05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa óánægju minni með þá afstöðu sem hæstv. utanrrh. tók hér í ræðustól. Mér fannst ræða hans vera óþarflega herská. Mér hefur alltaf fundist að hæstv. utanrrh. hugsaði fremur eins og dúfa, en nú talar hann eins og haukur. Það eru slæm skipti. Ég held að það sé fráleitt að fara að taka ábyrgð á þessu misráðna, ég vil segja fordæmanlega tiltæki Bandaríkjamanna. Ég hef ekki traust á þessum fælingarmætti. Ég held að fælingarbrjálæðið geti gengið af okkur dauðum einn góðan veðurdag. Ég er ekki bjartsýnn á að meðan þeir menn fara með völd í Hvíta húsinu sem þar ríkja nú komum við til með að upplifa friðvænlegan heim.