17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þessi lánsfjárlög í heild. Það hefur þegar margt verið sagt og margt rétt, bæði af stjórn og stjórnarandstöðu, um það mál. Ég ætla einungis að ræða í örfáum orðum um þá lagagrein sem fjallar um fjárveitingar í framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins.

Það þarf svo sem ekki að fara í grafgötur með að ég tel að sú grein sem nú er orðin 28. gr. gangi algerlega þvert á þær yfirlýsingar og reyndar á þau lög sem samþykkt voru í fyrra um útvarp á Íslandi. Það er áhyggjuefni að svo hefur farið, sem við spáðum, að auglýsingatekjur mundu minnka mjög verulega, enda má segja að auglýsingamarkaðurinn á Íslandi sé þegar orðinn fullmettaður og kannske meira en það.

Framkvæmdasjóður útvarpsins er stofnun sem að sjálfsögðu verður að efla eftir föngum og það var óhugsandi fyrir okkur framsóknarmenn að fallast á þær till. sem voru í frv. hæstv. fjmrh. um þetta efni. Nú hefur hins vegar tekist að fá því framgengt að ákvæðið um afturvirkni er fellt niður og Ríkisútvarpið nýtur fullra tekna af aðflutningsgjöldum á því ári sem nú er að líða. Samkvæmt síðustu tölum mun hér vera um 130-140 millj. að ræða sem er verulega miklu meira en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum þar sem var talað um u.þ.b. 50 millj., ef ég man rétt.

Það var til umræðu að fara þá leið, sem hv. 5. landsk. þm. benti á, að skipta þessari fjárhæð, þ.e. að taka ákveðna prósenttölu af hvoru ári, skerða sem sagt framlögin um ákveðinn hundraðshluta, en það voru ýmis ljón þar á vegi og niðurstaðan varð sú að Ríkisútvarpið fái að njóta hinnar gífurlegu aukningar sem varð á innflutningi sjónvarpstækja á þessu ári sem hlýtur að teljast vera óvenjuleg á einu ári og nokkuð lagt á hættu með því að fara að ræða um ákveðinn hundraðshluta af innflutningi næsta árs sem er algerlega óljós og reyndar mjög ósennilegt að verði jafnmikill og langt frá því jafnmikill og var á þessu ári.

Ég tel að það hafi náðst mjög verulegur árangur í baráttu okkar fyrir fjárveitingum til Ríkisútvarpsins með því að halda óskertu framlagi þess árs sem nú er að líða. Á hitt vil ég leggja mikla áherslu að útvarpslögin eru að sjálfsögðu í gildi og ég lít alls ekki svo á að hér sé um neina stefnumörkun að ræða heldur verði þetta mál tekið upp og hlýtur að verða tekið upp á næsta ári þannig að framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins haldi áfram að njóta þessara tekna.

Nú liggur fyrir endurskoðun á útvarpslögum innan tveggja ára. Ég tel að það verði í þeirri endurskoðun að taka tillit til margra þeirra þátta sem í ljós hafa komið og í ljós munu koma á þeim árum sem þessi lög verða í gildi. Það er augljóst mál að þrátt fyrir ágæta byrjun annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva er Ríkisútvarpið enn þá og hlýtur að verða meginútvarp landsmanna, raunverulegt þjóðarútvarp með fjölbreyttri dagskrá á tveimur rásum, fjölbreyttri sjónvarpsdagskrá sem nær um allt land og möguleika til langtum meira og fjölbreyttara starfs til skemmtunar og menningar og afþreyingar en nokkur önnur útvarpsstöð í landinu.

Ég vildi aðeins skýra þetta atriði og um leið taka fram að ég stend við öll þau stóru orð sem hv. 5. landsk. tók af mér ómakið að rifja upp í þessum ræðustól.