29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2453)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Sá málaflokkur sem hér er til umræðu á þessum þingfundi er með mikilvægustu þáttum utanríkis- og öryggismála, þ.e. afvopnunarmál. Það er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að slík mál komi ítarlega til umræðu hér á Alþingi og það munu þau gera m.a. samfara skýrslu utanrrh. sem senn verður lögð hér fyrir Alþingi. Þess vegna má segja að okkur beri ekki einungis skylda til að fylgjast vel með þróun afvopnunarmála á alþjóðavettvangi, heldur eiga þar ríkari þátt sjálfir en við höfum átt til þessa.

Hins vegar hljóta menn að velta því fyrir sér þegar þessi mál eru hér til umræðu á Alþingi í dag, sem endranær, hvort skynsamlega sé á þeim tekið. Oft og mörgum sinnum hafa menn bryddað hér í þingsölum upp á umræðum um afvopnunarmál undir heitinu „Kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum“. Það má reyndar nokkrum undrum sæta hve oft menn hafa kveðið þá vísu vegna þess að þar er ekki um mikilvægasta þáttinn í afvopnunarmálum að ræða. Það er einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar, sem mönnum virðist furðu oft sjást yfir í slíkum umræðum, að Norðurlöndin eru kjarnorkuvopnalaust svæði. Hvaða tilgangi þjónar það þá að þjóðþingin gefi stanslausar yfirlýsingar um þá staðreynd sem öllum er kunn?

Þar að auki hafa Norðurlönd, tvö hlutlaus og þrjú í varnarbandalagi, Atlantshafsbandalaginu, gefið yfirlýsingar um að þau vilji ekki hafa kjarnorkuvopn á sínu landsvæði. Þær yfirlýsingar liggja fyrir og vegna þessa tvenns er ósköp eðlilegt að spurt sé: Hvaða tilgangi þjóna þá þær umræður sem fara nú fram í dag og hafa áður farið fram hér og á norrænum fundum um yfirlýsingar í þessu efni, þegar við lítum til þessara staðreynda?

Ég vil leyfa mér að greina frá þeirri skoðun minni að einhliða yfirlýsing okkar Íslendinga og annarra Norðurlandaþjóða um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum mundi vera ógn við öryggishagsmuni okkar Íslendinga vegna þess að öryggishagsmunir okkar sem annarra Norðurlandaþjóða verða vitanlega best tryggðir með afvopnun sem er gagnkvæm, sem er víðtæk og fram fer undir öruggu eftirliti. Þetta eru óhjákvæmilegir þættir í afvopnunarmálum þessa heimssvæðis. Raunar þarf ekki langt að leita til þeirrar stefnu sem Alþingi hefur markað en virðist gleymast, m.a. í umræðum sem þessari, og þó að sífellt sé verið að reyna að draga fjöður yfir hana. Það er í tillögu sem var samhljóða samþykkt, í þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem Alþingi samþykkti 23. maí 1985. Þar er byggt á raunhæfum grundvelli. Þar er ekki talað um einhliða yfirlýsingar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að lesa þennan kafla enn einu sinni vegna þess að það virðist vera mikil tilhneiging til þess að ganga á svig við hann. Í till. segir:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu.“

Herra forseti. Hér þarf ekki frekar vitnanna við. Og við þurfum í sjálfu sér ekki að vera að eyða tíma í það að fjalla um eða deila um hver er stefna sú í afvopnunarmálum þessa heimshluta sem Alþingi hefur þegar orðið sammála um fyrir einu og hálfu ári síðan eða senn tveimur. Þetta er sú stefna sem Alþingi hefur markað og mótað. Það er sú stefna að afvopnun taki til alls þessa svæðis í Norður-Evrópu sem hér hefur borið á góma, sem er miklu stærra svæði en Norðurlöndin ein saman sem eru í dag kjarnorkuvopnalaus og hafa lýst því yfir að þau vilja vera það. Þess vegna eru það vitanlega meginmarkmiðin í þeim könnunum sem hér hafa verið til umræðu, í þeim viðræðum sem þm. eiga sín á milli á Norðurlöndum, að framfylgja þeirri stefnu sem hér er mörkuð í þessari till.

Það er eina raunhæfa stefnan í afvopnunarmálum þessa heimshluta og það er eina stefnan sem samræmist öryggishagsmunum okkar Íslendinga. Þá fyrst þegar það er tryggt að kjarnorkuvopn eru fjarlægð af þeim landsvæðum sem liggja skammt utan Norðurlanda og umferð kafbáta búnum kjarnorkuvopnum hverfur úr Eystrasalti og Norðaustur-Atlantshafi - þá fyrst, þegar hægt er að ná samningum um slíka afvopnun, eru öryggishagsmunir okkar og annarra Norðurlanda tryggðir.