02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3404 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

Um þingsköp

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Við umfjöllun þessa máls í félmn. sem nú verður tekið á dagskrá varð að samkomulagi að taka það mál til umræðu í deildinni í dag. Það skal viðurkennt að deildarfundur hefur dregist nokkuð á langinn, fyrst og fremst að sjálfsögðu vegna þess að hér hafa verið mál til umræðu sem þm. hafa þurft, fleiri en einn og fleiri en tveir, að taka til máls um og umræður hafa orðið nokkuð langar.

Ég mælist til þess að fundi verði frestað þó ekki væri nema í 2-3 mínútur. Ég æski þess að fá að ræða þetta mál við ekki síst þá aðila sem hér hafa tekið til máls um framgang frv. til sveitarstjórnarlaga. Ég segi það hér að ég hefði fremur kosið að hægt væri að hefja þessa umræðu. Það liggur ljóst fyrir að ekki verður lokið afgreiðslu málsins héðan frá deildinni í dag. Það liggur náttúrlega í augum uppi og var vitað við upphaf fundar.

En ég mælist til þess, herra forseti, að ég fái tækifæri til að ræða þetta mál ekki síst við þá sem hér hafa tekið til máls um málsmeðferð þótt ekki væri nema í nokkrar mínútur.