12.04.1988
Efri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6229 í B-deild Alþingistíðinda. (4279)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram af sumum að ég væri oft á skjön við hæstv. ráðherra Alþfl. Nú vill svo til að ég er sammála hæstv. félmrh. í þessu máli. Ég tel að hér sé verið, þó í litlum mæli sé, að stíga skref til þess að auka hlutdeild sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna. Ég er á þeirri skoðun að sveitarstjórnarmenn heima á sínum vettvangi eigi að vera ábyrgir fyrir þessum hlutum. Það er nóg sem er ráðmennskast hér með við skrifborð í ráðuneytum í Reykjavík þó að eitthvað af því sé sent til baka og því ráðstafað á réttum vettvangi eins og hér er um að ræða. Enda fór það svo að hv. þm. Skúli Alexandersson ætlar ekki að vera á móti þessu. Það er kannski ástæða til þess að spyrja: Talar hv. þm. í nafni Alþb.? Hver er stefna Alþb. í þessu? (Gripið fram í.) Ég spyr þá sem vilja svara. Hv. þm. Skúli Alexandersson talaði, að mér fannst, eins og þetta væri hans prívatskoðun á málinu og er ekkert við því að segja. Hver er hins vegar stefna Alþb. sem flokks í þessu máli? Eftir alla þá umræðu sem orðið hefur um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, hver er þá afstaða þess flokks þegar fyrsta skrefið er stigið, þó að það sé að vísu lítið?

Ég get að sönnu tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni og hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að vissulega þarf að huga þarna að okkar smæstu bræðrum í þessum tilfellum, litlu sveitarfélögunum. (Gripið fram í: Og systrum.) Systrum? (Gripið fram í: Systkinum.) Já. Það er meiri viðkvæmnin sem er hjá sumum hvað varðar orðalag. (Gripið fram í.) Ekki lasta ég það að menn vilji breiða sig yfir meira en ég lagði hér upp með. Ég get vel tekið undir það. En í flestum tilvikum ef ekki öllum hef ég nú litið á þetta allt saman, hvort sem er um karlmenn eða kvenmenn að ræða í sama sveitarfélaginu. Ég hef viljað ganga svo langt að það gildi sama um hvort kynið sem er þó að sumir vilji sérstaklega kyngreina í sinni túlkun.

En vissulega þarf að huga að þessum aðilum. Þarna getur þurft að gera bragarbót á varðandi smæstu sveitarfélögin sem mörg hver hafa barist í bökkum og kunna að gera það. En ég held líka að það séu til lítil sveitarfélög sem hafa borið sig vel.

Að lokum fagna ég því að menn ætla þó að fara að gera eitthvað í stað þess bara að tala. Og það er kannski rétt að taka það fram að það er þá af kvenkyni sem ráðgert er að gera eitthvað, ef menn vilja tala þannig, og ég tel það alveg ástæðulaust, eftir alla þá umræðu sem orðið hefur um þessi mál, að þegar menn loksins ætla að lyfta fingri skuli einhver rödd heyrast sem er a.m.k. í vafa. En ég bíð eftir að heyra hver afstaða Alþb. til þessa mikla máls, sem verður auðvitað þó að þetta skref sé stutt, verður, hvort það er samþykkt því að byrja með að stíga þetta skref og hvert framhaldið eigi þá að vera.