15.05.1985
Efri deild: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5291 í B-deild Alþingistíðinda. (4576)

342. mál, verslunaratvinna

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Austurl., vil ég benda á að það sem hann sagði hér styður frekar þann málstað, sem ég var að reyna að túlka, en niðurstöður nefndarinnar vegna þess að Verslunarráðið bendir á, eins og sagt er, að leiga geti ekki skv. almennum málvenjum kallast verslun. Það er einmitt þess vegna sem þetta er fellt inn í lögin með þessum hætti, þ. e. það tekur eingöngu til leigu myndbanda, ella hefðu menn notað texta sem hefði þá hljóðað eitthvað á þessa leið: „Einnig taka lögin til leigu lausafjármuna í atvinnuskyni.“ Það hefði þá náð yfir alla þá útleigu sem við fyrirfinnum í viðskiptalífi okkar. En því treystu menn sér alls ekki til heldur fóru þá leið að taka myndbandaleigurnar sérstaklega út úr og stinga þeim þarna inn í þessi lög. Það að það eru sérstaklega tilgreindar myndbandaleigur en ekki almenn leigustarfsemi sýnir að menn treysta sér ekki til að túlka leigu sem almenna verslun. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að flokka þetta undir fasisma en þetta finnst mér mjög hæpin ráðstöfun og mjög slæmt fordæmi sem þarna er vakið. Þó að menn hafi einhvern ímugust á ýmsu því efni sem þarna er til útleigu verður það að viðurkennast að nokkrir tugir þúsunda manna hafa það ekki og notfæra sér þessa þjónustu mjög mikið.