09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5055 í B-deild Alþingistíðinda. (4354)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að gera aths. við það að þessu máli verði vísað til félmn. Ekki það að ég hafi ekki fullt traust á þeirri n., heldur bendi ég á að hér er almennt frv. til laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Hér er ekki aðeins um að ræða húsnæðislán, heldur einnig önnur lán ef að líkum lætur eins og hæstv. ráðh. gat um. Þess vegna teldi ég að eðlilegt væri — og ég vil beina því til hæstv. ráðh. hvort hann getur ekki hugleitt það — að þetta mál færi frekar til hv. fjh.- og viðskn.

Varðandi efni frv. hefur afstaða mín og Alþb. þegar komið fram opinberlega. Við teljum að hér sé allt of skammt gengið, hér sé allt of lítið gert miðað við þá stóru neyð sem blasir við hjá þúsundum húsbyggjenda og skuldara. Við höfum jafnframt lýst því yfir að við séum ekki reiðubúin að standa að samningum um þingslit eða þinglok á þessu vori öðruvísi en að frekari skref verði stigin í húsnæðismálum og skarpar á þeim málum tekið en gert er ráð fyrir í frv. þessu.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að í framsöguræðu sinni treysti hæstv. ráðh. sér ekki til þess að koma með neinar tölur um hve háar upphæðir væru hér á ferðinni. Ég geri ráð fyrir að erfitt sé að ætla á um það — og þó því að í 3. mgr. 4. gr. frv. kemur fram að einungis er gert ráð fyrir að þeir sem eiga rétt á sérstökum lánum og eiga í umtalsverðum greiðsluerfiðleikum fái þessi lán. Í viðræðum Alþýðusambandsins við ríkisstj. hefur m. a. verið rætt um hverjir það eru sem eiga að fá lánin. Niðurstaðan mun hafa orðið sú að menn verða að sækja um þá nýju launavísitölu sem hér er gert ráð fyrir að verki að nokkru leyti aftur fyrir sig.

Það hefur hins vegar ekki verið skilgreint og það kom ekki fram í ræðu hæstv. félmrh. hér áðan hverjir það eru sem hugsanlega geta fengið lán eftir að hafa lagt þarna inn umsóknir. Hvar verður línan dregin? Ef línan verður dregin á sama stað og gert er núna í sambandi við lán vegna þeirra sem eiga í umtalsverðum greiðsluerfiðleikum er ljóst að á þessu ári getur ekki verið þarna um mjög stóra upphæð að ræða. Ég vil sem sagt í upphafi máls míns spyrja hæstv. félmrh. um þetta grundvallaratriði: Hvar verður linan dregin gagnvart umsækjendum um breytingu á vísitöluviðmiðun lána?

Úr því að ég er farinn að ræða um einstök atriði þessa frv., sem er í sjálfu sér ekki mikið mál vegna þess að frv. er ekki nema sex greinar, vil ég einnig víkja hér að 5. gr. frv., 3. mgr., en þar segir:

„Sé greiðslumark hærra en gjalddagafjárhæð skal heildargreiðslan miðuð við greiðslumark að því marki“. — Þetta er afskaplega skýr og óþvælinn texti, gullaldaríslenska liggur mér við að segja eða hitt þó heldur. Jæja, látum það vera. Ég endurtek, herra forseti:

„Sé greiðslumark hærra en gjalddagafjárhæð skal heildargreiðslan miðuð við greiðslumark að því marki sem skuld er á jöfnunarreikningi, en sé jöfnunarreikningur skuldlaus skal gjalddagafjárhæð ráða greiðslu.“

Nú vill svo vel til að við höfum rithöfund í hv. þd. og væri fróðlegt að hann tæki að sér að stílgreina þessa setningu og reyna að átta sig á því úr hvaða gullaldartextum bókmenntanna þessi ósköp eru fengin. En ég er að reyna að skilja setninguna, herra forseti, og ég skil hana þannig, að ef launavísitalan hækkar minna en lánskjaravísitalan skuli mismunurinn færður aftur fyrir í lánasamningum. Ég skil hana jafnframt þannig: Ef launavísitalan hækkar meira en lánskjaravísitalan geti það haft í för með sér hærri greiðslu en lánskjaravísitalan nú mælir. Það þýðir m. ö. o.: Við skulum gera okkur vonir um að við séum alveg á botni launaþróunarinnar í landinu, það sé ekki hægt að lækka laun meira — eða hvað? Er hægt að komast mikið neðar? Það er kannske fræðilega hægt að komast neðar, en er nokkur hætta á því að verkafólk í þessu landi þoli meiri launalækkun en þegar er orðin? Ég held ekki. Þess vegna eru allar líkur á því að launavísitalan hækki meira á næstu misserum en lánskjaravísitalan. Þess vegna sé ég ekki betur en hérna sé um að ræða hrein Potemkintjöld. Ég sé ekki að það séu nokkrar líkur á því að þetta komi þeim til góða sem nú hafa lán á lánskjaravísitölukjörum. Ég átta mig ekki á því.

