17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

326. mál, framleiðsla bæti- og matarefna úr mjólk

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég get ekki skilið hvers vegna hv. 4. þm. Vesturl. segir að það hafi verið uppgjafartónn í mér þó að ég læsi upp grg. frá Mjólkursamsölunni þar sem skýrt var frá því hvernig verið væri að vinna að þessum málum. Ég lagði áherslu á að að sjálfsögðu yrði að halda slíku áfram þó að fyrstu athuganir bentu kannske ekki til nægilegrar hagkvæmni, en það kom líka fram að áfram væri unnið að því.

Rökin fyrir samstarfi við erlenda aðila voru fyrst og fremst þau í þessari grg. að þarna væri um að ræða þekkingu sem aðeins einstök fyrirtæki réðu yfir og það væri nauðsynlegt til þess að komast að þeirri þekkingu að komast í samstarf við þá aðila, eins og við reyndar reynum að gera á fleiri sviðum.