23.04.1986
Neðri deild: 101. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4600 í B-deild Alþingistíðinda. (4428)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tjáð mig í þessu máli áður en tel nauðsynlegt hér við 2. umr. málsins að fara yfir nokkur atriði sem varða þetta frv. Mér finnst það ekki óviðeigandi þar sem þetta varðar jörð í mínu kjördæmi, eins og sagt er, og menn voru að fjalla um listskreytingu Hallgrímskirkju í gær, utansóknarmenn, og mér fyndist óviðeigandi að ég sem búandi í Austurlandskjördæmi léti þetta mál algjörlega fram hjá mér fara.

Það hefur verið upplýst að sá maður sem falast eftir jörð þessari til kaups er búsettur í Arnarnesi í Garðakaupstað og eins og hv. þm. vita eru það ekki allt kotungar sem í Arnarnesinu búa og þar niður undir sjó og getur það út af fyrir sig vakið nokkrar spurningar hvers vegna viðkomandi er að falast eftir jörð á útnesi eystra. Ég veit að vísu ekki fyllilega um landkosti í Arnarnesi en hæstv. forsrh. ætti að geta upplýst það, a.m.k. hvort ekki væri hugsanlegt að rækta þar æðarfugl, angórakanínur og jafnvel stunda garðrækt.

Ég held að nauðsynlegt sé áður en lengra er haldið, herra forseti, að upplýsa þingheim svolítið nánar um þessa jörð, Streiti, og ég hef því aflað mér heimilda, bestu heimilda um sveitir og jarðir í Múlaþingi sem varða þessa jörð og ætla að leyfa mér, ef forseti heimilar, að lesa þær upp fyrir þingheim. Það er um jörðina Streiti í Breiðdalshreppi.

„Jörðin er nefnd Stræti í þremur Landnámuhandritum en „Streiti“ í einu (Hauksbók - sjá Ísl. fornrit I, L og 308). Í fornbréfum og á síðari tímum er hún alltaf kölluð Streiti og sú mynd sennilega upprunalegri (sjá Breiðdælu, 10). Heitið Streiti er skýrt út frá sögnunum að streitast og strita og má ætla að bær sé nefndur eftir ysta fjallinu milli Breiðdals og Berufjarðar, það er snarbratt og erfitt uppgöngu. Bæjarins er getið í Austfirðingasögum fornu, Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar, og kallast þar Stræti. Þangað flyst þá að boði Þorsteins Þórhaddur draumamaður og ójafnaðarmaður frá Rannveigarstöðum í Álftafirði.

Í fornbréfasafni eru elstu heimildir um bæi í Breiðdal frá Streiti þar sem jarðarinnar getur í máldaga sem talinn er frá 1179. Þar er þá kirkja sem þjónað er frá Heydölum og átti að messa í henni 32var sinnum á ári. Máldaginn er í Breiðdælu. Jörðin var eign Heydalakirkju og er ríkiseign nú.

Yst á skaganum milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar er Streitishvarf (Hvarf í daglegu tali), lágur höfði við sjó. Þaðan eru um 4,5 km inn á hreppamörkin sem eru bein lína frá Háubökkum við sjó og upp um Flatafjallsröðul en frá Streitishvarfinu um 2 km inn að Ósmörkum við Krossá. Streiti er því syðsti bær í Breiðdalshreppi og stendur Berufjarðarmegin á ströndinni um 1,5 km utan við hreppamörkin. Meðfram Berufirðinum er flatlend votlendislengja um 500-600 m á breidd innan frá mörkum og út undir Streitishvarfið og þjóðvegurinn ofan við í rótum snarbrattra hlíðarbrekkna þar sem gróðurlendisspildur milli skorninga teygjast upp í skriður en ofar eru klettabelti löng og há, sums staðar slútandi. Fjöllin með þessar þungu blágrýtisbrúnir heita Flatafjall innst en Skoruhjallafjall utar og snúa norðvesturhlíðum að Krossdal. Inn af Krossdal eru Naphornsbotnar upp af Naphorni á hreppamörkunum.“

Síðan er nánari lýsing sem ég ætta að grípa niður í á þessari öndvegisjörð.