Þetta vil ég að komi hér fram, herra forseti, vegna þess að ég tel að með því að draga þetta undan sé verið að blekkja, gefa í skyn að þarna hangi meira á spýtunni og annað en í raun og veru hangir á henni. Ég vil sem sagt ítreka það að hæstv. félmrh. skýri þetta nokkru nánar. Ég hefði talið, herra forseti, að með tilliti til þeirrar þróunar sem hefur verið að ganga yfir að undanförnu hefði verið eðlilegast að þessi mismunur, sem hefur verið að safnast upp, fengi að vera í friði fyrir aftan lánssamninginn þó svo að launavísitalan hækki meira en lánskjaravísitalan, þannig að menn fái undir engum kringumstæðum út úr þessu aukna greiðslubyrði vegna þessa fyrirkomulags frá því sem lánskjaravísitalan sjálf gerir ráð fyrir, undir engum kringumstæðum. Þetta grundvallaratriði held ég að sé mjög nauðsynlegt að draga hér fram og það á að vera auðveli að framkvæma þetta svona. Ég vil biðja hv. þm. sem hér eru viðstaddir að hugleiða hvort ekki er unnt að ná samkomulagi um brtt. og ég vil biðja hæstv. ráðh. að hugleiða líka hvort ekki er hægt að ná samkomulagi um brtt. þannig að aldrei verði um að ræða hækkun vegna þess að launavísitalan hækki meira en lánskjaravísitalan og sá mismunur, sem geymdur er frá liðnum árum og fluttur yrði aftur fyrir lánssamningana, fái að standa þar í friði en ekki verði dregið á hann ef kaupið hækkar aðeins meira en lánskjaravísitalan. Ég vil biðja hæstv. ráðh. í allri vinsemd að hugleiða hvort ekki er hægt að koma þarna inn afdráttarlausu ákvæði um að slík hækkun geti ekki átt sér stað vegna hins liðna tíma.

Í öðru lagi fjallar þetta frv. um framtíð, þ. e. um þau lán sem kunna að verða tekin á næstu árum, og þar horfir málið öðruvísi við. Ég held að það sé mjög af hinu góða að finna leið, eins og hér er gerð tillaga um, þar sem þetta er frekar miðað við laun en lánskjaravísitölu. En þar, herra forseti, fylgir böggull skammrifi. Alþýðusambandið gerði kröfu um að þessi launavísitala byggðist á kauptaxtaþróun. Hér er ekki byggt á kauptaxtaþróun nema að hálfu. Að hálfu leyti er hér byggt á þróun atvinnutekna og þar með yfirborgunum á hinum almenna markaði. Það segir sig alveg sjálft að þetta þýðir að greiðslubyrðin á þeim sem lifa af launatöxtunum einum og hafa ekki yfirborganir verður verulega þyngri en verið hefði ef fylgt hefði verið tillögum Alþýðusambands Íslands. Ég boða það af minni hálfu og Alþb. að við þetta frv. verða lagðar fram brtt. sem eru í samræmi við þær tillögur sem lagðar hafa verið fram af Alþýðusambandi Íslands og af húsnæðishópnum sem hæstv. ráðh. kynnti einnig áðan, þannig að Alþingi taki hreina afstöðu til þess hvort menn vilja styðja í verki það sem þeir segjast ánægðir með í orði þegar kröfur frá þessum aðilum hafa komið til hæstv. ráðh.

Húsnæðishreyfingin lagði fram þrjár aðalkröfur. Það var í fyrsta lagi skattaafsláttur, það var í öðru lagi endurgreiðsla og viðbótarlán frá Húsnæðisstofnun og það var í þriðja lagi skuldbreyting og lenging lána. Ég spyr hæstv. ráðh.: Fellst hann þá á einhverja af þessum kröfum? Fellst hann á leiðréttingu á umframgreiðslum undanfarinna ára með skattaafslætti eða hafnar hann þeirri kröfu? Fellst hann á viðbótarlán frá Húsnæðisstofnun eða hafnar hann þeirri kröfu? Fellst hann á skuldbreytingu og lengingu lána eða hafnar hann þeirri kröfu? Í rauninni getur hann svarað þessu öllu með jái eða neii.

