24.10.1985
Sameinað þing: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

63. mál, umhverfismál og náttúruvernd

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd sem ég flyt ásamt fjórum öðrum þm. Alþb., þeim hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Helga Seljan, Steingrími J. Sigfússyni og Svavari Gestssyni. Till. um sama efni var flutt á síðasta þingi, og raunar snemma á síðasta þingi, en varð eigi útrædd og mæli ég hér fyrir málinu öðru sinni. Ég mun því takmarka mig í framsögu við fáeina þætti þó að af mörgu sé að taka á þessu sviði og ástæða til umræðna um það.

Tillgr. sjálf er í tíu tölusettum liðum þar sem ályktað er að Alþingi feli ríkisstj. að sjá til þess að undirbúin verði og framkvæmd þau atriði til úrbóta í umhverfismálum og náttúruvernd sem þar eru upp talin. Þessir þættir eru efnislega:

1. Að sameina þá málaflokka, sem einkum varða umhverfisvernd, í einu ráðuneyti í tengslum við endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands og þetta gerist ekki síðar en í árslok 1986. Er þá gert ráð fyrr því að frv. um þetta efni komi fram á þinginu svo sem boðað hefur verið í fskj. með stefnuræðu hæstv. forsrh., en það var raunar umtal um það á síðasta þingi að slíkt frv. kæmi fram.

2. Að undirbúin verði löggjöf um umhverfismál sem sérstaklega taki til mengunarvarna á landi, í sjó og í lofti, svo og framkvæmdaáætlun um að draga úr mengun frá frárennsli og verksmiðjum. Ég hygg að vinna hafi verið í gangi um alllangt skeið af hálfu hæstv. félmrh. við undirbúning að slíkri löggjöf og raunar gert ráð fyrir því að hún kæmi fram ekki síðar en á síðasta þingi. Mér þætti vænt um ef hæstv. félmrh. gæti hér við umræðu greint okkur frá stöðu undirbúnings slíkrar löggjafar.

3. Bent er á nauðsyn endurskoðunar laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, m.a. til samræmis við væntanlega nýja löggjöf um mengunarvarnir. Ég er ekki viss um, herra forseti, að sú tilvísun í frv. sé rétt sem hér er, en vek athygli á því svo að athugað verði hvort vísað sé í rétt laganúmer, en um var að ræða lög sem sett voru fyrir nokkrum árum og gert ráð fyrir að þau skyldu endurskoðuð að fimm árum liðnum ef ég man rétt.

4. Lagt er til að fyrir yfirstandandi Alþingi verði lagt í tæka tíð til afgreiðslu frv. til nýrra laga um náttúruvernd, en slíkt frv. var flutt í hv. Ed. af þáv. hæstv. menntmrh. seint á síðasta þingi. Hér er hvatt til þess að slíkt frv. verði nú lagt fyrir þingið það snemma að unnt verði að fjalla um það á þinglegan hátt og taka til þess afstöðu.

5. Bent er á nauðsyn þess að gripið verði til samræmdra aðgerða til verndar gróðri með friðun og hóflegri nýtingu, m.a. í tengslum við breytta búskaparhætti, og komið verði á virkri stjórn og eftirliti í þessu skyni. Hér er um að ræða stórmál sem alloft hefur verið rætt hér á hv. Alþingi en engan veginn hefur verið tekið á af hálfu framkvæmdavaldsins svo sem vert væri. Gróðureyðing er mjög víða í gangi í landinu og þrátt fyrir viðleitni og aðgerðir af hálfu Landgræðslu ríkisins og fleiri aðila er það enn mikil spurning hvort við höfum náð þarna því marki að vinna jafnmikið á og tapast. Ég satt að segja efast um að svo sé og það skortir mjög mikið á að fyrir liggi hér á Alþingi og hjá þeim stofnunum sem ætlað er að fást við þessi mál af hálfu framkvæmdavaldsins nógu greinargóðar upplýsingar þannig að þeir aðilar, þar á meðal gróðurverndarnefndir og skipulagsyfirvöld, geti tekið á þessum málum út frá eðlilegum þekkingargrunni, út frá eðlilegri þekkingu og upplýsingum. Hér er því mikilla úrbóta þörf sem vakin er athygli á og þarf að tengjast landgræðsluáætlun og því starfi sem unnið er að gróðurvernd.

6. Bent er á nauðsyn þess að auka rannsóknir á dýrastofnum, jafnt á landi og í sjó við Ísland, og tryggt verði að við nýtingu þeirra og verndun sé tekið mið af vistfræðilegum sjónarmiðum.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessum þætti sem oft hefur verið rætt hér á hv. Alþingi. Það nægir að vísa til umræðna sem hér hafa orðið um seli, selastofnana við landið, á tveimur síðustu þingum þar sem fram hafa verið bornar tillögur og frumvörp með mjög tvísýnum ákvæðum að mínu mati og ekki byggt á þekkingarlegum grunni sem skyldi. Hins vegar eru þær hugmyndir sem hæstv. sjútvrh. kynnti fyrr á þessu ári í sambandi við hvalveiðar. Þetta er eitt dæmi um hugmyndir um vísindalegar rannsóknir sem eru vel undirbyggðar. Þó að þar séu ýmis álitamál uppi var þar tekið á máli með allt öðrum og skynsamlegri hætti að mínu mati.

