15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjendum báðum fyrir að taka upp þessi mál utan dagskrár, ummæli hæstv. fjmrh. varðandi kennarastéttina og það bréf sem skrifað var í umboði fjmrh. vegna starfa ríkisstarfsmanna í verkfalli.

Ég tel að það hafi þegar ýmislegt fram komið í þessari umr., sem gagnlegt er, fyrir utan það yfirklór sem hæstv. ráðh. hafa hér haft uppi til skýringar á sínum gerðum. Ég vil gera nokkur atriði að umræðuefni.

Hæstv. menntmrh. vék að því í sínu svari í upphafi að óheppilegt væri að kynda eldana og þeir yrðu ekki slökktir með stóryrðum og reiði. Nú varð það ekki skilið af orðum hæstv. menntmrh. hvort hann ætti sérstaklega við hæstv. fjmrh. eða aðra, en það var augljóst að hæstv. fjmrh. gat tekið þessi ummæli til sín.

Hæstv. menntmrh. talaði hér með allóljósum hætti um launakjör kennara eins og þau eru nú. Hann vék að starfsmati á störfum kennara og að starfsheiti kennara og lögverndun í því sambandi. Allt er það góðra gjalda vert, að taka þau mál upp, en það er ekki það sem á kennurum brennur nú öðru fremur, heldur þau launakjör sem þeir búa við þessa stundina. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því: Telur hann þörf á því að laun kennarastéttarinnar verði hækkuð nú og það verulega? Hvert er viðhorf hæstv. ráðh. í því sambandi? Telur hann þörf á því að byrjunarlaun grunnskólakennara, sem eru um 15 800 kr. á mánuði að ég hygg, verði hækkuð myndarlega? Telur hann að eðlilegt sé að hámarkslaun grunnskólakennara að loknu 23 ára starfi séu 21 700 kr. á mánuði? Telur hann að efnahagsmál Íslendinga þoli ekki breytingu á þessu ástandi varðandi launakjör kennara? Ég tel nauðsynlegt að fá svör frá ráðh. menntamála um þetta atriði, launastöðu kennarastéttarinnar nú.

Hæstv. menntmrh. upplýsti um starfstíma kennara, en þar stangaðist nú heldur betur á við það sem fram hafði komið hjá hæstv. fjmrh. um daginn í þeirri ræðu sem landsfleyg hefur orðið að vonum og það sem hæstv. fjmrh. tíundaði síðan í svari sínu áðan. Hæstv. menntmrh. taldi að vinnutími grunnskólakennara væri 45 stundir í 36 vikur, en vinnutími framhaldsskólakennara næmi 48 stundum á viku. Af þeim 1800 vinnustundum, sem grunnskólakennurum er gert að sinna, falli allt nema 153 stundir, ef ég hef rétt tekið eftir, undir þennan vinnustundafjölda á starfstíma skóla, en hitt væri leyst af höndum í endurmenntunarnámskeiðum og með öðrum hætti. Hæstv. fjmrh. taldi hins vegar ekki, samkv. upplýsingum frá sinni launadeild, að vinnustundir, sem verið væri að greiða grunnskólakennurum fyrir, væru 45 á viku, heldur 30 stundir í forskóla, 29 stundir í 7.–9. bekk og 26 stundir í framhaldsskólum. Við hljótum að spyrja: Hvernig í ósköpunum má það vera að slíkt hyldjúp vanþekkingar sé kvatt til ábyrgðar í fjmrn. eins og birtist í þessum ummælum hæstv. fjmrh., bæði í síðustu viku og nú, og hvernig stendur á því að hæstv. menntmrh. skuli ekki getað brúað þetta bil vanþekkingar, svo stutt sem er á milli þeirra fjmrh. í stólunum? Það ætti að vera auðvelt að komast að hinu rétta í þessu efni um atriði sem þessi milli þessara tveggja ráðh. sem teljast í sama flokki fyrir utan það að starfa saman innan ríkisstj. og fjalla sem ábyrgðaraðilar um þessi efni.

