17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4365 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Fyrir 25 árum dvaldi finnsk kona árlangt hér á Íslandi við kennslu norður í landi. Hún gerði sér far um að kynnast landinu sem mest og best og ferðaðist töluvert um í því skyni. Ég man enn þá hvað ég varð undrandi þegar hún fór að dást að íslenska vegakerfinu sem ég hafði þá ekki heyrt margt gott um og allra síst úr munni útlendinga, enda voru vegirnir þá nánast á kerrustiginu. Þessari ágætu konu fannst hins vegar slíkt afrek að svo fámenn þjóð gæti yfirleitt tengt byggðir sínar með akfærum vegum að fráleitt væri að býsnast yfir holum og ryki. Sem betur fer hefur slík nægjusemi ekki fengið rúm í hjörtum landsmanna og af stórhug og dugnaði hefur vegakerfi landsins tekið miklum breytingum til batnaðar á síðustu árum. En það er vissulega mikið enn óunnið, ekki síst í verkefnum sem kosta mikið fé en eru engu að síður nauðsynleg til að jafna aðstöðu fólks til búsetu í landinu.

Eins og hv. þm. vita er vegafé skipt samkvæmt ákveðnum reglum milli kjördæma og þingmannahóparnir skipta því síðan á framkvæmdir innan hvers kjördæmis. Auðvitað eru ekki allir jafnánægðir með hlut síns kjördæmis og vissulega höfum við Reykjanesþingmenn t.d. mikil og stór vandamál við að glíma vegna mikillar umferðar og fjölmennis í kjördæminu og hér á höfuðborgarsvæðinu og gengur að okkar mati hægt að leysa þau. Það eru feikilega stór og dýr verkefni fram undan í höfuðborginni og í kringum hana og liggur á að leysa þau og væri sannarlega þörf á hærri hlut til þessa kjördæmis.

Fyrir mitt leyti lýsti ég samt sem áður því yfir í fjvn. og get endurtekið það hér í ræðustól að mér fyndist sanngjörn sú skipting sem við komum okkur saman um á milli kjördæma. Að baki þeirri yfirlýsingu og afstöðu liggja hrein og klár byggðasjónarmið.

Sömuleiðis get ég ekki tekið að sama marki og flestir þm. undir gagnrýni á minnkandi fjárframlög til vegamála. Undanfarin ár hefur verið dregið saman í framlögum til ýmissa málaflokka og skorið niður til verklegra framkvæmda og er ég ekki að verja það. Það er hárrétt að það hefur einnig verið gert í þessum málaflokki. Það hefur verið skorið töluvert niður í vegamálum, eins og hér hefur verið bent á, miðað við það fjármagn sem áætlað var að verja til þessa málaflokks. Hins vegar hefur samdráttur ekki verið að sama skapi í framkvæmdum og það skiptir auðvitað öllu máli. Það hefur að langmestu leyti tekist að halda langtímaáætlun í vegagerð með aukinni hagkvæmni og hagræðingu og það hefur tekist þrátt fyrir minna fjármagn en hafði verið áætlað. Með þessum orðum mínum er ég ekki að draga úr nauðsyn þess að bæta og styrkja vegakerfi landsins. Ég er aðeins að benda á þessar staðreyndir.

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. fjvn. með fyrirvara. Sá fyrirvari er fólginn í því að þótt skynsamlegt sé að gera áætlun til lengri tíma í vegagerð og mætti sannarlega gera í mörgum fleiri málaflokkum hefði ég talið eðlilegt að afgreiða einungis með formlegum hætti áætlun þessa árs, en geyma umfjöllun um síðari ár tímabilsins þar til nýtt þing hefur komið saman með nýjum mönnum og ný ríkisstjórn tekið við. Eins og frá þessum málum er gengið í vegáætlun er ráðstafað á verkefni því fé sem fæst til vegamála með mörkuðum tekjustofnum, en gert ráð fyrir að beint framlag komi til viðbótar úr ríkissjóði til að ná þeirri hlutfallstölu sem langtímaáætlun gerir ráð fyrir. Má vel vera að við það verði staðið og næstu þing úthluti samkvæmt því, en ég hefði talið eðlilegt að gera þetta á þann veg sem ég sagði áðan, afgreiða einungis áætlun fyrir þetta ár, en geyma frekari umfjöllun til næsta þings.