04.03.1988
Neðri deild: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5531 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Unnur Sólrún Bragadóttir:

Herra forseti. Ég fæ satt að segja ekki skilið það sem hæstv. ríkisstjórn kallar efnahagsaðgerðir. Aðgerðir fyrir hverja? Mér er spurn. Ég fæ ekki séð á nokkurn hátt hvernig þær auka hagsæld almennings í landinu. Þvert á móti sýnist mér að þær muni þýða verulegan samdrátt hjá launafólki, enda leysir þessi hæstv. ríkisstjórn ekki vanda launafólks heldur, eins og venjulega, er vandinn leystur á kostnað þess.

Í stórum dráttum þýða þessar aðgerðir minnkandi kaupmátt og samdrátt á félagslega sviðinu sem við vitum á hverjum bitnar verst. Það er ráðist harkalega á sveitarfélögin einu sinni enn eins og síðasti ræðumaður, hv. 7. þm. Norðurl. e., benti á og þakka ég hennar orð.

Þær aðgerðir sem hæstv. fjmrh. ætlar að standa fyrir ganga svo sannarlega þvert á stefnu flokks hans í kosningum. Sem landsbyggðarmanneskju varð mér satt að segja hálfflökurt þegar hæstv. fjmrh. gerði aðgerðir gegn sveitarfélögum að hálfgerðu gamanmáli og spurði hvort menn hefðu ekki verið á móti breytingunum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en nú skiptu þær allt í einu sköpum. (AG: Ég óska eftir því að einhver úr stjórnarliðinu sé viðstaddur þegar merk ræða er flutt. Þetta er dónaskapur við stjórnarandstöðuna.) (SvH: Á hann við ráðherra, þingmaðurinn?) (AG: Ráðherra jafnt sem þingmenn. Náttúrlega aðallega ráðherrana. ) (Forseti: Að sjálfsögðu hafa menn þingskyldur, en ef ræðumaður hefur ekki óskað sérstaklega eftir mönnum í salinn eru ekki gerðar ráðstafanir.) (AG: Það eru sömu þingskyldur fyrir alla.) (Forseti: Það eru sömu þingskyldur fyrir alla. Mér er það fullkomlega ljóst og það eiga allir þm. að vita, bæði þm. stjórnar og stjórnarandstöðu. Meira hef ég ekki um það að segja eins og er.) Ég held þá áfram, herra forseti, þar sem frá var horfið.

Í fjárlögum var sveitarfélögum gert að yfirtaka meiri verkefni en ríkissjóður létti af þeim á móti og það var þar sem stjórnarandstaðan mótmælti. Nú er hæstv. fjmrh. hættur við að taka á sig verkefni, en sveitarfélögin eiga að sitja uppi með verkefni ríkisins. Er þetta virkilega maðurinn sem endasentist milli landshorna fyrir kosningar boðandi bættan hag landsbyggðarinnar? Er valdið, með fullri virðingu herra forseti, þessum manni allt en æran ekkert? Ég vil í þessu sambandi minnast á bókaða afstöðu hæstv. félmrh. og finnst að þar ætti hæstv. fjmrh. að taka hana sér til fyrirmyndar.

Alþingi mætti gæta sín á að vega ekki alltaf í þann knérunn. Þrátt fyrir metaflaár hjá útgerðinni er víða á landsbyggðinni nánast ekkert framkvæmt nema á vegum viðkomandi sveitarfélags því auknar gjaldeyristekjur skila sér ekki þar sem þeirra var aflað heldur í verslunar- og skemmtihöllum á suðvesturhorninu. Í stað þess að ráðast á Jöfnunarsjóð og biðja borgina að framkvæma minna ætti að taka úthlutunarreglur sjóðsins til gagngerrar endurskoðunar. Jöfnuðurinn næst ekki með því að öll sveitarfélög fái úr sjóðnum jafnmargar krónur á íbúa heldur með því að veita litlu eða engu til þeirra sem mikið hafa en styðja hraustlega við þau sveitarfélög sem standa ekki undir félagslegum kröfum í nútímasamfélagi. Hafi Reykjavíkurborg efni á að byggja stásshús út í Tjörnina og veitingahús á vatnsgeymum er fjármunum Jöfnunarsjóðs betur varið til að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem engu hafa úr að spila.

Ef sveitarfélög úti á landi yrðu tilneydd til að draga úr sínum litlu framkvæmdum yrðu iðnaðarmenn víða atvinnulausir því að framkvæmdir sveitarfélaganna eru víða einu framkvæmdirnar í gangi. Flóttinn til höfuðborgarinnar yrði enn víðtækari og þetta hefði svo í för með sér enn erfiðari aðstöðu fyrir hinn almenna launamann sem ekki gæti fengið nauðsynlega þjónustu ef þörf krefði.

Þá eru það aðgerðir sem eiga að koma sjávarútveginum til góða. Í fyrsta lagi gengisfelling sem ætlast er til að allir fái bætta nema launafólk. Það er sem sagt launafólk sem á að standa undir helstu bragarbótinni eins og alltaf. En bjargar 6% gengisfelling einhverju fyrir sjávarútveginn? Munu ekki þau frystihús, sem nú þegar hafa lokað eða eru að því komin, gera það þrátt fyrir aðgerðirnar? Ég er hrædd um það.

Fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar er fyrir löngu gengin sér til húðar og er að verða búin að gera út af við mörg útflutningsfyrirtæki ásamt vaxtastefnunni. Samkvæmt þessari fastgengisstefnu er gengið og launin fryst. Útflytjendur fá alltaf sama verð fyrir afurðir sínar, en verð á vörum og þjónustu fer síhækkandi innan lands. Lág laun í útflutningsiðnaðinum eiga svo að bæta honum upp minnkandi kaupmátt þess gjaldeyris sem hann aflar. Það sem hefur aftur á móti gerst er að kaupgeta þeirra sem lifa af innlendri álagningu vex hraðar, en kaupgeta launafólks og útflytjenda minnkar.

Eyðsla á erlendum gjaldeyri hefur aldrei farið meira fram úr því sem aflað er en einmitt nú. Þetta er einkar athyglisvert í ljósi þess að gjaldeyrisöflun okkar jókst meira en nokkurn hafði órað fyrir. Þessar auknu tekjur skiluðu sér því miður hvorki til launafólks né sjávarútvegsins heldur runnu þær beint í hendur innflytjenda og alls kyns braskara á höfuðborgarsvæðinu, til þeirra sem seldu almenningi í landinu dýrustu vörur og þjónustu með hæstu álagningu sem þekkist í heimi. Það er mun arðbærara að flytja inn klósettpappír en að framleiða verðmætar útflutningsafurðir. En það hlýtur þó að koma að því að hæstv. stjórnendur þessa lands verði, með fyllstu virðingu herra forseti, að éta ofan í sig allan þennan klósettpappír og hyggja frekar að hollari næringu fyrir velferðarmaga þjóðarbúsins. Það væri gaman að vita hverjar tekjur sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar hefðu orðið í íslenskum krónum frá 1983 á núgildandi verðlagi ef gengið hefði verið fljótandi með verðlaginu í stað þess að halda því föstu óháð innlendri verðbólgu. Mig grunar að þar sé um stórar tölur að ræða.

Hvað þá með skuldbreytingarnar? Þær eru svo sem viðurkennd bráðabirgðaaðgerð, en breyta í sjálfu sér ósköp litlu. Greiðslubyrðin minnkar í bili, en gerir sjávarútveginn enn háðari skuldareigendum sínum en áður. Það fer að verða vafamál hverjir stjórna fiskiðnaðinum í landinu, hvort það eru svokallaðir eigendur eða bankar og aðrar lánastofnanir.

Aðgerðirnar varðandi hækkun gjalds á erlendar lántökur þýða e.t.v. ekki svo miklar breytingar fyrir sjávarútveginn, en þó finnst mér að það ætti hreinlega að banna erlendar lántökur nema fyrir framleiðslufyrirtækin í landinu. Það á ekki að veita leyfi til erlendrar lántöku fyrir fyrirtæki sem nota það fjármagn eingöngu til að auka neysluna, t.d. til að geta selt alls konar neysluvarning með afborgunum. Erlend lán ætti eingöngu að veita til að auka framleiðslu í iðnaði sem gæti borgað mannsæmandi laun.

Varðandi olíuverðslækkunina finnst mér satt að segja tími til kominn. Hvernig í ósköpunum stendur á því að hér hefur viðgengist allt að 80% hærra olíuverð en í nágrannalöndum okkar? Einhverjir græða á því aðrir en sjávarútvegurinn.

Lækkun nafnvaxta þýðir ekkert, breytir engu heldur er bara eðlileg afleiðing ört minnkandi verðbólgu. Auðvitað átti að lækka raunvexti því að það eru þeir sem ákvarða vaxtaokrið. Það er hin raunverulega þóknun fyrir afnotin af peningunum.

Aukning sparifjár landsmanna þýðir að stór hluti þjóðarinnar skuldar örlitlum minni hluta stöðugt meira því að hver spöruð króna er lánuð út. Að fagna aukningu þess í bankakerfinu og okurlánabúlum er að fagna aukinni skuldsetningu almennings. Háir raunvextir koma fáum til gagns en knésetja stóran hluta launafólks.

Nei, herra forseti. Ég er eiginlega orðlaus yfir að þetta skuli kallast efnahagsaðgerðir. Ég hefði getað viðurkennt þá nafnbót ef um hefði verið að ræða t.d. skattlagningu vaxtatekna, skattlagningu á stóreignir þannig að ríkið hefði tekið á móti kostnaði en þyrfti ekki að hleypa vöxtum upp í landinu með gegndarlausum lántökum, jöfnun raforkukostnaðar í landinu, að gengið yrði látið fylgja verðbólgu innan lands, að laun væru verðtryggð og að nægilegu fjármagni yrði haldið innan landsfjórðunga þannig að landsbyggðin gæti hafið sókn til bættra lífskjara.

En þar sem ekkert af þessu er að finna í svokölluðum efnahagsráðstöfunum get ég ekki fallist á þessa nafnbót. Mér finnst þetta plagg í sjálfu sér hvorki fugl né fiskur. Það leysir varla nokkurt þeirra vandamála sem hæstv. ríkisstjórn hafði hugsað sér og er líklega ekki einu sinni, með leyfi herra forseta, redding fyrir horn eins og það heitir á lélegu máli. Því verður þó ekki neitað að aðstaða margra versnar komi þetta til framkvæmda. Og hvet ég hæstv. ríkisstjórn að sýna ábyrgð gagnvart fólkinu í landinu, ábyrgð sem hún er stöðugt að hrópa á, og stinga þessu plaggi undir stól. Slíkt væri virðingarvert. Þau vandamál sem við er að etja krefjast að ég held róttækari og öðruvísi aðgerða en þessara.