28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

68. mál, skólamálaráð Reykjavíkur

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sú grein grunnskólalaganna nr. 63 frá 1974 sem hér er vísað til fjallar einvörðungu um starfsemi fræðsluráðs, þ.e. í 1. lið fsp. Samkvæmt samþykkt borgarráðs Reykjavíkur um skólamálaráð eru því falin þrjú meginhlutverk, þar af aðeins eitt sem snertir grunnskóla og sem ekki verður talið að fræðsluráð eigi lögum samkvæmt að hafa með höndum.

Varðandi verkaskiptingu fræðsluráðs og skólamálaráðs verður að hafa í huga samkomulag sem gert var í maí 1984 milli menntmrn. og borgarstjórans í Reykjavík með stoð í 15. gr. grunnskólalaga, en þar segir m.a. að fræðsluráði sé heimilt að semja svo við landshlutasamtök, þ.e. sveitarfélög, að skrifstofa þeirra eða einstakra starfsdeilda innan þeirra annist störf fyrir fræðsluskrifstofu, enda komi samþykki menntmrn. til. Áðurnefnt samkomulag ríkis og Reykjavíkur var gert eftir að borgin hafði ákveðið að stofna skólaskrifstofu. Var skrifstofunni með samkomulaginu falið að annast þau verkefni er teljast verkefni sveitarfélaga varðandi stofn- og rekstrarmálefni grunnskóla samkvæmt lögum, reglugerðum eða eðli máls.

Samkvæmt samþykkt fyrir skólamálaráð er því ætlað að fjalla um þau verkefni er skólaskrifstofu eru falin með áðurgreindu samkomulagi. Jafnframt er skólamálaráði ætlað að fjalla um rekstrarmálefni framhaldsskóla sem reknir eru sameiginlega af borg og ríki og einnig um fullorðinsfræðslu á vegum borgarsjóðs. Það hlutverk er lýtur að stofn- og rekstrarmálefnum grunnskóla sem skólamálaráði er ætlað samkvæmt samþykkt borgarráðs er í raun aðeins nánari útfærsla á áðurnefndu samkomulagi frá 1984. Verður ekki séð af samþykkt fyrir skólamálaráð að því sé ætlað að yfirtaka að neinu leyti lögbundið hlutverk fræðsluráðs skv. 12. gr. grunnskólalaga, enda slíkt óheimilt nema með lagabreytingu.

Að framansögðu breytist lagaleg staða fræðslustjórans í Reykjavík ekki við tilkomu skólamálaráðs. Þar sem skólamálaráð fjallar um þann hluta stjórnar skólamála í höfuðborginni sem að borgaryfirvöldum snýr er það þeirra að ákveða hverjir hafa þar seturétt því að einsýnt er að borgaryfirvöld hefðu ekki sett á stofn skólamálaráð án þess að nauðsyn bæri til.