09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5046 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

248. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Að því er varðar fyrri fsp. hv. 3. þm. Reykv. um reglugerð skv. 9. gr., þá liggja tillögur um þá reglugerð ekki fyrir enn þá. Þær verða að sjálfsögðu skv. heimildum í þessum lögum sem og öðrum sem hljóta að hafa áhrif á aðgang manna að skjölum. Það sem meginmáli skiptir í þessu sambandi er aðstaðan til þess að nýta sér þessi skjöl. Þetta frv. fjallar m. a. um möguleikann að taka upp samræmd ný flokkunarkerfi. Það gerir þessa aðstöðu miklu betri og greiðari. Ég held því að það verði miklu auðveldara að semja glöggar reglur um þessi efni eftir að hin nýja skipan kemst á.

Síðan spurði hv. þm. um skil t. d. stjórnarráðsins skv. 5. gr. frv. Það er rétt að ekki eru til nægilega samræmdar reglur um þetta atriði, þannig að verið hefur mjög erfitt að framfylgja þeim. Ég er líka þeirrar skoðunar að nokkur misbrestur kunni að vera á skilum. Þess vegna skiptir það miklu máli að sams konar kerfi séu í öllu stjórnarráðinu. Ég tel því að samþykkt þessa frv. sé mikið grundvallaratriði í báðum þeim málum sem hv. þm. spyr um. Ég held að það sé lykill að framkvæmanlegum reglum og skilvirku kerfi.

Hv. þm. vék hér að byggingarmálum þjóðarbókhlöðu, sem ég freistaðist til að ræða um í framsöguræðu minni, og ég þakka einnig ábendingu hv. 1. þm. Vesturl. í sambandi við byggingarmál þegar rætt var um hús Landsbókasafnsins. Það atriði hefur vissulega stundum verið til umræðu og færi sannarlega vel á því að framkvæmd væri sú hugmynd sem hv. 1. þm. Vesturl. nefndi. En hv. 3. þm. Reykv. talaði um nýjan farveg, eins og hann sagði, fyrir fjármögnun byggingar þjóðarbókhlöðu. Ég get ekki neitað því að lík hugsun hefur stundum sótt á mig þegar mér hefur þótt erfitt og lítið um fé til slíkra framkvæmda. En á hitt er að líta að þetta er bæði menningarleg skylda Alþingis og auk þess skuldbinding Alþingis, margendurtekinn og yfirlýstur vilji Alþingis á ýmsum árum. Ég sé ekki að Alþingi geti vikið sér undan því eða ríkissjóður. Hins vegar tel ég að það væri mjög æskilegt ef hægt væri með einhverjum hætti að auka þetta fjármagn eftir öðrum farvegum og það væri sannarlega af því góða. Þótt þröngt sé í búi hjá ríkissjóði og hafi raunar verið í mörg ár tel ég að þetta sé skylda sem ríkið geti ekki vikið sér undan. Ég get upplýst að það liggur fyrir að það er ætlun ríkisstj. að leysa þetta mál á þessu ári á þann veg að hægt sé að bjóða út áfanga í þjóðarbókhlöðunni með það fyrir augum að lagður sé hiti í húsið svo að hægt sé að nýta kjallarann vonandi á næsta ári.

Ég vona að hæstv. forseti sjái í gegnum fingur við okkur þó að við höfum vikið talinu örlítið að öðru efni sem óneitanlega tengist þó því máli sem hér er til umr.