24.02.1988
Neðri deild: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4825 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

293. mál, áfengislög

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka til máls um þingsköp að lokinni ræðu síðasta ræðumanns vegna þess að þar er mjög verulega hallað réttu máli um hina þinglegu meðferð þessa máls. Auðvitað gerir hv. 4. þm. Austurl. Sverrir Hermannsson sér grein fyrir því að þetta frv., sem hér er á ferðinni, er efnislega hið sama og við fluttum nokkrir þm. í haust. 1. gr. frv. er nákvæmlega sú sama og það er hún sem skiptir meginmáli. Það var auðvitað með góðu samkomulagi við okkur flm. sem sú leið var farin að leggja hér fram nýtt frv. en ekki vegna þess að þeir sem að þessu nýja frv. standa hafi haft þá túlkun eða mistúlkun á grg. frv. í huga sem hv. 4. þm. Austurl. fór með í annað sinn á þessu þingi nú fyrir stundu. Hann nefnilega flutti þessa ræðu hér í haust. Og það voru meira að segja sömu karakterarnir í þessari ræðu. Það var Íslandsmaðurinn, það var Carlsberg gamli og það vantaði bara þennan „með geifluna niður í fang af fylleríi“. En það kemur kannski við 2. umr. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. ræðumanns á því að hér eru aðeins þingsköp til umræðu en ekki efni málsins.) Já, ég vildi láta koma fram hér, herra forseti, að þessi breyting á frv. er í fullu samkomulagi við okkur flm. Hún snertir ekki efni þessa máls og gefur ekkert tilefni til ræðuhalda af því tagi sem hv. 4. þm. Austurl. leyfði sér hér að fara með og taldi einsdæmi í 958 ára sögu Alþingis.

Það sem ég vildi kannski fá að bæta við, herra forseti, er það að það er greinilegt að ýmsir hér í Alþingi, í þessari hv. deild, ætla að nota tækifærið fyrst þetta mál kemur hér aftur til 1. umr. og flytja sömu ræðurnar og þeir fluttu hér í haust og reyndar að því er mér sýnist eftir að hafa gluggað í Alþingistíðindi sömu ræðurnar sem þeir fluttu hér á Alþingi 1985 og jafnvel fyrr. Mér finnst það athugunarefni upp á seinni tíma meðferð mála í þingsölum hvort það sé svo mjög til fyrirmyndar. Og ég vildi skora á hv. þingdeildarmenn að sjá til þess að þetta mál komi til atkvæða. Ef það kemur hér til atkvæða og ef það fellur, þá er þetta mál úr sögunni í bili. En annars eru menn að kalla yfir sig að þetta mál verði tekið upp á hverju þinginu á fætur öðru, ef menn beita hér málþófi og alls kyns bolabrögðum til þess að þetta mál geti ekki komið til atkvæða með eðlilegum hætti.