18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

182. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er auðvitað algerlega sammála þessu frv. og nál. En ég vil inna eftir því hvort nefndin fékk áætlun Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir árið 1986, áætlun um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 1986.

Það hefur verið þannig á undanförnum árum að lögð hefur verið á það mikil áhersla af þm. að þessi áætlun lægi fyrir og ég man ekki betur en að drög að henni hafi legið fyrir í fyrra þegar lögin um málefni aldraðra eða Framkvæmdasjóð aldraðra voru afgreidd hér. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessi áætlun liggi núna fyrir, annaðhvort nú þegar eða þá þegar 3. umr. fjárlaga fer fram. Ég vil spyrja frsm. nefndarinnar, sem jafnframt er varaformaður fjvn., út í þetta mál og óska eftir því að hann sjái svo um, ef hann á þess ekki kost nú, að upplýsingar um áformaða úthlutun úr sjóðnum á árinu 1986 liggi hér fyrir við 3. umr. fjárlaga.

Við 2. umr. fjárlaga hér um daginn var tölunni í Framkvæmdasjóð aldraðra breytt. Hún var lækkuð um 14 millj. kr. Hún var 79 millj. í fjárlagafrv. en varð 65 millj. við 2. umr. málsins hér í hv. Sþ. Þessar 14 millj. voru teknar og þær voru notaðar til þess að greiða til þeirra stofnana sem ríkið á að leggja til fé skv. lögunum um málefni aldraðra, þannig að í sjálfu sér er ekki margt við það að athuga. En engu að síður er óhjákvæmilegt að nánari upplýsingar liggi fyrir, m.a. með tilliti til B-álmu Borgarspítalans, svo að ég nefni dæmi, sem er eitt stærsta verkefni Framkvæmdasjóðs og ákaflega brýnt að það takist að setja í gang á næsta ári a.m.k. tvær hæðir B-álmu Borgarspítalans vegna þeirra löngu biðlista og þeirra erfiðu aðstæðna sem eru í málefnum aldraðra hér á þéttbýlissvæðinu.

Af þeirri ástæðu og fleirum, herra forseti, hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. til hv. frsm. nefndarinnar og varaformanns fjvn.