24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður gaf tilefni til að fara út í langar umræður um kjör verkafólks borið saman við kjör flugfreyja og þjónustu þá sem er fyrir hendi fyrir Íslendinga. Við erum að tala fyrst og fremst um farkosti Íslendinga og samanburð á þjónustu í íslenskum vélum og erlendum vélum. En þar sem ekkert af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði snertir það mál sem hér er á dagskrá fell ég frá orðinu.