17.02.1988
Efri deild: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4675 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

281. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um það frv. sem við þm. Borgarafl. í Ed. höfum lagt fram. Þar hefur margt komið fram um bæði gæði frv. og það sem þeir aðilar sem tekið hafa til máls vilja að verði öðruvísi. En það sem stendur eftir er að þeir sem talað hafa hér eru sammála um að núverandi kerfi er hrunið varðandi skyldusparnað ungs fólks. Ég held að það sé meginmálið. Þessi tillaga, sem við leggjum hér til, er annars vegar um að það verði byggðar íbúðir á vegum Húsnæðisstofnunar eða aðila sem hún fær til þess verks og hins vegar eru ávöxtunarkröfurnar um hvað ungt fólk fær fyrir það fjármagn sem það leggur inn. Þetta eru okkar hugmyndir að svo komnu, en auðvitað getum við fallist á að það megi breyta þessu að einhverju leyti ef slíkar hugmyndir eru uppi á pallborðinu hjá þm. En því miður hafa þær ekki komið glöggt fram í þessari umræðu.

Þetta frv. er einn liður í þeirri heildarendurskoðun sem við þm. Borgarafl. höfum lagt fyrir þingið núna og á að skoðast meira í því ljósi en taka það einstakt út úr. Eins og 1. flm. frv. sagði hafa komið fyrir augu þm. annars vegar tillögur varðandi húsbanka og hins vegar brtt. við frv. sem hæstv. félmrh. lagði fram í október. Þar var þetta tekið fram sem nú hefur verið lagt fram sér og er lítið eitt breytt.

Það sem liggur alveg ljóst fyrir er hinn mikli fjárskortur í húsnæðislánakerfinu. Frv. er einn liður í því að efla húsnæðislánakerfið og þá húsnæðislánastofnun, um það að ákveðnir peningar renni til Húsnæðisstofnunar sem síðan mundi annaðhvort vera ráðstafað í formi láns eða þá með byggingu nýrra íbúða. Eins og fram hefur komið er það einn megintilgangur og hefur verið einn megintilgangur Húsnæðisstofnunar að hjálpa ungu fólki að eignast þak yfir höfuðið.

Það hefur leika sýnt sig að það kerfi sem er nú við lýði er götótt á marga vegu og er, eftir því sem kunnugir menn segja og flestum ætti að vera ljóst, hrunið. Þess vegna þarf að finna nýjar leiðir til að byggja upp kerfi sem getur haldið a.m.k. næstu 10–20 árin.

Það kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. að það sé ekki gert ráð fyrir því í frv. hvaða sérstöku vextir eigi að vera á því sparifé sem þarna er lagt inn og er vísað til þess að það eru mismunandi vaxtakjör í þjóðfélaginu. Mér mundi finnast eðlilegt, a.m.k. eins og nú er komið, að á þessu væru ekki lægri vextir en ríkisvaldið er að bjóða á hinum almenna sparisjóðsmarkaði, en það eru í kringum 8% í dag, og þeir peningar sem þar eru fengnir eru einmitt til þess að standa straum af þessu dýra húsnæðislánakerfi sem nú er.

Sami þm. minntist á það ákvæði í frv. er fjallar um þá nýju leið sem við leggjum til, þ.e. að það verði fjárfest annaðhvort í leiguíbúðum eða þá eignaríbúðum hjá Húsnæðisstofnun. Þá er spurt hvenær samningurinn á að vera gerður. Það kemur nokkuð skýrt fram að það er í upphafi sparnaðartímabilsins.

Í öðru lagi spyr hann hvernig fari með það ef einhverjar aðstæður breytast að liðnu tímabili. Ég veit ekki hvort það kom fram, en þá gerum við ráð fyrir að þetta breytist á þann veg að síðari kosturinn gildi, að það fé sem lagt hefur verið inn fáist út með verðbótum og þeim vöxtum sem í gildi eru.

Ég get tekið undir þau sjónarmið, er varða landsbyggðina, að það geti verið erfitt að eiga við svona kerfi er tekur tillit til landsbyggðarinnar, en samt vil ég ekki taka undir að það eitt út af fyrir sig útiloki þann möguleika sem við leggjum þarna til. Það er miklu viðameira og flóknara atriði en að hægt sé að leysa það á þennan hátt.

Ég eftirlæt 1. flm. að gera betur grein fyrir einstökum atriðum, kannski þeim atriðum sem ég hef í ræðu minni sleppt, en ítreka og undirstrika að það sem við leggjum hér til eru lausnir til að svara því sem við teljum mjög aðkallandi að ráða bót á, að fólk á aldrinum 16–26 ára fái þá vexti sem réttir eru og það þurfi ekki að líða fyrir að leggja inn til Húsnæðisstofnunar fé.