10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5678 í B-deild Alþingistíðinda. (3813)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þegar lögin um Ríkisútvarpið, þau sem nú eru í gildi, voru samþykkt hér á Alþingi átti ég sæti í menntmn. þingsins. Í þeirri nefnd var tekist á um ýmsa hluti. Eitt af því sem tekist var á um var umfang Ríkisútvarpsins. Þær raddir hafa heyrst hér á Alþingi í vetur að rétt væri að draga úr þeim umsvifum. Ég tel það byggt á mikilli skammsýni og nánast fráleitt að gera því skóna að menntmrh. sá er nú situr hafi þingfylgi til þess að breyta þeim lögum á þann veg að það skaði Ríkisútvarpið. Ég á ekki von á því að hæstv. menntmrh. hafi þingfylgi til slíkra hluta.

Ég verð að segja það að sú þróun sem orðið hefur í þessum efnum er á margan hátt eins og fyrir var séð. Mjög hefur fjölgað frjálsum útvarpsstöðvum í hljóðvarpi og ekkert nema gott um það að segja. (HG: Hverjar eru ófrjálsar?) Ef við snúum dæminu við: Er eitthvað rangt í þeirri fullyrðingu að hinar séu frjálsar? Ég sé að það kemur hik á hv. þm. og hann gerir sér grein fyrir því að fullyrðingin stenst og þess vegna ástæðulaust að taka upp útskýringar á fullyrðingum sem hann leitar eftir og ég læt hann einan um. Það blasir þess vegna við að sú þróun hefur gengið fyrir sig. Mér er ljóst að sumir líta svo stórt á sig í þeim stöðvum að þeir telja alveg sjálfgefið að þeir eigi að taka við þessu og það eigi að leggja niður Ríkisútvarpið. Það verður að vera þeirra eigið álit. Til þess hafa þeir ekki stuðning íslensku þjóðarinnar.

Hins vegar blasir það við að sú þróun sem var fyrir séð gagnvart sjónvarpinu er ekki að öllu leyti komin fram. Það er tvennt sem þar á eftir að gerast til viðbótar við það sem hefur gerst. Annars vegar er það að það á eftir að færast mjög í vöxt að almenningur í þessu landi stefni að því að vera sjálfs sín dagskrárgerðarmenn, þ.e. menn eigi einfaldlega myndbandstæki og taki myndbönd á leigu hjá bókasöfnum á Íslandi. Því það verður hinn eðlilegi farvegur að öll almenningsbókasöfn á Íslandi leigi út myndbönd á eðlilegu verði og menn verði sínir eigin dagskrárstjórar. Þetta er eitt af því sem á eftir að gerast. En hitt sem blasir við að mun gerast á þeim vettvangi er að erlendar sjónvarpsstöðvar í gegnum gervihnetti munu flæða yfir landið. Og það getur enginn stöðvað það að svo verði. Þetta er einfaldlega tækni sem er að ryðja sér til rúms og það þýðir ekki að byggja neinn kínverskan múr utan um sig. Við verðum einfaldlega að hafa vit á því sem þjóð að standa saman að því að verja okkar menningu. Og það gerum við með því að efla Ríkisútvarpið.

Ég taldi á sínum tíma að það væri eðlilegt að ef menn gætu boðið upp á lokaðar rásir, eins og gert var með Stöð 2, þá væri sanngjarnt að Ríkisútvarpið sæti eitt að auglýsingum. Um þetta var samið í menntmn. á sínum tíma. Þáverandi formaður, Halldór Blöndal, studdi það og þannig fór það hér inn í deild, en þá risu menn upp og fluttar voru brtt. sem röskuðu því og auglýsingar voru leyfðar á Stöð 2. Það var aldrei deilt um það að það væri sanngjarnt að útvarpsstöðvar sem allir gætu hlustað á á hverjum tíma hefðu auglýsingar, þannig að það mátti standa þannig að verki að reka sjónvarpsstöð sem allir sæju og hafa auglýsingar í henni.

Hins vegar gleymist það oft að það er mikill mismunur á rekstrargrundvelli fyrir sjónvarp eftir því hvaða svæði landsins það á að þjóna. Það er tiltölulega auðvelt að setja upp sjónvarp sem nær til þéttbýlisins hér, en það fylgir því verulegur kostnaður að koma því um land allt og þess vegna ekki óeðlilegt að Ríkisútvarpið sjónvarp hefði þar vissan forgang. Og enn stöndum við þannig að við eigum eftir að gera mjög stóra hluti í dreifingu sjónvarpsins. Við eigum eftir að koma sjónvarpinu út á miðin eins og hér kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl.

Ég held þess vegna að sú þáltill. sem hér liggur fyrir sé á margan hátt þörf, en ég vil engu að síður lýsa því yfir að ég er ekki spenntur fyrir að velta því hér upp hvort Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfseignarstofnun eða hvort hún eigi að vera eign ríkisins. Mín skoðun er sú að hún eigi að vera eign ríkisins. Það má líta á íslenska ríkið sem félag, félag allra Íslendinga, og Ríkisútvarpið er einfaldlega eign þessa félags, þ.e. þjóðarinnar allrar. Og hvers vegna mætti þetta stærsta félag á Íslandi ekki eiga sitt útvarp og reka það? Hvers vegna þarf alltaf að rétta einhverjum litlum hópum aðstöðuna? Þessu er ekki slegið fram hér. Þessu er aðeins velt upp sem hugsanlegum möguleika og ég vildi að mín afstaða í þessu máli kæmi skýrt fram.

Ég vil bæta því við hér í lokin að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum þegar ég sá hvernig menningarsjóður útvarpsstöðva hafði verið notaður og verð að segja eins og er að með því máli þarf að fylgjast grannt, að þar eigi sér ekki stað nein misnotkun.