19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3262 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

18. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er örstutt. Ég fagna því að hv. 5. þm. Vestf. hefur hresst. Hér stóð yfir lengstan hluta fundar þingdeildar í gær umræða um þetta mál og hv. þm. sást ekki. En nú hefur Eyjólfur hresst og það fer vel.

En það má segja um þetta mál að fyrr má nú rota en dauðrota að því er vinnubrögð áhrærir. Hér er dengt inn núna, leitað eftir afbrigðum, brtt. í nokkuð mörgum liðum sem þingdeildarmenn hafa ekki séð. Ég veit heldur ekki hvort menn úr kosningalaganefnd hafa séð þetta. Mikið af þeim hefur verið fjarverandi úr þingdeildinni í dag. Kannske hafa þeir setið í að semja þetta. Það veit ég ekki. En þessi vinnubrögð eru hrein móðgun við þingdeildina, að haga málum á þennan veg ekki bara í þessu máli heldur og öllum öðrum málum sem koma fyrir þingið.

Ég lýsti í gær að ég hefði greitt atkvæði gegn kosningalagabreytingunni á sínum tíma, mundi ekki greiða atkvæði að því er varðaði breytingarnar sem lágu fyrir í gær, mundi sitja hjá við þær ákvarðanir. Enn frekar hefur hugsun mín styrkst til þess að taka ekki þátt í þeirri afgreiðslu sem hér á að fara fram á eftir, ef það er meiningin, og ég mun ekki greiða atkvæði í afgreiðslu þessa máls hér í lokin.