01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

363. mál, innri öryggismál

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með því að lesa upp úr Morgunblaðinu staðfesti hv. þm. allt sem ég hafði sagt hér áðan. (GHelg: Nei. Ráðherra sagðist ekki hafa verið á fundinum. Getum við fengið upplýst hvar ráðherrann var.) Þetta er annar fundur hv. þm., fundirnir voru tveir. (GHelg: Nú.) Þannig að hv. þm. hefur ekki tekið nægjanlega vel eftir.

Á fyrri fundinum vakti ég athygli á því að við yrðum að taka þetta mál til meðferðar, innra öryggi, og á þeim fundi vék ég aldrei að því sem hv. þm. spurði um hér og sagði: Hverju sætir það að hæstv. utanrrh. reifi slíkar hugmyndir sem hann var búinn að búa til í sinni fyrstu fsp. Á þessum fundi reifaði ég aðeins innra öryggi, en á síðari fundinum var ég ekki viðstaddur. En ég bætti því við að þar hefði enginn maður, a.m.k. úr utanrrn., sagt frá neinu sem þar hafi verið unnið vegna þess að það hefur ekki verið gert. En hinu mótmæli ég, að ég sem einstaklingur, ég sem þm., ég sem ráðherra, geti ekki komið á fund hvar sem er í landinu og rætt hugmyndir, sem ég hef, öðruvísi en að vera búinn að koma með málið fyrst í utanrmn. eða í þingflokk eða í ríkisstjórn. Við erum þó frjálsir menn í frjálsu landi og getum komið fram með okkar hugmyndir hvar sem við viljum. Ég lagði síðan málið fyrir ríkisstjórnina. Og það var ekkert launungarmál, síður en svo. Og þetta er ekkert gamanmál. Þess vegna segi ég: Það er ástæðulaust fyrir okkur að vera að ætla einhverjum að segja eitthvað, en upp úr Morgunblaðinu las hv. þm. ekkert af því sem hann spyr um á þessu þskj. Hvað svo fór fram á síðari fundinum veit ég ekki - nema það að frá vinnu utanrrn. var ekki hægt að segja.