Hæstv. fjmrh. kemur hér til þess að biðjast afsökunar með vægast sagt afar óljósum hætti á þeim dæmalausu ummælum sem hann hafði uppi í umr. um skýrslu hæstv. forsrh. s.l. fimmtudag. Það má athuga nánar þegar útskrift kemur af ummælum hans og yfirklóri nú í umr. En eins og ég skildi það var hann ekki að biðjast afsökunar á staðhæfingum sínum um vinnustundir og vinnuframlag kennara, heldur orðaði hann það eitthvað á þessa leið: Það sem hefur gefið tilefni til að móðga fólk, þ.e. heila stétt manna, á því bið ég afsökunar. — Og hvert var tilefnið, eins og hæstv. fjmrh. var að skýra það hér? Jú, tilefnið var það, sem hann er að biðjast afsökunar á, að það var gripið fram í fyrir honum hérna í umr. um daginn og það leiddi til ummæla sem hann ekki hefur haft fyrir að leiðrétta hér efnislega, heldur hefur í rauninni endurtekið. En hann biðst afsökunar á tilefninu, nánast frammíköllum þm. sem sátu hér undir umr. þá. Honum hafi af þessum sökum, vegna þess að nokkrum þm. blöskruðu þessi ummæli og gripu fram í fyrir hæstv. ráðh., ekki tekist að ljúka ræðu sinni m.a. um þetta efni, kennarastéttina. Hann upplýsti að hann hefði ætlað sér að bera saman vinnuskyldu kennara og annarra starfsstétta, en hefði ekki getað lokið ræðu sinni hér um daginn. Ég spyr: Hvað olli þeim ósköpum að hæstv. ráðh. gat ekki komið þessum málum á framfæri s.l. fimmtudag? Ég varð ekki var við að hæstv. forseti Sþ. hefði hina minnstu tilburði til að takmarka ræðutíma hæstv. fjmrh. á þessum tíma. Nei, það er ósköp einfalt að vefja afsökunarbeiðni inn í hjúp af þessu tagi og endurtaka í rauninni sömu efnislegu staðhæfingar og ráðh. hæstv. hafði hér í frammi í umr., endurtaka þær nú og bæta í rauninni með því gráu ofan á svart í sambandi við staðhæfingar sínar um vinnuframlag kennarastéttarinnar.

Ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á þessu. Það segir sína sögu að svo skuli ástatt í landsstjórninni að um efni sem þessi skuli bera svo mjög á milli ráðh.

Hæstv. fjmrh. gerði síðan tilraunir til að skjóta frekari stoðum undir staðhæfingar sínar varðandi vinnuframlag kennara. Margt af því var sannarlega fróðlegt að heyra af hans vörum. Hann staðhæfði það, sem einhvers staðar flaug fyrir fyrr á þessu ári, að kennurum hefði fjölgað um 93%, en nemendum aðeins um 6%. Já, ég skil það ósköp vel að hæstv. fjmrh. þyki þetta dálítið merkilegar tölur. Ég er ekkert hissa á því. En ég er undrandi á því að hann skuli ekki á þeim tíma, sem eru ekki bara vikur, ég hygg að það séu mánuðir síðan þessar tölur komu fram í fjölmiðlum, hafa haft fyrir því að skyggnast á bak við þær. Það skyldi nú ekki vera að í þessari prósentufjölgun kennara í landinu felist m.a. sú staðreynd að fjöldi kennara starfar í hálfu starfi? Konum hefur farið fjölgandi í þessari láglaunastétt, eins og í öðrum láglaunastörfum í þjóðfélaginu, og þær hafa margar hverjar ekki aðstæður til þess að vinna fullt starf. sú þróun hefur verið í gangi á undanförnum árum að störfum kennara, sem fá greidd laun frá fjmrh., hefur fjölgað af þessum sökum. Ég hygg að þetta sé ekki minnsti þátturinn í þeim prósentutölum sem hér komu fram.

