04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég inni eftir því í fyrsta lagi hvort það er svo að forseti Sþ. muni beita sér fyrir því að fram fari atkvæðagreiðsla um þá tillögu sem hér hefur orðið tilefni þessarar umræðu. Ég held að nauðsynlegt sé að það liggi ljóslega fyrir hvort ekki er alveg tryggt að slík atkvæðagreiðsla færi fram í þinginu, atkvæðagreiðsla um þá tillögu sem hér hefur orðið tilefni þingskapaumræðunnar. Það er óhjákvæmilegt að sú afstaða hæstv. forseta liggi fyrir.

Framsfl. virðist vera sammála því að málið hafi ekki komið til atkvæðagreiðslu í tæka tíð vegna þess að talsmaður Framsfl. í utanríkismálum, hv. 9. þm. Reykv., telur að hér sé ekki um stórmál að ræða vegna þeirra hluta sem eru nú að gerast í utanríkismálum, alþjóðamálum, afvopnunarmálum. Og hvað er að gerast? Það sem er að gerast er að Bandaríkin eru að sprengja SALT-II samkomulagið um langdræg kjarnorkuvopn og Bandaríkjastjórn hefur lýst því yfir að hún muni ekki stöðva tilraunir með kjarnorkuvopn þrátt fyrir 17 mánaða einhliða stöðvun af hálfu hins risaveldisins. Það eru þessar staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir. Það er þetta nýja sem er að gerast og það kallar á viðbrögð. Málið hér í þingskapaumræðunni snýst þó fyrst og fremst um það: Má Alþingi Íslendinga hafa skoðun eða ekki? Svo virðist sem Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. hafi bundist bandalagi um að koma í veg fyrir að Alþingi Íslendinga fái að tjá sig um þessi mál. Það er athyglisvert, fróðlegt að þannig skuli hlutirnir standa og þetta skuli liggja fyrir og það skuli hafa þurft hér nærri klukkutíma þingskapaumræðu til að draga fram þessar staðreyndir um hina ólýðræðislegu afstöðu þessara flokka, misbeitingu á þingsköpum og reglum Alþingis í þessum efnum.