7. Vakin er athygli á nauðsyn átaks í skipulagsmálum með lagabótum og með langtímasjónarmið í huga þar sem tekið verði tillit til þess að landið allt er skipulagsskylt. Vissulega hefur sitthvað horft til bóta í vinnubrögðum að þessu leyti, en þó miðar mjög hægt og þar skortir m.a. á að fyrir liggi undirstöðugögn, nógu vel unnin gögn til þess að byggja á skipulagsvinnu. Á ég þar m.a. við kortagerð sem er undirstöðuatriði að sé aðgengileg í því formi sem nota þarf við hina ýmsu þætti skipulagstillagna og undirbúning þeirra.

8. Bent er á að æskilegt sé að Náttúruverndarráð undirbúi í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera og slík áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar og e.t.v. til staðfestingar. Hér getum við litið til annarra þjóða, eins og t.d. Norðmanna sem fyrir alllöngu tóku upp þann hátt að friða tímabundið eða varanlega náttúrufyrirbæri af því tagi sem hér er um að ræða, m.a. vatnsföll, og flokka þau og raða í forgangsröð út frá náttúruverndargildi. Margt mætti af því læra og vissulega þekkjum við þá árekstra sem hafa orðið okkur býsna dýrkeyptir í sambandi við hagnýtingu orkuauðlinda okkar, vatnsfalla og jarðvarma, og þarf ekki að hafa uppi tilvísun til einstakra þátta þar svo ofarlega sem það er í huga allra, að ég geri ráð fyrir.

9. Bent er á þörfina á að mótuð verði opinber stefna í ferðamálum sem feli í sér nauðsynlegar verndaraðgerðir fyrir náttúru landsins með tilliti til breyttra samgönguhátta m.a. Það er mikið rætt um aukningu ferðamannaþjónustu sem mögulegan atvinnurekstur þar sem hægt væri að renna frekari stoðum undir arðbæran atvinnurekstur í landinu og gjaldeyrisöflun, en mér finnst gleymast í því samhengi að litið sé til þess sem snýr að því sem við erum að selja aðgang að, náttúru Íslands. Þarna erum við mjög illa undir það búin að taka við þeim aukna straumi ferðafólks sem verið er að beina til landsins með skipulegum hætti er óhætt að segja, þ.e. skipulegum hætti að því leyti að landið er auglýst upp á kraft og reynt að gefa því sem mest aðdráttarafl, en aðbúnaðurinn til að taka við þessum ferðamannastraumi erlendis frá er mjög í molum og margar af perlum íslenskrar náttúru eru í ákveðinni hættu að bíða tjón af þeirri umferð sem ferðamannastraumnum fylgir. Auðvitað gildir það ekki aðeins um erlenda ferðamenn. Hið sama gildir vissulega um Íslendinga sem ferðast um landið, en um þann ferðamannastraum höfum við meiri vitneskju og meiri reynslu en af straumi útlendinga m.a. með bílferjum til landsins.

10. Vakin er athygli á nauðsyn aukinnar fræðslu um íslenska náttúru, um umhverfisvernd og auðlindir, m.a. í fjölmiðlum og skólum og í söfnum. Það er auðvitað eitt af undirstöðuatriðunum að slíkri fræðslu sé stöðugt miðlað og reynt að koma henni á framfæri á þann hátt að hún nái til fólks.

Þá er að lokum gert ráð fyrir því, herra forseti, að ríkisstj. láti gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun til næstu tíu ára um æskilegar úrbætur skv. ofangreindu og leggi slíka áætlun fyrir næsta reglulegt Alþingi til að auðvelda stefnumörkun og fjáröflun í þessu skyni.

Í grg. er fjallað nánar um einstaka þætti sem ég hef hér nefnt og henni fylgja mörg fskj. sem snerta málið hv. alþm. og þeim sem vilja kynna sér þessi mál til glöggvunar. Teknar eru þarna inn m.a. ályktanir síðasta náttúruverndarþings og einstakra funda, m.a. stefnumótun Alþb. í þessum málum, en flokkurinn fjallaði ítarlega um þetta á síðasta landsfundi sínum. Nýjasta fylgigagnið sem þessu fylgir er tæplega mánaðargamalt. Það er reglugerð sem hæstv. heilbr.- og trmrh. undirritaði þann 30. sept. s.l. um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun. Þarna er um að ræða nýja reglugerð í stað eldri reglugerðar frá 1972 sem þá var frumraun og til mikilla bóta. Hér hefur sem sagt verið sett ný víðtækari reglugerð og ég kann hæstv. ráðh. þakkir fyrir að hafa komið frá sér þessari reglugerð sem krefst starfsleyfis fyrir margháttaðan rekstur sem haft getur í för með sér mengun og hefur ekki verið skylt að fá starfsleyfi fyrir frá stjórnvöldum.

Herra forseti. É,g veit að margir hv. þm., ef ekki allir, hafa verulegan áhuga á náttúruverndarmálum, umhverfisvernd almennt séð, og ýmsir láta þessi mál til sín taka. En hér er um víðtækan og nokkuð flókinn málaflokk að ræða sem krefst þess að tekið sé á einstökum þáttum, en líka á málinu í samhengi þar sem þetta er meira og minna samtvinnað, stjórnun umhverfismálanna, staðan í stjórnkerfinu og mótun löggjafar um hina ýmsu þætti. Þess vegna hef ég leyft mér að færa þetta mál í búning þáltill. sem ég hér hef mælt fyrir. Ætla ég ekki að orðlengja það frekar, en legg til að eftir að fyrri umræðu um þetta mál lýkur verði málinu vísað til hv. allshn.