„Á Hvarfinu er skjólgott í hléi við klettaborgir og bríkur og grær snemma á vorin. Mestur af bríkum er Skrúðskambur, tröllahlað sunnan á Hvarfinu. Þar á að vera bústaður bergbúa og í Tyrkjaurð norðan á Hvarfinu eiga að liggja dysjaðir 18 Tyrkir sem bóndi einn fann sofandi og rotaði með ístaði. Um 2 km út og norður af Streitishvarfi er skerið Hlaða. Þar stendur viti, byggður 1965, stóð áður á Hvarfinu frá 1922.“

Síðan er lýst afbýlum í Streitislandi en vegna þess að ég vil síst verða til að tefja fund í deildinni, þennan hugsanlega síðasta fund deildarinnar. ætla ég ekki að fjalla sérstaklega um afbýlin en vísa mönnum á þessa gagnmerku heimild. En aðeins nánar um Streiti. (Menntmrh.: Ég held að Stræti sé réttara.) Ja, það kynni nú að vera en það kannske sannast eftir því hvernig lyktir verða í þessu máli hvort réttara er, hæstv. menntmrh., Stræti eða Streiti.

„Á Streiti hafa búið samtímis mest fjórir bændur en oftast tveir til þrír á þessari öld fram til 1947 - skipt túni og engjum - en einn síðan. Árið 1956 voru býlin sameinuð í eitt býli.

Jörðin er“ - og ég bið menn um að taka eftir - „og var vel til búskapar fallin, ræktunarskilyrði hagfelld og geysimikil með framræslu, ásetningur fyrr baggi á kind og hagar góðir fyrir alla gripi. Gamla túnið var raklent en grasgefið, engjar víðlendar og fremur grasgefnar en votlendar. Fjörubeit var ágæt, einkum á svonefndu Rifi inn og niður af bæ, en viðsjál.“

Svo kemur hér smásaga sem ég held að menn ættu að leggja á minnið:

„Einhvern tímann var það að bóndinn á Vafrastöðum“ - það er eitt af útbýlunum eða afbýlunum sem svo eru kölluð - „missti þar allt sitt fé í sjóinn nema eina á morukollótta og rytjulega. Hann henti henni margsinnis í sjóinn í bræði sinni yfir eignatjóninu en hana rak jafnharðan svo að hann gafst upp og út af Mosu eignaðist hann ágætan fjárstofn með undraskjótum hætti.“

Þetta er hluti af þeim upplýsingum sem er að finna um jörðina Streiti í heimildinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi og ég gæti til upplýsingar farið yfir ábúendatal og sitthvað fleira en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni, ekki við þessa umræðu, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist til að rekja það, svo og ættir þeirra sem á Streiti hafa búið. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að upplýsa nýtt atriði sem varðar þessa jörð sem einn af grönnum hæstv. forsrh. er að falast eftir til kaups.

Hæstv. utanrrh. hefur upplýst mig um það að frá Streiti séu ekki aðeins komnir góðir stofnar í fé og mannfólki heldur einnig í hrossum. Hvorki meira né minna en góðhesturinn Blakkur 129 er frá Streiti ættaður og ég leyfi mér að koma á framfæri þeirri hugmynd frá hæstv. utanrrh. að reistur verði veglegur minnisvarði við þjóðveginn í landi Streitis um þennan ágæta fola og sýnist mér að verðugast væri náttúrlega að ríkisstjórnin fengi frv. til nánari meðferðar og umsýslu, þar sem þetta tengist a.m.k. tveimur ráðherrum í ríkisstjórninni þó með nokkuð óbeinum hætti sé að sumu leyti.

Þar sem ég þykist vita að margir vilji ræða þetta mál frekar ætla ég, herra forseti, ekki að staldra lengur við það. Ég hefði kosið að ríkisstjórnin fengi málið, en að öðrum kosti að við fengjum að ræða það aftur á næsta þingi.