Já, þetta þarf að kanna, sagði hæstv. fjmrh., hvernig á þessu stendur. Og hann vildi láta kanna fleira eins og frídaga fólks hér á Íslandi, þ.á m. frídaga kennarastéttarinnar, sem stundar það að hafa frí á laugardögum og sunnudögum eins og hann greindi frá í umr. um daginn. Það væri þörf á því og er út af fyrir sig góðra gjalda vert að tilefni hefur orðið hér til umr. um stöðu og störf kennara í landinu. Það er ástæða til þess, þegar rætt er um hin bágu launakjör þeirra, að hv. alþm. rifji það upp hverju hefur, m.a. af löggjafarsamkomu þjóðarinnar, verið hlaðið á kennarastéttina í landinu í auknum störfum og aukinni ábyrgð sem á hana hefur lagst vegna fyrirmæla og forskrifta bæði frá löggjafarvaldi vegna viljayfirlýsinga Alþingis og frá framkvæmdavaldinu. Ég tel að ekki þurfi að eyða löngum tíma í að meta störf kennara til þess að komast að raun um að ekki aðeins er nauðsynlegt heldur skylt að leiðrétta launakjör þeirra alveg sérstaklega til að halda hæfum starfskröftum innan uppeldisstofnana í landinu, skólanna, og til þess að sá flótti, sem hafinn er úr kennarastétt vegna hinna bágu launakjara og aukinna krafna sem gerðar eru til starfa kennara, verði stöðvaður.

Hæstv. fjmrh. sagðist raunar tala hér sem frjáls maður og maður í ábyrgðarstöðu og hann mundi mæta sem slíkur andstæðingum sínum og andstæðingum Sjálfstfl. Hæstv. ráðh. var bent á það um daginn að það væri farið að fjölga allnokkuð í andstæðingasveit Sjálfstfl. nú upp á síðkastið ef hæstv. ráðh. telur að allir þeir sem risið hafa upp til andmæla vegna hans ummæla, vegna afstöðu ríkisstj. í launamálum gagnvart opinberum starfsmönnum, séu andstæðingar Sjálfstfl. Ég ætla ekki að hafa uppi neinar staðhæfingar í því efni þó ég vissulega voni að þeim fari fjölgandi sem sjá í gegnum þann flokk sem kallar sig flokk allra stétta í landinu. En svo vongóður er ég ekki að öll sú fjölmenna sveit launafólks í landinu, sem nú mótmælir og heldur saman í baráttu um rétt sinn og kjör, sé nú þegar búin að skipa sér í andstæðingasveit Sjálfstfl.

Varðandi hitt efnið, sem hér var rætt, mætti einnig margt segja. Ég ætla aðeins að ítreka það, sem kom fram í fsp. hv. 3. þm. Reykv., og eftir að hafa hlýtt á svör hæstv. fjmrh., að það er með fádæmum hvernig þessi ríkisstj. og hæstv. fjmrh. leggja sig fram um að kynda undir þá deilu sem nú stendur yfir, þá viðkvæmu kjaradeilu sem nú stendur yfir, og það með útsendingum af því tagi sem ráðuneytisstjóri fjmrn. sendi frá sér fyrir hönd fjmrh. þann 8. okt. Hvað segja menn um rannsóknarrétt af því tagi sem hér er verið að efna til fyrirmæla um, að fylgjast með störfum manna í ráðuneytum og skrá alveg sérstaklega niður tilvik sem telja má að koma þurfi til athugunar í sambandi við eftirmál vegna þeirra kjaradeilna sem nú standa yfir? Ég hefði talið það skynsamlegt af ríkisstj. að taka ekki þessu bréfi aðeins með þögninni, eins og fjmrh. greindi frá að hefði verið niðurstaða ríkisstj., heldur að draga þessi fyrirmæli til rn. og forstöðumanna ríkisstofnana til baka.