29.11.1984
Neðri deild: 18. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Forseti (Ingvar Gíslason):

Þetta er útvarpsumr. og umræðan skiptist í tvær umferðir þannig að hver þingflokkur fær til umráða 30 mínútur, 15–20 mínútur í hinni fyrri og 10–15 í síðari umferð. Röð flokkanna verður hin sama í báðum umferðum, þannig: Alþb., Sjálfstfl., Alþfl., BJ, Framsfl. og SK. Ræðumenn verða: Af hálfu Alþb. tala Hjörleifur Guttormsson, 5. þm. Austurl., og Steingrímur J. Sigfússon, 4. þm. Norðurl. e., í fyrri umferð og Hjörleifur Guttormsson talar einnig í hinni síðari umferðinni. Af hálfu Sjálfstfl. talar Sverrir Hermannsson iðnrh. í fyrri umferð, en Gunnar G. Schram, 2. þm. Reykn., og Guðmundur H. Garðarsson, 4. þm. Reykv., í hinni síðari umferð. Fyrir Alþfl. talar Kjartan Jóhannsson, 3. þm. Reykn., í fyrri umferð, en Jóhanna Sigurðardóttir, 2. landsk. þm., í síðari umferð. Ræðumenn BJ verða Kristófer Már Kristinsson, 1. landsk. þm., í fyrri umferð og Guðmundur Einarsson, 4. landsk. þm., í síðari umferð. Af hálfu Framsfl. tala Ingvar Gíslason, 1. þm. Norðurl. e., og Páll Pétursson, 2. þm. Norðurl. v., í fyrri umferð, en Steingrímur Hermannsson forsrh. í hinni síðari. Ræðumenn SK verða Guðrún Agnarsdóttir í fyrri umferð, hv. 3. landsk. þm., og Kristín Halldórsdóttir, 7. landsk. þm., í síðari umferðinni.

Nú hefst umræðan og fyrstur tekur til máls Hjörleifur Guttormsson, 5. þm. Austurl., og talar af hálfu Alþb.