20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

151. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Vegna þeirrar till. sem hér er til umræðu og hv. 5. þm. Austurl. hefur talað fyrir leyfi ég mér að vísa til þess svars sem ég veitti á fundi í Sþ. fyrir tveimur dögum við fsp. hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur varðandi atkvæðagreiðslu í 1. nefnd allsherjarþingsins á hinni svokölluðu sænsk-mexíkönsku tillögu. Eins og þar kom fram hafa engar þær forsendur breyst sem að mínum dómi gefa tilefni til að breyta afstöðunni til hennar.

Í svari mínu vék ég að því hversu afvopnunarmálin hafa tekið nýja stefnu á undanförnum vikum. Um frystingu ræða menn nánast ekki í dag heldur fækkun kjarnorkuvopna og fram koma tillögur um útrýmingu þeirra á ákveðnu árabili. Það væri því að mínum dómi þvert á þá stefnu sem afvopnunarmálin hafa tekið að undanförnu og ekki í samræmi við viðræður stórveldanna nú um afvopnun, sem eru grundvallaðar á umræðum eftir Reykjavíkurfundinn, að Alþingi samþykkti till. þá sem hér er til umræðu auk þess, sem áður hefur komið fram, að sænsk-mexíkanska tillagan er í veigamiklum atriðum í samræmi við þau atriði sem er að finna í samþykkt Alþingis um afvopnunarmál frá 23. maí 1985.