12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er hugnanlegur skollaleikur sem þingheimur eyðir nú tíma sínum í, leikur sem ég vil kalla flokkspólitíska stríðni. Ég er reyndar ákaflega sammála hv. flm. till. sem hér um ræðir, að tilverurétt Þjóðhagsstofnunar eigi að endurskoða og reyndar margra annarra stofnana á vegum ríkisins, en hvað sem hv. flm. segja um göfugan tilgang sinn og sparnaðarhugsjónir efast ég um þá göfgi með tilvísan til fortíðarinnar. Karlmannleg viðbrögð Alþfl. sýna það, sem maður hefur alltaf vitað, að gömlu flokkarnir eru rammflæktir í alls konar sérhagsmuni sem blinda þeim sýn þegar til kastanna kemur. En ég vona að þessi till. fái sanngjarna umfjöllun í nefnd og væri óskandi að menn vildu taka rækilega til höndum við hagræðingu og bætt vinnubrögð í ríkisrekstrinum.