Ég vil einnig í þessu sambandi, herra forseti, víkja að tillögum Alþýðusambands Íslands sem lagði ellefu viðræðupunkta fyrir ríkisstj. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. um afstöðu hans til viðræðupunkta Alþýðusambandsins. Afstaða hæstv. ráðh. til þessara viðræðupunkta kom ekki fram áðan. Ég vil að það komi alveg óyggjandi fram hver er afstaða hans og ríkisstj. — og þar með talins Sjálfstfl. — til þessara mála. Reynslan er sú að það hefur ekki dugað þó að hæstv. ráðh. hafi gefið ákveðnar yfirlýsingar og sýnt góðan vilja vegna þess að fljótlega á hæla honum hefur yfirleitt komið í þennan ræðustól húsnæðismálaráðh. Sjálfstfl., hv. þm. Halldór Blöndal, og tekið allt aftur sem hæstv. félmrh. hefur sagt. Þegar ég er að spyrja um afstöðu hæstv. ráðh. í þessum efnum er ég ekki eingöngu að spyrja um hans persónulega álit því að það gerir enga stoð nema því fylgi stuðningur beggja stjórnarflokkanna, þ. e. Framsfl. og Sjálfstfl., svo ekkert fari á milli mála. Þessu óska ég eftir að hæstv. ráðh. svari: Hver er afstaða hans til þeirra sjónarmiða sem sett eru fram af Alþýðusambandinu?

Ég vil t. d. gjarnan heyra hver er skoðun hæstv. ráðh. á tillögu Alþýðusambandsins um lækkun vaxta. Það var á s. l. ári, seint á slætti, að við hæstv. félmrh. vorum á fundi í Borgarnesi og hann sagði þar að þessi vaxtahækkun um árið hefði verið meiri háttar slys. Ég skildi hæstv. ráðh. þannig að þá ætti að fara að lækka vextina og það var sagt í útvarpi og það var sagt í sjónvarpi og blöðunum að hæstv. félmrh. væri á móti svona háum vöxtum. Það hefur lítið til hans spurst síðan í þessu efni, en ég vil spyrja hann: Hver er afstaða hans til kröfu Alþýðusambands Íslands um að lækkun vaxta verði slík að raunvextir fari aldrei yfir 3%?

Ég vil einnig inna hann eftir því hver er afstaða hans til tillagna Alþýðusambands Íslands um kauptaxtaviðmiðun í stað þeirrar launavísitölu sem hann er hér með. Og ég vil spyrja hann: Hvaða rök eru fyrir því, úr því að farið er að hreyfa við þessu á annað borð, að taka ekki kauptaxtaviðmiðunina frekar en þessa launavísitölu sem er blanda af þróun ráðstöfunartekna og launataxta? Alþýðusamband Íslands lýsti því yfir í sínum tillögum að nauðsynlegt væri að auka fjármagn til húsnæðislánakerfisins. Þannig hefur Alþýðusamband Íslands lýst sig hafa góðan skilning á þeim vanda sem byggingarsjóðirnir standa frammi fyrir. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða hugmyndir hefur hann til að leysa þann alvarlega vanda sem uppi er hjá byggingarsjóðunum í landinu annan en þann að velta því yfir á unga fólkið, eins og mun vera eitthvert frv. um í ríkisstj., þ. e. breyta skyldusparnaðinum með þeim hætti að þar séu svo að segja bannaðar allar útgreiðslur á skyldusparnaði? Þessar upplýsingar væri mjög nauðsynlegt að fá, herra forseti, í þessari umr. um húsnæðismál.

Ég tek það fram að þó að ég telji að þetta sé ófullnægjandi frv., rétt eins og komið hefur fram hjá húsnæðishópnum og einnig hjá forseta Alþýðusambands Íslands, tel ég að mér sé skylt að stuðla að því að þetta frv. fái sem skjótasta meðferð hér. En það verður þá að láta á það reyna hvort meiri hl. hér á Alþingi er fyrir meiri breytingu á húsnæðislánakerfinu en gert er ráð fyrir hér í þessu frv. því að þetta er algjörlega ófullnægjandi.

Ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðh. nefndi hér afstöðu lífeyrissjóðanna. Ég geri ekki ráð fyrir að ráðh. geti svarað fyrir lífeyrissjóðina eða gefið neinar bindandi yfirlýsingar fyrir lífeyrissjóðina. En ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hefur rætt þetta við fulltrúa lífeyrissjóðanna og hvort líklegt er að þeir séu tilbúnir að taka upp launavísitölu á sínum lánum aftur í tímann eins og hér er gert ráð fyrir. Ég hygg að það mundi vera mjög mikilsvert fyrir húsbyggjendur ef slíkur vilji lægi fyrir frá lífeyrissjóðunum. Mér er kunnugt um að lífeyrissjóðirnir hafa komið til móts við þá, sem hafa fengið sérstök lán vegna greiðsluerfiðleika hjá Húsnæðisstofnun ríkis, með mjög myndarlegum hætti. Ég mundi mælast til þess við lífeyrissjóðina að þeir veittu því fólki, sem fær hér breytingu á lánavísitölu, einnig sambærilega aðstoð og um yrði að ræða hjá opinbera kerfinu. Ég mundi fara þess á leit við lífeyrissjóðina og ég tel að þeir gætu ekki vikist undan slíkri ósk. Ég held að það sé skynsamlegt hjá hæstv. ríkisstj. að gera ekki tilraun til að lögbinda slíkt á lífeyrissjóðina, en ég er viss um að lífeyrissjóðirnir ættu mjög erfitt að víkjast undan sanngjarnri beiðni um þetta.

Þá vil ég víkja að bönkunum alveg sérstaklega í þessu sambandi. Vandi húsbyggjenda í dag er — því miður liggur mér við að segja því að þá réðum við við það betur — ekki fyrst og fremst hjá húsnæðislánakerfinu, heldur er hann fyrst og fremst hjá bönkunum. Það eru þessi skammtímalán og skammtímavíxlar og skammtímaskuldabréf sem eru að sliga fólk. Ráðh. hafði góð orð um það áðan að bankarnir hefðu sýnt þessum vanda nokkurn skilning. Ég held að það verði að taka bankana þarna mikið fastari tökum en gert hefur verið. Ég er sannfærður um að hæstv. félmrh. hefur haft vilja til þess. Ég er líka jafnsannfærður um að hann hefur ekki fengið stuðning sem skyldi, m. a. í ríkisstj., í þeim efnum. Ég þekki hvernig bankastjórar ná iðulega, að því er virðist, tökum á þessum málum og stöðva áhugamál ráðh. á þessu sviði. Ég minnist þess frá árinu 1982 þegar ákveðnar tillögur voru í gangi um hlut bankanna í húsnæðiskerfinu og formaður Sambands viðskiptabankanna Jónas Haralz beitti sér fyrir því að stöðva slík mál með afskiptasemi og framhleypni í nefndum Alþingis. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að núv. hæstv. félmrh. hafi einnig orðið að glíma við slíka frekju og slíka framhleypni af hálfu bankanna. En það breytir ekki því að þörfin er engu að síður til staðar og ég vil lýsa því yfir við hæstv. ráðh. að ég fyrir mitt leyti er tilbúinn til þess að styðja hann í því að það verði sett lagaákvæði sem með afdráttarlausum hætti skylda bankana til að taka þátt í lausn þessa vanda.

Það hefur komið fram, herra forseti, að forsrh. landsins viðurkenndi fyrir nokkru að stærstu mistök ríkisstj. hefur verið þau þegar kaupgjaldsvísitölunni var kippt úr sambandi en lánskjaravísitalan var látin vaða áfram með þeim hætti sem við þekkjum. Í rauninni fólst í þessum orðum forsrh. viðurkenning á því að stefna ríkisstj. hefði verið mistök vegna þess að stefna ríkisstj. gekk ekki út á neitt annað en það að rýra kjör vinnuaflsins í landinu og styrkja stöðu þeirra sem fjármagnið eiga. Ég tel að í þessu frv. hæstv. félmrh. felist mikilvæg viðurkenning á því að ríkisstj. hafi gert mistök og það er betra seint en aldrei, en þessi viðurkenning er hins vegar hvergi nærri fullnægjandi gagnvart því fólki sem er núna að sligast undir oki stjórnarstefnunnar. Og ég rifja það upp, sem ég sagði hér á fundi fyrir nokkrum dögum, að nú mun það vera í fyrsta sinn svo að frá áramótum hafa sjö íbúðir í verkamannabústöðum lent á nauðungaruppboði. Það segir sína sögu, þegar sambærileg tala frá fyrri árum er ein eða tvær íbúðir á ári.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál frekar að sinni, enda gefst kostur á því að ræða það frekar við, 2. og 3. umr.