19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4239 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið. Sérstaklega vil ég taka undir orð síðasta hv. ræðumanns, 3. þm. Norðurl. e., sem vakti athygli á máli sem er að verða þjáningarmál á okkur, hvernig hafið er að éta upp hafnirnar okkar hringinn í kringum landið, hafnir sem við leitum skjóls í og öll framfærsla okkar byggist á. Ekki mun ég af mér draga í fylgi við að ná vopnum í þessu mikilsverða máli.

En eitt er í senn og líka það að við eigum hér byggingu vestur á Melum upp á 200 millj. kr., ónýtta, vannýtta, einskis virði fyrr en við ljúkum verkinu. Það liggur fyrir að Háskóli Íslands þarf og hlýtur að taka þátt í og vinna með atvinnulífinu í uppbyggingunni á næstu árum. Og heilinn í honum er í slíku bókasafni. Því er það að ekki kemur annað til greina, ef ég á að vera í þessu embætti sem nú gegni ég, en að sinna þessu og gegna þessu og lúka þessu sem þar liggur fyrir. Ég þakka undirtektir.