjármagnskostnaður var á s.l. ári 38.5 millj. á móti 23.7 1982. Skuldir skipsins við Fiskveiðasjóð námu um áramótin 40 millj. kr. Húftryggingarverðmæti skipsins var á þessum tíma, um áramót, 84 millj. Allar þessar tölur hafa hækkað síðan þá.

En úr því að staðan er svona, hvers vegna eru menn þá að halda dauðahaldi í þetta skip? kann einhver að hugsa. Svarið er einfalt. Það er lífsnauðsyn fyrir byggðarlög sem þessi að hafa skip til hráefnisöflunar. Það er forsenda þess að þar haldist byggð. En nú missa þau togarann. Og ekki bara þessi þorp, þá væri vandinn ekki stór. Sömu sögu er að segja um fjölda annarra byggðarlaga. Þau missa sín skip sé ekkert að gert. Það er fjöldi manns sem á yfir höfði sér að missa atvinnuna og þá jafnvel heimili sín um leið því þau kjör sem þetta fólk hefur verið neytt til að búa við á síðustu tímum hafa gert því ókleift að safna í sjóð sem hægt væri að grípa til á atvinnuleysistímum. Hvaða von á þá þetta fólk? Getur það sett traust sitt á núverandi ríkisstj.? Nei, því miður. Stjórnvöld hafa ekki gert neitt. Jú annars. Með efnahagsráðstöfunum sínum hafa stjórnvöld flýtt fyrir þessari óheillavænlegu þróun.

Við að missa togarann erum við á Stokkseyri illa stödd, en ástandið á Eyrarbakka er enn verra. Þar hafa nú í einar fimm vikur 50–60 starfsmenn Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka verið skráðir atvinnulausir vegna þess að stöðin hefur ekkert hráefni. Eyrbekkingar hafa fengið sitt hráefni hjá togaranum og leigubátum. Nú hefur hraðfrystihúsið fest kaup á rúmlega 50 tonna bát, en betur má ef duga skal. Nokkrir einstaklingar á Eyrarbakka fóru af stað og söfnuðu hlutafé til kaupa á togskipi. Á einni helgi söfnuðust 5 millj. kr. sem eru um 10 þús. krónur á hvert mannsbarn í hreppnum. Ákveðið var að festa kaup á skipinu Otto Wathne NS-90, 150 tonna stálskip, 26 metra langt, sem hentar mjög vel við suðurströndina. Kauptilboð þeirra Eyrbekkinga hljóðaði upp á 65 millj. kr. Þeir unnu þetta mál sitt vel, Eyrbekkingar, enda eygðu þeir þar von í skip sem komið gæti í stað togarans. Hver einasti íbúi Eyrarbakkahrepps fylgdist með af áhuga. Loks kom svo að ekki var annað séð en af kaupunum yrði. Ætla mætti að hæstv. ríkisstj., sem auðvitað var fullkunnugt um atvinnuástandið á Eyrarbakka eftir að togarinn fór, hafi nú stutt þá með ráð og dáð, einkum og sér í lagi hæstv. sjútvrh. En hvað gerist? Hafrannsóknastofnun sendir menn austur á firði að tilhlutan sjútvrh. og þar með misstu Eyrbekkingar þessa von sína. Þeim er sagt að þeir séu alveg út úr myndinni, Hafrannsóknastofnun taki skipið.

Herra forseti. Hæstv. ráðh. virðast vera ákveðnir í að sitja sem fastast á botnum sínum og gera ekkert til þess að leysa rekstrarvanda í íslenskum sjávarútvegi. Það er hart að þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og það fólk sem við hann vinnur skuli vera í svo litlum metum hjá hæstv. ríkisstj. Sök hennar er stór og samviska hennar hlýtur að vera ljót, ef hún þá nokkurn tíma veltir fyrir sér afkomu heimilanna sem eiga allt sitt undir því að styrkum stoðum sé rennt undir þennan mikilvæga atvinnuveg. Við skuldum sjómönnum og fiskvinnslufólki þessa lands það að á þessum vanda sé tekið eins fljótt og auðið er. Alþb. vill með þessari þáltill. sinni leggja sitt af mörkum með von um skjóta og góða vinnu nefndarinnar.