17.02.1986
Neðri deild: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

232. mál, talnagetraunir

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir á þskj. 460 um talnagetraunir felur í sér heimild til að veita Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til getraunastarfsemi. Getraunastarfsemi þessi fari fram með þeim hætti að á þar til gerða miða er skráð eða valin röð talna og/eða bókstafa.

Tilgangur þessara getrauna yrði að afla fjár fyrir starfsemi þessara aðila, annars vegar til eflingar íþróttum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan vébanda Íþróttasambands Íslands og Ungmennasambands Íslands, hins vegar til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalags Íslands og til að standa undir annarri starfsemi þess bandalags í þágu öryrkja.

Frv. þetta er byggt á samkomulagi sem þau landssamtök sem ég hef áður nefnt hafa gert um þennan rekstur, þar á meðal um stjórn, skiptingu ágóða o.fl. Er gert ráð fyrir því sem meginreglu að íþróttahreyfingin njóti 60% ágóða en Öryrkjabandalagið 40%.

Að því er varðar skiptingu milli íþróttasamtakanna innbyrðis er gert ráð fyrir því að hlutur ÍSÍ verði 46,67% og UMFÍ 13,33% og eru það sömu hlutföll og gilda um ágóðaskiptingu skv. lögum um getraunir, þ.e. íþróttagetraunir.

Eins og hv. þingdeildarmönnum er í minni var á síðasta Alþingi lagt fram frv. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands þar sem gert var ráð fyrir að það bandalag fengi heimild til bókstafagetrauna. Ekki náðist á þinginu samstaða um afgreiðslu frv. þar sem talið var að gengið væri á hlut íþróttahreyfingarinnar sem skv. lögum frá 1972 hefur heimild til að starfrækja talnagetraunir.

Hæstv. forsrh., sem gegndi þá störfum dómsmrh. í fjarveru minni, lagði til að leitað yrði samkomulags á milli þessara aðila um getraunastarfsemi og er frv. þetta flutt á grundvelli slíks samkomulags.

Herra forseti. Ég tel að eigi þurfi að fylgja frekari grg. með frv. þessu og vísa að öðru leyti til athugasemda með frv. Að sjálfsögðu munu fulltrúar þessara samtaka og ráðuneytisins fúsir til að gera frekari grein fyrir máli þessu. Ég vænti þess að um afgreiðslu frv. geti náðst samstaða og legg til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.