28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

51. mál, vistunarvandi öryrkja

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. hv. 2. þm. Austurl. um vistunarvanda öryrkja hljóðar svo:

„Hvenær má vænta tillagna frá stjórnskipaðri nefnd um vistunarvanda verst settra öryrkja sem komið var á laggirnar s.l. vetur? Hefur ráðherra eða nefndin einhverjar ákveðnar úrlausnir sem stefnt skal að?"

Nefnd sú sem fsp. vitnar til var skipuð á s.l. vetri og nefndarmenn eru þeir Ásgeir Ellertsson yfirlæknir, Björn Önundarson tryggingayfirlæknir, Haukur Þórðarson yfirlæknir á Reykjalundi, Ingibjörg R. Magnúsdóttir deildarstjóri og Ingimar Sigurðsson yfirlögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. Er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndin hefur ekki enn lokið störfum, en mér er kunnugt um að hún hefur aflað sér þeirra gagna sem hún þarf til að skila tillögum í þessu máli og er komin á lokastig í störfum sínum. Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar mun hún skila lokatillögum sínum í næsta mánuði. Mér er einnig kunnugt um að hún tekur sérstaklega til úrlausnar vanda þess afmarkaða hóps sem hæstv. fyrirspyrjandi vísaði hér til.

Þegar svo stendur um störf nefndarinnar eins og ég hef lýst er skiljanlegt að ekki er unnt að ræða eða gera grein fyrir þeim úrlausnum sem þar eru til athugunar og vinnslu á þessu stigi, en það verður að sjálfsögðu gert þegar tillögur nefndarinnar liggja fyrir. Þar verður bent á hvaða lausnir séu tiltækar í þessu máli. Það er mín hugmynd að tillögurnar verði komnar svo snemma frá nefndinni að unnt sé, ef Alþingi fellst á það, að gera ráðstafanir á næsta ári með fjárveitingum eða öðru móti til að leysa þann vanda sem þarna er brýnastur.